Stella Sæberg fæddist í Hafnarfirði 13. maí 1927. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Eir þann 5. september 2014. Foreldrar Stellu eru Jóhanna María Sæberg Eyjólfsdóttir, frá Dröngum á Skógarströnd og Berthold Benjamin Magnússon Sæberg, bifreiðastjóri og stöðvareigandi í Hafnarfirði, frá Hjörtskoti á Hvaleyri við Hafnarfjörð. Bæði látin. Þau bjuggu á Kirkjuvegi 20 í Hafnarfirði. Stella var tvígift. Fyrri eiginmaður hennar var Kristján Kristjánsson, frá Akureyri. Fyrstu búskaparár sín bjuggu þau á Brekkugötu 4 hjá tengdaforeldrum Stellu, Kristjáni Kristjánssyni, forstjóra BSA, og Málfríði Friðriksdóttur, konu hans, en fluttu um ársskeið til New York þar sem Kristján var við nám. Þegar heim kom settust þau að á Selvogsgrunni 22 í Reykjavík, þar sem Stella bjó mestan sinn aldur. Seinni eiginmaður Stellu var Þórður G. Halldórsson, fyrrverandi fasteignasali. Hún dvaldi ásamt Þórði eitt ár á Stöðvarfirði og einnig í Hrísey í nokkur ár, þar sem þau áttu íbúð. Mjög kært var með Stellu og Jóhönnu móður hennar, en hún dvaldi með þeim bæði á Stöðvarfirði og í Hrísey. Börn Stellu eru: 1) Jóhanna Guðbjörnsdóttir, maður hennar er Skúli Guðmundsson, þeirra börn eru a) Hilmar Sæberg, fyrrverandi kona hans er Linda Björk Stefánsdóttir, þeirra dætur eru Ingibjörg og Emilía. Fyrir á Linda dótturina Brynju. Unnusta Hilmars er Helena Rúnarsdóttir. Hennar börn eru þrjú. b) Svava, hennar maður er Árni Björgvinsson, þeirra börn eru Árni Sæberg og Jóhanna María. c) Guðmundur Ingi, kona hans er Lára Guðrún Jónsdóttir, þeirra börn eru Helga María, Jón Skúli og Birna Rut; 2) Kristján Kristjánsson, kona hans er Valgerður Snæland Jónsdóttir, synir þeirra eru Kristján og Jón Örn Michael, sambýliskona Jóns er Marta Jóhannesdóttir, dóttir hans er Hulda Kristín Kolbrúnardóttir, sonur þeirra Mörtu er Jóhannes Hrafn; 3) Árni Sæberg, dóttir hans er Marta María Sæberg; 4) Margrét Þórðardóttir, hennar maður er Guðmundur Hallbergsson, þeirra börn eru Þórður Axel, Guðrún Stella, Karen, Hallberg, Axel og Guðmundur. Dætur Þórðar af fyrra hjónabandi eru 1) Sigríður, maður hennar Björgvin Vilmundarson; 2) Sjöfn, hennar maður er Árni Jónsson Sigurðsson og 3) Svala, eiginmaður hennar er Gísli Sveinsson. Stella gekk einn vetur í Barnaskóla Hafnarfjarðar og síðan í Katólska skólann við Suðurgötu. Hún stundaði nám til gagnfræðaprófs við Flensborgarskóla og síðar í hússtjórn við Húsmæðraskólann á Akureyri. Stella vann sem unglingur hjá föður sínum, bæði í verslun hans í Hafnarfirði og Bifreiðastöð Hafnarfjarðar sem hann rak til dauðadags 1961. Flest sín fullorðinsár var Stella heimavinnandi húsmóðir. Hún rak Skósöluna á Snorrabraut um nokkurra ára skeið ásamt Kristjáni, fyrri manni sínum. Þá starfaði hún í snyrtivöruversluninni Tíbrá í nokkur ár og í snyrtivöruverslun Karnabæjar við Klapparstíg. Síðar á ævinni starfaði hún um nokkurra ára skeið á elli- og hjúkrunarheimilinu á Dalbraut. Útför Stellu fór fram frá Hafnarfjarðarkirkju 12. september 2014.

Kallið er komið,
komin er nú stundin,
vinaskilnaðar viðkvæm stund.
Vinirnir kveðja
vininn sinn látna,
er sefur hér hinn síðsta blund.
Stella Jóna Guðbjörg Sæberg, elskuleg tengdamóðir mín, hefur kvatt. Ég átti því láni að fagna að verða henni samferða í 35 ár. Hún hafði orð á því áður en hún kvaddi að hún væri tilbúin. Hún vissi hvert ferðinni var heitið og var alls óhrædd. Ég tel það forréttindi að fá að vera samferða trúuðu fólki í lífinu. Það er eitthvað magnað við það.
