Framandi Lundúnir eru skrýtnar og skemmtilegar í augum barna sem þekkja aðeins borgarlífið í Reykjavík.
Framandi Lundúnir eru skrýtnar og skemmtilegar í augum barna sem þekkja aðeins borgarlífið í Reykjavík. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stórborgin Lundúnir hefur orð á sér fyrir að vera ekki sérlega barnvæn. Þar er þó eitt og annað sem gæti heillað unga ferðalanga eins og Bergþóra Njála Guðmundsdóttir komst að.

Sennilega eru fáir áfangastaðir jafn vel tengdir við Ísland með flugsamgöngum og London. Þangað er flogið nokkrum sinnum daglega og oft er hægt að detta niður á tiltölulega ódýr fargjöld. En ef ákveðið er að skella sér í fjölskylduferð til stórborgarinnar, hefur hún þá eitthvað annað að bjóða yngstu kynslóðinni en umferðarryk og eril verslunarmiðstöðva?

Svarið er já, en það er með þetta eins og svo margt annað, að því meiri undirbúningur og skipulag, því líklegra er að allir fái eitthvað fyrir sinn snúð. London iðar af uppákomum, skemmtigörðum, sýningum og merkilegu mannlífi sem vekur undrun og hrifningu óreyndra kríla og ef vel er leitað má jafnvel finna veitingastaði, sem eru sérstaklega hannaðir með soltna unga í huga.

Mörgum þykir Lundúnir "peningalegt svarthol", eins og einn íslenskur vinur orðaði það, en þó er ýmislegt spennandi þar að sjá sem ekki þarf að borga krónu – eða penní – fyrir að upplifa. Til að mynda er ókeypis á flest listasöfn borgarinnar, svo fremi sem ekki er um að ræða tímabundnar sýningar. Mörg safnanna hafa að auki sérstök barnasvæði þar sem ungir listamenn geta fengið útrás á forsendum sem þeim henta. Göngutúr um Hyde Park með viðkomu í Speakers Corner á sunnudagsmorgni þar sem blóðheitir ræðumenn keppast við að yfirgnæfa hver annan er skemmtilega furðuleg upplifun fyrir stóra og smáa.

Lifandi tindátar

Ákveðinn galdur er fólginn í að rölta gegn um Kínahverfið í Soho enda eins og gestunum hafi ekki bara verið kippt til annarrar borgar heldur annarar heimsálfu í einni svipan. Það er heldur ekki á hverjum degi sem litlir Íslendingar eiga kost á því að berja bráðlifandi tindáta eigin augum en það er hægt með því að fylgjast með vaktaskiptum húfuskrýddra varðmanna við Buckinghamhöll sem fara fram kl. 11:30 á morgnana. Á haustin fara þau fram annan hvern dag, sjá heimasíðu bresku hirðarinnar, www.royal.gov.uk. Þá er einföld heimsókn í risastórar leikfangaverslanir á borð við Hamleys sennilega mikið ævintýri fyrir íslensk börn.

Varúð, vinstri umferð

Ferðamáti Lundúnabúa er gott tilefni nýrra upplifana fyrir litlar manneskjur. Enginn ætti að ferðast með barn til London án þess að fara a.m.k. eina ferð með tveggja hæða strætó og þá að sjálfsögðu að sitja uppi á efri hæð. Fyrir krakka sem þekkja lestarsamgöngur ekki frá sínum heimahögum getur ferð með neðanjarðarlestinni einnig verið stórskemmtileg, og/eða leiðangur með lest ofanjarðar.

Eitt er þó mikilvægt við undirbúning fjölskylduferðar til London og það er að átta sig vel á fjarlægðum borgarinnar, því það er meira en að segja það að koma sér á milli tveggja staða í þessari ógnarstóru borg. Algert lykilatriði er að ætla sér ekki um of með því að setja of mikið á dagskrá dagsins. Slíkt getur auðveldlega endað í stresskasti yfir því að ná nú örugglega sýningunni eða borðpöntuninni á veitingastaðnum, sem allir voru búnir að hlakka svo mikið til að fara á, með tilheyrandi pirringi og jafnvel væli.

