Sigursteinn Davíð Gíslason fæddist á Akranesi 25. júní 1968. Hann lést á krabbameinslækningadeild Landspítalans 16. janúar 2012. Móðir hans er Margrét Teitsdóttir, f. 31.8. 1937, hún er gift Guðlaugi Eiríkssyni, f. 25.5. 1927. Systkini Sigursteins sammæðra eru Halldóra Lilja Gunnarsdóttir, f. 17.4. 1956, d. 6.8. 2006, eftirlifandi maður hennar er Gísli Arason og eiga þau einn son. Örn Arnar Gunnarsson, f. 28.6. 1959. Rúnar Gunnarsson, f. 16.5. 1960, giftur Hrefnu Ingólfsdóttur, eiga þau tvö börn. Teitur Gunnarsson, f. 14.2. 1964, giftur Önnu Björgu Gunnarsdóttur og eiga þau þrjú börn. Faðir hans er Gísli Víglundsson, f. 25.8. 1935. Systkini samfeðra eru Júlíana Gísladóttir sem lést árið 2000, skildi hún eftir sig fjögur börn og Sveinn Gíslason. Eftirlifandi eiginkona Sigursteins er Anna Elín Daníelsdóttir, f. 9.1. 1972, gengu þau í hjónaband 27.11. 1994. Börn þeirra eru Sóley, f. 12. ágúst 1997, en hún lést sama dag, 12. ágúst 1997, Magnús Sveinn, f. 30.7. 1999, Unnur Elín, f. 7.11. 2004 og Teitur Leó, f. 24.4. 2006. Móðir Önnu Elínar er Elínbjörg Magnúsdóttir, f. 24.3. 1949. Anna Elín ólst upp að jöfnu leyti á heimili móður sinnar og móðurforeldra sinna í Belgsholti í Melasveit, hjónanna Magnúsar Ólafssonar, en hann er látinn, og Önnu Ingibjargar Þorvarðardóttur. Sigursteinn og Anna Elín hófu búskap árið 1989 og voru búsett á Akranesi til ársins 1999 en síðan þá hafa þau búið í Reykjavík. Sigursteinn var starfsmaður Akraneskaupstaðar í 11 ár áður en þau fluttu til Reykjavíkur. Frá árinu 2000 var hann fyrst starfsmaður TVG-Zimsen og síðar Eimskips þar sem hann starfaði til dánardags. Sigursteinn var mikill afreksmaður í knattspyrnu og síðar knattspyrnuþjálfari. Útför Sigursteins fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, 26. janúar 2012, kl. 15.

Elsku Steini. Engin orð geta lýst því hversu sárt það er að sjá að baki jafn frábærum manni eins og þér.  Þó að þú hafir nú kvatt okkur vinur, þá lifir minningin um Meistarann Steina Gísla áfram og öll þín afrek sem íþróttarmaður munu ávallt vera í minnum höfð. Minningin um frábæran leikmann sem alltaf var tilbúinn til að gefa allt fyrir liðið sitt, sem dró liðið sitt áfram af eldmóði, baráttu og sigurvilja lifir sterk í minni þeirra sem nutu þess að spila með þér, horfa á þig og ekki síður þeirra sem lentu í því að þurfa að spila á móti þér.

En eins og þú sagðir sjálfur voru þínir stærstu sigrar utan vallarins. Að hafa kynnst Önnu Elínu, gifst henni og stofnað með henni fjölskyldu þar sem þrír yndislegir englar eru staðfesting á ást ykkar, það var þinn langstærsti og mikilvægasti sigur. Það var sá sigur sem þú varst svo lang stoltastur af. Enda var það eini sigurinn sem þú hreyktir þér og montaðir þig af. Í þeim sigri skein líka meistarahæfni þín hvað sterkust í gegn því betri eiginmann og föður er ekki hægt að hugsa sér.

