Margrét Sigvaldadóttir fæddist í Reykjavík 17. janúar 1942.  Hún lést á heimili sínu. Vesturbergi 50 í Reykjavík, 21. mars síðastliðinn.  Foreldrar hennar voru hjónin Sigvaldi Kristjánsson,  f. 30. apríl 1906 á Bæ í Hrútafirði, d. 22. júní 1966, og  Sigríður Vigfúsdóttir, f. 25. ágúst 1908 á Flögu í Skaftártungu, d. 8. apríl 1998.

Systkini Margrétar eru: 1) Sigríður, f. 6. mars 1935, d. 17. júlí sama ár,               2) Vigfús, f. 8. júlí 1940, d. 14. apríl 1995, var kvæntur Elísabetu Friðriksdóttur, börn þeirra, Friðrik Helgi og Sigríður Vigdís, 3) Sigríður Valdís, f. 8. júlí 1940, gift Sveinbirni Guðmundssyni, dóttir hennar, Lilja Margrét Möller,  4) Kristján, f. 6. febrúar 1945.

Margrét giftist árið 1972, Gísla Dagssyni f. 24. maí 1937, d. 2. maí 2004.  Foreldrar hans voru hjónin Björg Gísladóttir, f. 5. nóvember 1907, d. 9. júlí 1939, og Dagur Halldórsson, f. 7. maí 1904, d. 22. desember 1983. Gísli ólst upp hjá föðurbróður sínum Guðna Halldórssyni í Reykjavík, f. 11. október 1894, d. 21. desember 1979, og konu hans Jóhönnu Jóhannsdóttur, f. 22. júní 1893, d. 28. september 1981.

Margrét ólst upp í vesturbæ Reykjavíkur. Hún gekk í Melaskóla og Gagnfræðaskólann við Hringbraut. Margrét lauk prófi frá Samvinnuskólanum á Bifröst 1960. Þá lá leið hennar til Englands og Danmerkur þar sem hún vann við ýmis störf.  Eftir að heim var komið starfaði Margrét hjá  Loftleiðum, lengst af sem gestamóttökustjóri á Hótel Loftleiðum  og aðstoðarhótelstjóri.  Síðustu starfsár sín var hún deildarstjóri heimaþjónustu aldraðra í Skógarbæ í Breiðholti.

Útför Margrétar fer fram frá Fossvogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.00.



Það er svo mikil sorg og söknuður í hjarta mínu síðan ég frétti lát Maggýjar frænku minnar og vinkonu. Við vorum jafnöldrur og systradætur. Hún var fyrsta besta vinkona mín. Mér hefur aldrei þótt vænna um neina aðra vinkonu. Við  lékum okkur saman lítil börn, hnoðuðumst saman með eldri systkinum hennar, tvíburunum Siggu Völu og Búdda, Kristján var bara ungbarn í faðmi mömmu sinnar. Ég flutti úr borginni sem ég fæddist í, norður að Hálsi í Fnjóskadal þegar ég var fimm ára og var sveitastelpa í a.m.k. sjö ár. Var að komast á gagnfræðaskólaaldur þegar ég flutti aftur í höfuðborgina. Þá vorum við Maggý svo heppnar að lenda í sama bekk í Gagnfræðaskólann við Hringbraut sem seinna varð að Hagaskóla. Hún kynnti okkur Gunnu Sig. sem var í sama bekk og við og átti pabba sem varð skömmu seinna landlæknir. Og vorum líka svo heppnar, að vinkona mín úr næstu sveit fyrir norðan, Sigga Þormóðs, lenti einnig í sama bekk. Það var reyndar mikil sorgarsaga sem leiddi hana svona fljótt suður. Pabbi hennar, séra Þormóður á Vatnsenda, hafði látist í Kaupmannahöfn þá um sumarið. Vorum við hjartans fegnar að komst í sama skóla í sama bekk. Þarna vorum við orðnar fjórar í klíkunni. Maggý átti náttúrlega sína vinkonuklíku fyrir. Það gekk alveg upp. Hún átti líka tíma fyrir þær. Sigga frænka, mamma hennar Maggýjar, var svo góð, umvefjandi og kærleiksrík og þótti ekkert sjálfsagðara en hýsa systurdóttur sína eftir skólaböllin. Færa stelpunum mjólkurglas og kökudisk með heimabakaðri vínartertu, jólaköku, kleinu og einhverju fleiru í rúmið á morgnana. Frá henni hafði Maggý sitt bjarta yfirlit og tignarlega fas. Frá báðum foreldrum hafði hún skarpa greind og mjög góðar námsgáfur. Svo var hún líka grallari og húmoristi, eins og hún móðir hennar.