Séu fætur ferðalanganna í styttri kantinum er nauðsyn að hafa með sér kerru til að létta þeim lífið á tímafreku þrammi um borgina – þá skiptir engu þótt ungi heimsborgarinn sé löngu hættur að nota slíkt farartæki heimavið. Fari krílin hins vegar um á tveimur jafnfljótum má ekki gleyma einni stærstu hættunni og furðunni við Lundúnaborg, þ.e. vinstri umferðinni. Sennilega er langbest að sleppa ekki hendinni af þeim, jafnvel þótt þau þykist nú vera orðin býsna stór. Þau stuttu eru nefnilega nógu áttavillt í íslenskri hægri umferð, þótt öllu sé nú ekki snúið öfugt að auki.

ben@mbl.is

Skemmtigarðar og tívolí

Meðal elstu og sögufrægustu dýragarða heims er London Zoo sem er í hjarta borgarinnar, nánar tiltekið í norðurhluta Regent's Park. Garðurinn var opnaður árið 1828 og hefur í dag á að skipa um 650 dýrategundum, þar af 112 sem teljast vera í útrýmingarhættu. Meðal íbúa garðsins eru ljón, tígrisdýr, apar og górillur, gíraffar, fílar og fleiri frumskógardýr, mörgæsir, pelíkanar og annar fiðurfénaður, búfé og heimskautaskepnur svo örlítið brot af lífríki garðsins sé nefnt.

Séu ungu ferðalangarnir frekar á þeim buxunum að upplifa hasar og hraða eru nokkrir skemmtigarðar sem bjóða upp á æsispennandi tívolítæki. Fyrir norræna hugvitsmenn gæti Legoland verið þar efst á blaði en garðurinn er staðsettur í Windsor sem er í um hálftíma fjarlægð frá Paddington-stöðinni í London, sé farið með lest. Í Legolandi er fjöldinn allur af tækjum, leikjum, sýningum og byggingastöðum sem henta börnum á mismunandi aldri. Hér er um að gera að gefa sér góðan tíma líkt og á við um aðra garða í þessari úttekt.

Þannig dugar sennilega ekkert minna en dagur í heimsókn í ævintýraveröldina Chessington World of Adventures, sem staðsett er suðvesturhluta London. Garðinum er skipt í tíu mismunandi svæði og má þar nefna Dýragarðinn, Forboðna konungsríkið, Drekalandið og Dularfulla austrið svo eitthvað sé nefnt. Garðurinn er stappfullur af leik- og hasartækjum og auðvitað ævintýrum fyrir stóra sem smáa.

Fleiri tívolígarðar eru í boði, s.s. Thorpe Park, sem er í um 30 kílómetra fjarlægð frá miðborginni og inniheldur m.a. hraðskreiðasta rússíbana í Evrópu. Hægt er að komast í garðinn m.a. með því að taka lest frá Waterloo-stöðinni að Staines Station þaðan sem rútur fara á hálftíma fresti að garðinum.

Fyrir þá sem ekki þurfa á hasar yfir heilan dag að halda en vilja kannski fá pínulítið adrenalín í blóðið um leið og þeir njóta frábærs útsýnis gæti verið hugmynd að fara eina ferð í London Eye, risastóra parísarhjólinu sem staðsett er í hjarta borgarinnar.

Á sviðinu

Hvað er London ef ekki leikhúsborgin mikla og það gildir ekki síður fyrir unga leikhúsgesti. Þótt þeir kunni ekki tungumálið er ýmislegt í boði á leiksviðinu sem gæti auðveldlega fangað lítil augu og eyru. Má þar nefna söngleiki á borð við The Lion King, Mary Poppins og Wicked þar sem lagt er út af sögunni af Galdrakarlinum í Oz með tilheyrandi söng og sprelli.

Þótt fyrirframkeyptir miðar séu oftast dýrari en þeir sem eru keyptir á staðnum gæti verið vel þess virði að kaupa miða að sýningunni fyrirfram á netinu. Þannig tryggir maður ekki bara sæti fyrir fjölskylduna heldur er komist hjá því að eyða dýrmætum Londonmínútum í biðraðir.

