Í beinni Hörður F. Sigþórsson var stilltur í Valsheimilinu.
Í beinni Hörður F. Sigþórsson var stilltur í Valsheimilinu. — Morgunblaðið/Ómar
ÞAÐ er ánægjulegt þegar nýir fjölmiðlar verða að veruleika og enn betra þegar þeir festa rætur. Einfalt er, í sjálfu sér, að byrja, meira mál að endast. Sjónvarpsstöð Ingva Hrafns Jónssonar, Íslands nýjasta nýtt (ÍNN), vex jafnt og þétt fiskur um hrygg.
ÞAÐ er ánægjulegt þegar nýir fjölmiðlar verða að veruleika og enn betra þegar þeir festa rætur.

Einfalt er, í sjálfu sér, að byrja, meira mál að endast.

Sjónvarpsstöð Ingva Hrafns Jónssonar, Íslands nýjasta nýtt (ÍNN), vex jafnt og þétt fiskur um hrygg. Ég verð að játa að mér hefur ekki gefist mikill tími til þess að horfa á sjónvarp síðustu mánuði en ég tek eftir því að dagskrá ÍNN er mjög fjölbreytt. Og ókeypis.

Annar fjölmiðill sem ég rakst á fyrir skömmu er sporttv.is, stöð á netinu þar sem ég gat fylgst með handboltaliðinu mínu, Akureyri, etja kappi við Valsmenn á Hlíðarenda í fyrstu umferð Íslandsmótsins. Þá sat ég og vann á Akureyri og horfði á leikinn í tölvunni á meðan. Ókeypis. Ég veit ekki hver á þessa stöð eða rekur hana, en hafi sá bestu þakkir.

Leikurinn er „bara“ tekinn upp með einni vél, en það er alveg nóg. Ég sá leikinn, þulurinn upplýsti mig reglulega um stöðuna og hvað tímanum leið. Allt var frábært, nema úrslitin...

Fyrirsögn þessa pistils er sótt í auglýsingu frá stöð Ingva Hrafns í Morgunblaðinu í vikunni. Svar mitt er nei. Hann mætti t.d. sjálfur stundum vera stilltari; sérstaklega þegar hann fjallar um pólitík.

Skapti Hallgrímsson