Ingibjörg Óladóttir fæddist á Ísafirði 2. september 1920. Hún lést á Dvalarheimilinu Höfða, Akranesi, 18. nóvember 2012. Foreldrar hennar voru Sr. Óli Ketilsson, prestur í Ögurþingum, N-Ísafjarðarsýslu, f. 26. september 1896 á Ísafirði, d. 25. mars 1954, og kona hans María Tómasdóttir, f. 4. nóvember 1896 á Ísafirði, d. 24. maí 1978. Systkini Ingibjargar voru Kristín Álfheiður, f. 11. apríl 1919, d. 23. október 2006. Katrín, f. 12. mars 1926, d. 29. október 1965. Bolli, f. 10. mars 1929. Gunnar, f. 30. október 1931, d. 28. maí 1997. Uppeldisbróðir Ingibjargar var Lúðvík A. Magnússon, f. 25. ágúst 1918, d. 12. júní 1994. Ingibjörg giftist Gunnari Hirti Bjarnasyni sjómanni frá Ögurnesi h. 2. mars 1940. Hann var fæddur 29. október 1917, d. 2. desember 1971. Foreldrar hans voru Bjarni Einar Einarsson, fiskmatsmaður og sjómaður, f. 4. febrúar 1874, d. 28. mars 1959 og kona hans Halldóra Sæmundsdóttir, f. 26. mars 1886, d. 20. september 1975. Afkomendur Ingibjargar og Gunnars eru samtals 42. 1) Álfdís Gunnarsdóttir, f. 1940, maki Þorsteinn Ingimundarson, f. 1946. Börn þeirra eru a) Þórhildur, f. 1967, maki Hjörtur, f. 1965, þau eiga tvær dætur, faðir Þórhildar er Pálmi Þór Pálsson, f. 1940, b) Hugrún, f. 1972, maki Jón Grétar, f. 1973, þau eiga þrjú börn, c) Lára Birna, f. 1975, maki Þröstur, f. 1976, þau eiga tvö börn, d) Ingimundur, f. 1980, maki Marina, f. 1984. 2) Gunnar Hjörtur, f. 1942, maki Jónina I. Melsteð, f. 1944. Börn þeirra eru a) Gunnlaugur Melsteð, f. 1963, á hann tvö börn, mæður þeirra Sigfríður, f. 1967 og Margrét, f. 1965 b) Ingibjörg, f. 1966, maki Pétur, f. 1975, þau eiga þrjú börn, c) María Sigrún, f. 1968, maki Gísli, f. 1969, þau eiga þrjú börn, d) Sveinborg Hlíf, f. 1979. 3) Óli Gunnarson, f. 1945, maki Ingibjörg Salóme Gísladóttir, f. 1943. Börn þeirra eru a) Líney, f. 1965, maki Sigurbjörn Jón, f. 1968, þau eiga tvö börn, auk dóttur, faðir hennar er Þorsteinn, f. 1964. b) Sigrún, f. 1970, maki Valdimar Örn, f. 1969, þau eiga eina dóttur. 4) Ingi Þórir Gunnarsson, f. 1949, maki Ragnheiður Jósúadóttir, f. 1951. Sonur þeirra Ragnar Ingi, f. 1982, maki Inga Rún, f. 1983, þau eiga einn son. 5) Halldór Gunnarson, f. 1951, d. 1990. 6) Bjarni Einar Gunnarsson, f. 1956, maki Valgerður Olga Lárusdóttur, f. 1958. Börn þeirra eru a) Gunnar Hjörtur, f. 1974, d. 1996, b) Ása Katrín, f. 1990, maki Haukur Óli, f. 1985. Ingibjörg ólst upp í Súðavík og Dvergasteini við Álftafjörð, síðan flutti hún með foreldrum sínum að Hvítanesi við Skötufjörð, Ögurhreppi, N-Ísafjarðarsýslu. Haustið 1949 fluttu þau Ingibjörg og Gunnar til Akraness. Hann vann í Sementsverksmiðjunni og stundaði sjóinn í frístundum og hún var heimavinnandi húsmóðir og annaðist barnahópinn. Þegar Ingibjörg varð ekkja aðeins 51 árs að aldri hóf hún störf í þvottahúsi Sjúkrahúss Akraness. Þar vann hún í tæplega 20 ár eða þar til hún komst á eftirlaunaaldur. Hún bjó við góða heilsu lengst af. Útför Ingibjargar fór fram í kyrrþey frá Akraneskirkju 21. nóvember 2012.