Eftir 2. bekk í Gaggó þótti okkur hinum sjálfsagt að fara í Landsprófið við Vonarstræti. Brá okkur Siggu og Gunnu illilega þegar Maggý sagðist stefna á Bifröst og hélt áfram í bóknámsdeild Hringbrautarskólans. Fór að honum loknum í Samvinnuskólann að Bifröst. Man ég ekki betur en hún hafi dúxað þaðan á lokaprófi. Það kom líka í ljós að námið og námsárangur hennar á Bifröst hitti í mark. Hún tók að sér hvert stóra stjórnunarstarfið á fætur öðru. Róleg, blátt áfram og  klár í hugsun leysti hún þessi störf af hendi af öryggi. En aftur til ungu áranna. Þessi útúrdúr hennar hafði engin áhrif á vináttu okkar fjögurra. Það eina sem breyttist, var að í hópinn bættist bernskuvinkona Gunnu Sig. úr Austurbænum. Ingibjörg Haraldsdóttir, síðar alþekkt skáld, þýðandi og rithöfundur.   Loks var mætt í hópinn Dagný Hermannsdóttir, allra besta vinkona mín úr Barnaskóla Akureyrar(Íslands), en þar dokaði ég við einn vetur þegar ég var 11 ára. Föngulegur hópur sex yngismeyja áttu heiminn, sumarnóttina, rómantíkina og framtíðina! Smá breyting:  Haustið eftir 4. bekk í MR elti ég foreldra mína til Akureyrar og settist í 5. bekk í MA og tók stúdentsprófið þaðan. Bréfin flugu mörg á viku með ofsahraða milli landshluta um veturinn og 3. eða 4. júní var ég komin suður í minn kæra vinkvennahóp. Maggý  var að vísu á leiðinni heim úr útlöndum með Gullfossi. Hringdi og bað mig að taka á móti sér á bryggjunni næsta laugardagsmorgun. Það var verkfall og farþegar þurftu að burðast með allan sinn farangur sjálfir í land. Í leigubílnum á leiðinni heim, bað Maggý mig að koma með sér í Klúbbinn um kvöldið, sem þá var nýbúið að opna og hvorug okkar hafði heimsótt fyrr. Mér leist ekkert rosa vel á það. Og svo var komið kolbrjálað veður um kvöldið og varla stætt.  En  í Klúbbinn komumst við og upp í danssalinn þar sem hljómsveitin lék yfir auðu dansgólfinu. Það var varla hræða í salnum, nema tveir gæjar eða skulum við segja herramenn, áreiðanlega þrítugir sagði  Maggý og bætti við. Þetta eru bara kallar. Svo gerðist ekki neitt, nema annar herrann kemur og býður mér upp. Fórum smávegis að spjalla saman og fyrr en varði var það ljóst að ættir okkar áttu verulega alvarlegt mál óuppgert, svona tvö hundruð ára gamalt. Hann bauð okkur að borði þeirra félaga. Og er ekki að orðlengja það.  Þarna hafði ég hitt Ragnar, elsku eiginmann minn til tæplega 40 ára  eða þar til hann lést, 1998. En hópurinn hennar Maggýjar með sæta gæjann innanborðs hafði farið í Storkklúbbinn, sem líka var glæný stofnun, á allt öðrum stað í bænum. Henni var ætlað að giftast honum Gísla sínum og engum öðrum, nokkrum árum seinna. Hann dó líka frá henni heldur snemma. Við báðar orðnar ekkjur.
Elsku Maggý mín. Ég sakna þess svo mikið, að við skulum ekki hafa hist meira á undanförnum árum.  Um leið er ég svo innilega þakklát fyrir alla áratugina sem við áttum samleið, alltaf innilega vináttu og kærleika með hvor annarri.
Góður Guð styrki eftirlifandi systkinin tvö, Sigríði og Kristján.

Veri Maggý mín Guði falin!

Sigrún Björnsdóttir.