Eitt af því sem var sérstakt við Stellu var nafngiftin hennar, hvernig nöfnin hennar voru til komin og notuð. Stella var kölluð Stella frá fæðingu, af fjölskyldu, vinum og vandamönnum. Hún var þó skírð Jóna Guðbjörg. Jóhanna móðir hennar var búin að gefa út þá yfirlýsingu áður en hún fæddist að ef hún eignaðist telpu þá mundi hún skíra hana Stellu. Svo deyr Guðbjörg Þorkelsdóttir, föðuramma hennar um sama leyti og Stella fæðist, þá var ákveðið að skíra hana Guðbjörgu og var Stella skírð við kistu ömmu sinnar. Fyrra nafnið hennar Jóna var í höfuðið á Jóni Magnússyni, föðurbróður hennar, sem fórst á enska togaranum Robertson sem gerður var út frá Hafnarfirði og fórst í Halaveðrinu 8. febrúar 1925 en Jón var þar stýrimaður. Kennararnir í Kató og Flensborg kölluðu Stellu alltaf Jónu utan einn kennari í Flensborg, Bjarni Aðalbjarnar sem var einn af bændunum á Hvaleyri, og hafði hann þekkt ömmu hennar vel. Hann sagði við hana að amma hennar hefði verið svo góð kona og þess vegna kallaði hann Stellu alltaf Guðbjörgu. Eftir að skólagöngu lýkur festist Stellu-nafnið við hana og á fullorðinsárum fær hún heimild frá stjórnvöldum til að skrá það nafn í þjóðskrá á undan hinum nöfnunum. Henni þótti mjög vænt um sögurnar á bak við nöfnin sín enda nokkuð sérstakar. Ræturnar eru oft staðfestar í nöfnunum sem við berum.
Stella var alla tíð mikil sögukona og hafði mjög gaman af því að segja sögur af fólki, af forfeðrum sínum, uppeldisárunum í Hafnarfirði, lífinu á Akureyri, lífinu í New York, dvölinni á Stöðvarfirði og dvölinni í Hrísey. Hún var mjög minnug á það sem hún hafði upplifað og lifði sig inn í sögurnar um leið og hún sagði frá í smáatriðum. Hún lagði líka á minnið sögur sem hún heyrði frá fullorðna fólkinu af merkilegum atburðum eins og þegar Hellisgerði var stofnað en faðir hennar var einn af stofnendum Hellisgerðis þar sem hann var félagi í málfundafélaginu Magna sem stóð fyrir stofnuninni. Stella las líka mikið, hún hafði sérstaklega gaman af ævisögum, og hafði gaman af að ræða um það sem hún hafði verið að lesa. Í seinni tíð tók hún upp á því að semja ljóð af trúarlegum toga. Ljóðin virtust koma til hennar í svefni. Það gerðist þannig að hún vaknaði að morgni og vísuorðin streymdu af vörum hennar. Henni tókst að festa nokkuð af þessum skáldskap á blað. Hún var eilítið undrandi á þessum nýja hæfileika sínum, skyldi ekki alveg hvaðan hann kom því þó hún hafi verið mjög mikið gefin fyrir skáldskap hafði hún ekki samið ljóð áður.
Stella var lengsta ævina heimavinnandi húsmóðir. Hún var útskrifuð frá húsmæðraskóla eins og margar konur af hennar kynslóð. Húsmæðraskólanámið var mjög hagnýtt nám. Þar lærði hún allt í sambandi við heimilisrekstur, að halda heimili og kom það skýrt fram í öllu hennar heimilishaldi, hvort heldur það laut að matargerð, handavinnu, tiltekt, persónulegri aðhlynningu eða umönnun. Hún var sterk á öllum þessum sviðum. Hún hafði mjög gaman af því að taka á móti gestum og þá voru kræsingar af margvíslegum toga töfraðar fram á örstuttum tíma. Hún virtist hafa mjög lítið fyrir þessu öllu.
Eitt af því sem við Stella áttum sameiginlegt var hláturinn. Það var mjög stutt í hláturinn hjá Stellu og hún hló mjög dillandi hlátri. Það er yndislegt að minnast allra kitlandi hláturstundanna sem við áttum saman, líka stundanna þar sem Kristján sonur hennar var að grínast við hana. Það tók hana stundum tíma að átta sig á merkingunni en þegar merkingin var komin, kunni hún vel að meta grínið og hló dátt.
Ég er mjög þakklát fyrir að hafa fengið að vera samferða Stellu í lífinu, kynnast hennar viðhorfum til lífsins og sjá, heyra og finna hvernig hún tókst á við ýmislegt í lífinu. Stundin hennar er komin. Ljósið hennar heldur áfram að lifa, annars staðar og allt um kring. Hafi hún þökk fyrir allt og allt.
Far þú í friði,
friður Guðs þig blessi,
hafðu þökk fyrir allt og allt.
Gekkst þú með Guði,
Guð þér nú fylgi,
hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.
(Vald. Briem)

Valgerður Snæland Jónsdóttir