Páll Arason ferðafrömuður fæddist á Akureyri 2. júní 1915. Hann lést á Akureyri 7. janúar 2011. Foreldrar hans voru Dýrleif Pálsdóttir saumakona og Ari Guðmundsson skrifstofustjóri. Systir Páls er Guðný, húsmóðir í Reykjavík. Páll kvæntist Huldu Björnsdóttur 1942, en hún lést 1983. Eignuðust þau tvö börn, Rannveigu, f. 1942, d. 1993, og Björn, f. 1948, búsettur á Akureyri. Seinni kona Páls var Kristín Hrafnfjörð, búsett í Reykjavík, en þau slitu samvistir. Störf vann Páll ýmiskonar í gegnum tíðina, var leigubílstjóri hjá Steindóri, sýningarmaður í Gamla bíói og rak ferðaskrifstofu um tíma. Hann var mikill öræfamaður og ferðaðist með fjölda fólks um hálendi Íslands enda þekktur frumkvöðull á því sviði. Páll bjó um tíma í Þýskalandi þar sem hann undirbjó hópferðir með íslenska ferðamenn til Evrópu fyrstur manna. Þá starfaði hann hjá Vegagerðinni en lét af störfum 1982, flutti norður yfir heiðar og byggði sér hús í Bugi í Hörgárdal þar sem hann stundaði skógrækt og fiskeldi af mikilli elju þar til hann fluttist til Akureyrar 2001. Útför Páls fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 21. janúar 2011, og hefst athöfnin kl. 13.30.

Nokkrir ungir menn sátu á Teríunni á Hótel KEA fyrir margt löngu. Rætt var um hálendið og ferðalög um það meðan á máltíð stóð, má vera að umræðan hafi ekki alltaf verið mjög gáfuleg. Allt í einu hóf skræk rödd sig yfir skarkalann: Þið eruð nú meiri andskotans hálfvitarnir! Vitið ekkert um landið! Að heyra til ykkar! Þið ættuð að skammast ykkar! Á þann veg ruddist Páll Arason inn í líf okkar, og það leiddi til fastra samverustunda í hádeginu á föstudögum, fyrst á Teríunni og seinna á Bautanum, samverustunda sem stóðu í 17 ár þótt heimsóknir hans yrðu strjálar undir það síðasta. Alltaf var rætt um pólitík og landafræði að ógleymdu uppáhaldsumræðuefni Páls sem var heimska Íslendinga og aumingjaskapur, einkum þó Akureyringa. Um það efni gat hann flutt marga fyrirlestra og góða. Í pólitík leit hann upp til þýskra nasista og taldi leitt að þeim hefði ekki tekist ætlunarverk sitt. Honum var uppsigað við fólk af öðru litarafti en hvítu og taldi því flest til foráttu. Hann taldi kvenfólk óæðra karlmönnum og hlutverk þess væri fyrst og fremst að vera mönnum sínum auðsveipt og því ástæðulaust fyrir það að hafa skoðanir. Í það minnsta væri ástæðulaust fyrir það að flíka þeim. Í ljósi ofanritaðs er ekki óeðlilegt að menn velti fyrir sér hvurn fjandann menn á besta aldri og tiltölulega frjálslyndir í hugsun séu að vilja með að vera í tygjum við svona kauða. En þá komum við að því sem var innan við skelina og þangað komumst við í áður nefndu atviki á Teríunni. Maðurinn vissi gjörsamlega allt um landafræði Íslands, það var sama um hvaða hól eða lækjarsprænu hann var spurður, hann kunni á því skil. Páll hafði ljósmyndaminni. Hann þekkti allar leiðir, öll örnefni, hæð á fjöllum, dýpt á vötnum, við gátum aldrei rekið hann á gat í neinu. Sömuleiðis var þekking hans á ábúendum landsins eftirtektarverð. Þegar hann hitti fólk á förnum vegi kynnti hann sig og spurði að nöfnum og síðan spurði hann tíðinda. Vegna þessa þekkti hann fólk vítt og breitt um landið og nánast ekki til það krummaskuð sem Páll hafði ekki komið á. Hann var þó ekki kunnugur um Vestfirði en um 85 ára aldur afréð hann að bæta úr því. Settist hann því upp í appelsínugula Lödubifreið sína, ók úr hlaði og sem leið lá vestur í Skagafjörð og þaðan í Húnavatnssýslu. Var nokkuð um liðið frá því að Páll hafði ekið svo langt og fór hann fljótlega að kenna þreytu. Honum þótti umferðin of hröð og fannst hann ekki eins viðbragðsfljótur og forðum. Greip hann þá til þess ráðs að aka eftir miðjum vegi og fann þá fljótt að truflandi umferð annarra vegfarenda varð minni, enda komst enginn framúr honum. Þegar hann nálgaðist Blönduós var hann stöðvaður af lögreglu sem bað hann þess lengst orða að halda sig hægra megin á veginum. Páll taldi sig ekki geta orðið við þeirri bón þar sem umferð væri of þung, auk þess vó nokkuð að lögreglumaðurinn var kvenkyns og því lítil ástæða til að hlýðnast. Varð að ráði að lögreglan ók á undan honum alla leið að Brú í Hrútafirði með blikkandi ljós og hafa ekki margir fengið slíka heiðursfylgd í sýslum landsins.
Til Vestfjarða komst Páll og fór hring, kom alls staðar við, stoppaði í sjoppum og fékk sér kaffi, hann kynnti sig og spurði afgreiðslufólk að nafni og sagði seinna frá að hann hafi drukkið kaffi hjá henni Gunnu á þessum stað og Jónu á hinum. Páll drakk nefnilega ekki kaffi í sjoppum, hann drakk kaffi hjá fólki og með því. Hann kunni þá list að koma á nýjan völl og taka menn tali og skilja síðan við það eins og aldavinur. Hann var alla tíð hinn kurteisasti þegar hann var meðal ókunnugra og átti þá jafnvel til að bjóða af sér góðan þokka. Svo var einnig þegar hann kom í heimsókn til fólks, þá má segja að hann hafi vaðið í mannasiðum. Þá var hann einnig höfðingi heim að sækja, veitti vel og var hinn skemmtilegasti. Páll var maður sem óhikað gekk á vit nýrra ævintýra hvenær sem færi gafst. Hann var fyrstur manna til að aka Sprengisand, alla vega að norðan. Hann kannaði öræfin fótgangandi og fann slóðir og leiðir sem hann nýtti síðan. Hann gerði út fjallarútur fyrir ferðamenn, var frumkvöðull á því sviði. hann fór margar ferðir með rútu sína fulla af Íslendingum frá Danmörku gegnum Evrópu og niður til Ítalíu, þaðan jafnvel með skipi til Marokkó og svona mætti lengi telja. Hann var alla tíð óhræddur við að takast á við hið óþekkta. Það langaði hann líka til á síðasta afmælisdegi sínum, sagði að nú væri góður dagur til að deyja. Það var reyndar nokkur bið á því en það var þó ekki vegna þess að viljinn væri ekki fyrir hendi. Andinn var reiðubúinn en líkaminn ekki fyrr en nýlega. Megi þetta ferðalag verða honum jafn lærdómsríkt og spennandi og hin fyrri.

Friðrik, Guðmundur Kristinn, Jón Lambi, Sigurkarl, Tómas, Guðlaugur og Aðalsteinn.