Það sama má segja um okkur sem vorum sem heppin að mega kalla þig vin og eiga þig að sem vin, því heildsteyptari og traustari vin er heldur ekki hægt að hugsa sér.  Það er eitthvað sem ég er mjög stoltur af að geta sagt, Steini Gísla var vinur minn. Hægt væri að halda áfram að telja upp alla þína kosti sem persónu og er þar af nægu að taka.

Það er oft að sagt að fólk sýni sitt rétta eðli þegar á móti blæs, þegar á reynir og erfiðleikar standa fyrir dyrum. Það var á vordögum síðast liðins árs að þú mættir þínum stærsta og erfiðasta andstæðing sem um getur. Erfiðari andstæðing er ekki hægt að hugsa sér. Engu að síður var engan bil bug á þér að finna og blést þú, eins og þér einu var lagið, til sóknar þó svo að vitað var að við ofurefli væri að etja. Í þeirri baráttu áttir þú þér svo sannarlega öfluga liðsfélaga en engan þó sterkari en hana Önnu Elínu þína, sem þú kallaðir Klettinn þinn. Sókn þín gekk vel en rétt fyrir jól sneri svo þessi sterki og andstyggilegi andstæðingur vörn í sókn og réðist að þér með öllu sínu afli og lét þig svo sannarlega finna til tevatnsins. Eins og áður barðist þú hetjulega og fórst fremstur í flokki liðs þíns með eldmóðinn að vopni, þar sem Anna Elín stóð þér sterk við hlið og varðist með þér. Þó þú værir orðinn helsærður var ekkert til hjá þér sem hét uppgjöf, heldur hélstu áfram að blása eldmóði í liðsfélaga þína. Þegar ljóst var orðið að andstæðingurinn færi með sigur af hólmi þá notaðir þú einmitt síðustu krafta þína til að hvetja liðsfélagana til dáða svo að þeir gætu tekist á við það sem á eftir kæmi þegar að meistarans nyti ei lengur við. Þannig varstu ávallt elsku Steini það var alltaf fjölskyldan fyrst, vinirnir fyrst, liðið fyrst og síðan þú.

Það er jú eitt af því sem einkennir sanna sigurvegara eins og þig er að kunna að tapa. Tapinu tókst þú eins og sannur sigurvegari, með einstakri reisn og sæmd.

Ég var þess heiðurs njótandi að fá að berjast með þér í þessari lokabaráttu en þetta var alveg eins og áður er við börðumst á vellinum saman, alltaf var jafn gaman og gefandi að vera nálægt þér, alltaf var það eldmóður þinn sem dró mann áfram. Alltaf var stutt í húmorinn þinn, þó svo að alvarleiki barátturnar hafi blasað við okkur öllum. En rosalega er ég ánægður og stoltur af því að hafa mátt berjast með þér á síðustu metrunum þínum og að hafa mátt styðja þig eins og  ég gat, en það var bara oft spurning hver var að styðja hvern? Æðruleysið þitt mun styrkja mig í lífinu um ókomna tíð og hefur gert mig að betri manni. Þú gerðir mig að betri manni.

Það er sumt, sem maður saknar

vökumegin við

leggst útaf, á mér slokknar

svíf um önnur svið,

í svefnrofunum finn ég

sofa lengur vil,

því ég veit að ef ég vakna

finn ég aftur til.

(Björn J. Friðbjörnsson og Daníel Ágúst Haraldsson)

Þessar síðustu stundir ræddum við um heima og geima. Eins og þér einum var lagið talaðir þú mig inná eitt og annað og lést mig lofa þér nokkrum hlutum. Það fyrsta hef ég nú þegar uppfyllt. Annað er komið í fulla vinnslu og veistu að hún brosti allan hringinn. Það þriðja mun ég leitast við að uppfylla svo lengi sem ég lifi. En það síðasta get ég ekki uppfyllt nema að hluta til, því ég græt sorgartárum nú um stund og syrgja þig vinur, en þegar fram líða stundir munu sorgartár breytast í gleðitár eins og þú baðst um. Því það munu falla mörg gleðitárin er rifjaðar verða upp minningar um einstakan dreng sem allir geta tekið sér til fyrirmyndar.