Amma Ingibjörg var fædd á Ísafirði og bjó síðan lengi vel á Hvítanesi. Hún var stolt af uppruna sínum og fylgdist vel með fólkinu og mannlífinu við Djúpið. Lengi vel höfðum við aðeins hlýtt á frásagnir hennar þaðan en seinni árin áttum við kost á að ferðast með henni um heimahaga hennar í Djúpinu. Gátum við þá séð hana ljóslifandi fyrir okkur sem unga stúlku syndandi í sjónum í Álftafirði með systrum sínum. Árið 1949 fluttust amma og afi til Akraness, þar sem amma bjó síðan alla tíð og þaðan eigum við margar sælar minningar af ömmu á Akranesi eins og hún var oft kölluð. Afi okkar féll frá langt fyrir aldur fram og var það mikið áfall fyrir ömmu. Ekki einungis að þar missti hún sinn heitt elskaða eiginmann, heldur líka föður barnanna sinna og fyrirvinnu heimilisins. Hún þurfti því að fara út á vinnumarkaðinn og standa á eigin fótum. Henni farnaðist það verkefni vel úr hendi, þó að það hafi örugglega oft verið erfitt og einmanalegt að verða svona ung ekkja með stórt heimili. Ömmu var ekki fisjað saman, sem dæmi má nefna að hún tók bílpróf á sextugsaldri. Það kom sér vel fyrir hana, hvort sem var í útréttingar fyrir heimilið, til að skutlast með Hadda frænda eða á síðari árum til að fara í bíltúra á bláu Hondunni með vinkonum sínum. Amma var gríðarlega dugleg og vildi að hlutirnir gerðust strax. Var hún til að mynda komin vel á áttræðis aldurinn þegar hún bar vetrardekkin sjálf upp úr kjallarageymslunni sinni, þegar henni fannst ekki seinna vænna að setja vetrardekkin undir bílinn. Hún lá heldur ekkert á skoðunum sínum en var ávallt réttsýn og vildi gera öllum jafnt undir höfði. Það hefur einkennt ömmu alla tíð hversu nægjusöm hún var, en að sama skapi einstaklega gjafmild við sína nánustu. Það brást aldrei að þegar afmæli barna-  eða barnabarna hennar rann upp, þá barst umslag frá henni með aur eins og hún kallaði það. Oft gisti hún á okkar æskuheimili þegar hún kom til Reykjavíkur og leyndist oft ýmiss glaðningur eins og nýbökuð jólakaka í rauðköflóttu töskunni hennar þegar hana bar að garði.

Amma lagði mikla áherslu á að heimili hennar væri snyrtilegt. Hún var alltaf höfðingi heim að sækja, var borðið iðulega hlaðið kræsingum, jafnvel þó að okkur bæri stundum óvænt að garði. Voru rjómapönnukökurnar hennar í sérflokki og miklu uppáhaldi. Sjaldnast settist hún sjálf niður, því hún vildi stjana við gesti sína. Hún var langt fram á níræðisaldur ótrúlega kvik á fæti og gríðarleg minnug. Aðspurð sagði hún að þetta heilsuhreysti kæmi til af því að hún héldi sér í formi með því að moppa yfir gólfin á hverjum degi. Einnig ætti hún það til að dansa heima í stofu ef harmonikkuspil hljómaði í útvarpinu. Amma var mikill lestrarhestur og fylgdist vel með fréttum og þjóðfélagsumræðunni. Það eru góðar minningar að hugsa til ömmu liggjandi uppi í rúmi með þykka bók. Hún var mjög fróðleiksfús og vel gefin og hefði eflaust orðið mjög góður námsmaður.  En á þeim tímum sem hún ólst upp á, átti það ekki fyrir henni að liggja að mennta sig. Það þarf því ekki að undra, að hún hvatti okkur til að afla okkur  menntunar sem gæti veitt okkur fleiri tækifæri í lífinu. Föst vinna, gott heimili og sjálfstæði var nokkuð sem að hún lagði mikla áherslu á. Og hefur það haft mótandi áhrif á okkur. Var hún oftar en ekki fyrst í heimsókn eftir að við eignuðumst okkar eigið heimili. Hún fylgdist grannt með hvernig okkur vegnaði í lífinu og gladdist yfir góðum fréttum af afkomendum sínum. Að sama skapi var hún afar áhyggjufull ef eitthvað bjátaði á. Til að mynda þegar Þórhildur flutti til útlanda hafði hún ekki sérlega mikla trú á því að það væri góð hugmynd, örugglega kalt í híbýlum þar og ekki næstum eins fallegt og Ísland. Gaf hún Þórhildi því lopapeysu og bók um Ísland í jólagjöf til að undirstrika það. Einnig hafði hún ávallt áhyggjur þegar Hugrún var á vetrum að keyra vestur í Öndunarfjörð. Var amma ekki í rónni fyrr en hún vissi að fjölskyldan væri komin heil og höldnu til baka. Hún var ekta amma sem hugsaði af umhyggju og alúð um alla ungana sína.

Amma sagði nýlega að hún væri á leiðinni til Guðs. Okkur er hugarhægð í því að vita að hún er komin þangað núna og búin að fá langþráða hvíld. Með það í huga ásamt öllum góðu minningunum um hana kveðjum við elsku ömmu á Akranesi með ást og söknuði.

Þórhildur, Hugrún, Lára Birna og Ingimundur.