Í svanginn

Fína ferðaskapið getur auðveldlega fokið út um gluggann þegar hungrið fer að sverfa að litlu ferðalöngunum. Því þarf að passa sérstaklega upp á að maginn sé ekki lengi tómur í senn. Þó að veitingastaðir í London hafi ekki beinlínis orð á sér fyrir að taka börnum fagnandi er það þó síður en svo algilt og nokkrir veitingastaðir gefa sig beinlínis út fyrir að vera fyrir börn og fjölskyldufólk.

Meðal þeirra er veitingastaðurinn Rainforest Café, þar sem Amazon stemning ræður ríkjum. Meðal annars hefur staðurinn á að skipa Sveppabarnum, Fiðrildasalnum, fílaþema, gríðarstóru fiskabúri, górilluuppstillingum, öllu vel umluktu skógarþykkni sem íslenskir heimskautsbúar ættu að kunna vel að meta. Matseðillinn hentar litlum bragðlaukum ágætlega, hamborgarar, pasta, samlokur og kjúklingaréttir ásamt spennandi eftirréttum. Veitingastaðurinn er staðsettur á Shaftesburey Avenue, við Piccadilly Circus.

Rólegt andrúmsloft og hollur matur ku einkenna fjölskylduvænu Giraffe veitingastaðina sem er að finna á nokkrum stöðum í London, s.s. við Battersea, Kensington og Marylebone svo eitthvað sé nefnt (hægt er að sjá lista yfir staðsetningar á heimasíðu Giraffe). Matseðillinn samanstendur af réttum frá ýmsum heimshornum en ef framandi krydd og óvenjulegt bragð á ekki upp á pallborðið hjá litlum matgæðingum er boðið upp á sérstakan barnamatseðil með "hefðbundnari" réttum.

Loks má nefna kaffihúsið Lazy Daisy sem staðsett er á Portobello Road í Notting Hill hverfinu. Ef marka má umsagnir gesta er afslappað andrúmsloftið kjörið til þess að róa niður fjöruga og þreytta ærslabelgi í miðju amstri borgarheimsóknarinnar.

Uppgötvanir í hverju horni

Framboð spennandi safna fyrir litla heimshornaflakkara og ferðafélaga þeirra er gífurlegt í London. Fyrst má þar nefna Náttúrugripasafnið (The Natural History Museum) sem er sérstaklega þekkt fyrir sínar tilkomumiklu risaeðlubeinagrindur. Í næsta herbergi fanga stórhveli auðveldlega huga safngesta sem einnig eru leiddir um undraheima agnarsmæstu skordýra að geimnum í öllu sínu veldi. Aðgangur er ókeypis en borga þarf inn á tímabundnar sýningar.

Vísindasafnið (The Science Museum) er mikill ævintýraheimur fyrir fróðleiksfúsa krakka á öllum aldri. Þar fá þeir að framkvæma ýmsar vísindatilraunir og prófa á eigin skinni hvernig hlutirnir virka. Þá geta gestir reynt hvað þarf til að vera njósnari á gagnvirkri fjölskyldusýningu á safninu. Aðgangur að safninu er ókeypis en borga þarf inn á stöku sérsýningar.

London Aquarium er einnig safn úr náttúrunni, þar sem yfir 350 tegundir búa, allt frá hákörlum og trúðafiskum að álum og kröbbum.

Eitt frægasta safn Lundúnaborgar er að sjálfsögðu vaxmyndasafn Madame Tussaud's, þar sem gestir geta blandað geði við allt frægasta fólkið í veröldinni, allt frá leikurum og íþróttastjörnum að stjórnmálamönnum, kóngafólki og viðskiptajöfrum. Þar er líka sérstakt hryllingsherbergi sem e.t.v. hentar ekki allra yngstu gestunum en getur haft þeim mun meira aðdráttarafl fyrir þá sem eldri eru.

Sé hrollur og skelfing mjög ofarlega á óskalistanum er einnig hægt að heimsækja Lundúnadýflyssurnar eða London Dungeon. Þar eru myrkustu stundir borgarinnar sviðsettar með það að markmiði að skjóta gestum skelk í bringu. Ráð er að forða yngstu krílunum frá þessari heimsókn.