Þá dreymir mig um bassann sem botninn fylla kann

og bið svo Guð um sólógítar til að styðja hann

Ég trommur þarf sem geti ég takti haldið vel

og tíguleg í fjarska að heyra strengi flott ég tel.

(Vilhjálmur Vilhjálmsson)

Elsku Steini okkar takk fyrir allar skemmtilegu stundirnar sem við áttum saman. Ótal útilegur, spilakvöld, heimsóknir bæði á Íslandi og í útlöndum eru minningar sem við huggum okkur við á þessum erfiðu stundum. Minningarnar um þig sem alltaf varst svo skemmtilegur og góður, jákvæður og blíður, traustur og trúr. Heimsókn ykkar til Stone 2005 er Victoria Þórey fæddist er ein af þessu ógleymanlegu stundum, þegar við fórum öll og fengum okkur steik saman eftir að Anna Lilja missti vatnið degi fyrir fæðingu og  Anna Elín var ný orðin ófrísk af Teit Leó. En fjölskylduferðin okkar til Orlando um jólin 2010 er eitthvað sem við munum aldrei gleyma og er okkur öllum einstaklega mikilvæg minning, en þar naust þú þín fullkomlega í faðmi fjölskyldunnar og með okkur sem vorum svo heppin að hafa mátt kalla þig vin. Elsku besti Steini við kveðjum þig með sorg í hjarta og miklum söknuði. Við munum minnast þín um ókomna tíð, því minningin um jákvæðan, skemmtilegan og góðan vin lifir með okkur alla okkar tíð.

Elsku Anna Elín, Magnús Sveinn, Unnur Elín og Teitur Leó megi Guð gefa ykkur æðruleysi og styrk til að takast á við ykkar mikla missi, en verið þess fullviss að Steini pabbi vakir yfir ykkur og hann mun lifa áfram í hjörtum ykkar og minningum um ókomna tíð.

Guð gefi mér æðruleysi
til að sætta mig við það
sem ég fæ ekki breytt,
kjark til að breyta því
sem ég get breytt
og vit til að greina þar á milli.
(Reinhold Niebuhr)

Guð blessi þig Steini, okkar kæri vinur.

Þórður Guðjónsson, Anna Lilja Valsdóttir og dætur.

Mig langar til að minnast Steina með nokkrum orðum, ég kynnist Steina fyrst þegar hann er ráðin þjálfari hjá Leikni í sept. 2008. Hann kemur í gáminn  og skrifar undir samning við okkur og með honum er Unnur Elín ekki há í lofti. Á þessum tímapunkti hvarflaði ekki að mér það sem í vændum var og hvað við áttum eftir að ná vel saman. Undirbúningstímabilið hefst og maður var frekar spenntur fyrir því að sjá hvernig Steina tækist að höndla þá drengi sem fyrir voru hjá félaginu og það kom snemma  í ljós að Steini var alveg með þetta. Hann náði vel til strákanna og var tilbúinn að leggja mikið á sig fyrir þá og þeir fyrir hann. Fyrsta árið var svona upp og niður og niðurstaðan 7. sæti í  1. deild 2009. Miklar breytingar voru hjá félaginu þetta árið þar sem félagið flutti  inn í nýja húsið og þar kom hann með margar góðar hugmyndir sem við áttum svo eftir að framkvæma. Sumarið 2010 verður lengi í minnum haft fyrir það hve tilfinningaþrungið það var varðandi fótboltann. Okkur gekk vel þetta sumarið og Steini náði því besta út úr öllum þeim sem komu að félaginu. Hann gaf sér góðan tíma fyrir og eftir æfingar, gaf mikið af sér til strákanna og þar miðlaði hann þeirri reynslu sem hann sjálfur hafði öðlast á sínum ferli sem knattspyrnumaður. En við áttum líka góðar stundir fyrir utan boltann, einu sinni fórum við í útilegu á Hraunborgir og þá sá maður hvað Steini var mikill fjölskyldumaður og hvað hann naut þess að vera með börnum sínum og Önnu sinni, sem hefur staðið við bakið á honum í gegnum lífið hvort  sem um er að ræða sigra eða sorgir. Samheldnari fjölskyldu hef ég sjaldan séð, en ég held bara að Anna og börnin hafi komið á hvern einasta leik á meðan Steini var að þjálfa hjá Leikni. Sumarið 2010, 3. sæti í 1. deild og við fórum að hugsa til baka leik fyrir leik og hversu nálægt því við voru að ná því markmiði sem stefnt var að, ræddum það fram og til baka og alltaf sagði Steini; Bjarni þetta er bara fótbolti . Ég verð að segja að ég átti erfitt með að sætta mig við það, en í dag þegar þetta er skrifað þá hugsa ég um þessi orð hans og já þetta er bara fótbolti. Það er svo margt annað í lífinu sem við þurfum að takast á við annað en þessi bolti. Það átti svo sannarlega eftir að koma í ljós á vormánuðum 2011 , undirbúningstímabilið var á fullu við vorum búnir að fara í æfingaferð með strákanna til Portúgal og það var stutt í að deildin færi af stað, við byrjuðum ekki vel, en höldum áfram og svo skellur á okkur eitthvað sem engin átti vona á, Steini fer  að finna fyrir einhverjum óþægindum. Ég man það eins og það hafi gerst  í gær, hann var með endurheimt á laugardegi og var eitthvað að finna fyrir einhverju í síðunni, var eitthvað slappur, og svo kom sunnudagur,  og eitthvað var hann enn slappur,  svo fór hann á spítalann á sunnudegi og þá kom í ljós að hann var orðinn veikur. Mikið áfall og við tók mjög erfiður tími, en Steini ákvað að taka því með æðruleysi og takast á við þetta verkefni eins og svo mörg önnur á lífsleiðinni. Steini fór í veikindaleyfi hjá Leikni og síðar var tekin ákvörðun um að skipta um þjálfara, leiðinda mál sem ég ætla ekki að tjá mig um hér. Þrátt fyrir þetta þá mætti fjölskyldan á völlinn upp í Breiðholt, leik eftir leik og stóðu á hólnum og hvöttu drengina áfram út sumarið því hann átti svo mikið í þessum strákum. En við héldum áfram að fara á völlinn hvort sem var í 1. deild eða úrvalsdeild og það lá við að ég hafi fengið excel-skjal frá honum á sunnudegi með dagskrá vikunnar. Og einhvern tímann var það þannig að við gátum farið á 3 leiki sama daginn. Og það var svo gaman að fara með Steina á völlinn, þá sá maður hversu vinmargur hann var og hversu mikil virðing var borin fyrir honum og það skipti ekki máli á hvaða velli við vorum. Við fórum einu sinni í Grindavík og þá hélt ég að það yrði aðeins rólegra og hann gæti tekið fleiri skref án þess að hitta einhvern, en nei svo var ekki og hann þekkti líka marga þar. Þegar sumrinu lauk myndaðist tómarúm hjá okkur félögum og við biðum spenntir eftir því að æfingaleikir haustsins byrjuðu, og um leið og þeir fóru af stað fórum við á þá leiki sem í boði voru, þó oftast á Leiknisleiki og mikið þótti okkur gott að þetta væri nú farið af stað aftur. En svo kom að því að Steini þurfti að fara á spítalann og mikið þótti manni lífið vera ósanngjarnt að horfa á hann og geta ekkert gert til að hjálpa honum, maður var bara eitthvað svo máttvana gagnvart því sem var að gerast, en þær stundir sem við áttum saman voru svo góðar. Þó svo að ég hafi ekki þekkt Seina lengi þá áttum við góða vináttu og ég á seint eftir að gleyma þessu góða manni sem talaði aldrei illa um nokkurn mann og var góðmennskan ein frá toppi til táar.

Elsku Anna, Magnús, Unnur og Teitur, megi góður guð vera með ykkur í þessari miklu sorg, minning um góðan eiginmann og föður mun lifa um ókomna tíð.

Blessuð sé minning hans.

Bjarni Björnsson.