Ingeborg Eide Geirsdóttir fæddist á Húsavík 6. október 1950 . Hún lést á Landspítalanum 6. apríl 2015.
Hún var dóttir hjónanna Paule Hermine Eide Eyjólfsdóttur, f. 26. ágúst 1911, d. 4. febrúar 1979, og Geirs Benediktssonar, f. 19. júní 1907, d. 16. desember 1962. Systkini hennar eru Hlíf Geirsdóttir, f. 18. maí 1949, maki Stefán Ásgeirsson, f. 9. júlí 1947. Börn Hlífar eru Margrét Herborg, Arnar Geir og Sigurður Sveinn. Ólína Geirsdóttir, f. 24. nóvember 1951, maki Sveinbjörn Björnsson, f. 9. júní 1942. Börn Ólínu eru Kristín Ólöf og Geir. Benedikt Geirsson, f. 12. september 1953, maki Helga Möller, f. 3 október 1950. Börn Benedikts, Runólfur Geir og Bergrún Elín.
Ingeborg ólst upp á Húsavík til 9 ára aldurs, síðan flutti hún að Skálatúni í Mosfellssveit. Árið 1982 flutti Ingeborg til Reykjavíkur á sambýli í Sigluvogi og ári síðar í Auðarstræti 15, þar sem hún bjó til æviloka. Ingeborg vann frá 1978 þar til síðasta haust í Þvottahúsi ríkisspítalanna. Ingeborg var áhugasöm um lestur, orti ljóð, sótti matreiðslunámskeið og hafði gaman af því að ferðast. Henni var mjög umhugað um sína nánustu ættingja.
Ingeborg verður jarðsungin frá Háteigskirkju í dag, 16. apríl 2015, kl. 15.


Elskuleg systir mín Ingeborg Eide kvaddi okkur aðfaranótt annars í páskum eftir stutt og erfið veikindi.  Hún var næst elst í fjögurra systkina hópi. Ingeborg fæddist bæði andlega og líkamlega fötluð.  Hún fór mjög ung til lækninga á Landspítalann þar sem reynt var að laga fætur hennar, hún var oft ein langdvölum frá fjölskyldunni, það sett mark sitt á hana og á okkur öll.

1959 þá á níunda ári fluttist Ingeborg að Skálatúni í Mosfellssveit en á þeim tíma var ekki nægilegan stuðning að fá frá hinu opinbera til að gera fötluðum kleift að búa heima því miður. Styrktarfélag vangefna, nú Ás styrktarfélag rak heimilið og hefur Ingeborg verið með þjónustu frá félaginu allar götur síðan og fyrir það vil ég þakka. Þegar Ingeborg kom í Skálatún var það hennar lán að Gréta Bachmann var forstöðumaður heimilisins, hún reyndist systir minni afar vel alla tíð, sem dæmi tók Gréta hana með sér til ættingja sinna um hátíðir. Ég hitti systur og mág Grétu eitt sinn og sögðu þau jólin ekki komin fyrr en þær vinkonur voru mættar og fyrir það vil ég þakka Grétu og fjölskyldu.
Frá 1983 hefur Ingeborg búið í Auðarstræti 15 í Reykjavík, síðustu tvo áratugi í sjálfstæðri búsetu með stuðningi. Hún hafði íbúð útaf fyrir sig og naut þess að eiga sitt eigið heimili. Einn vinnufélagi minn spurði oft um hvernig ,,drottningin af Auðarstræti hefði það?´´ en systir mín var í orðsins fyllstu merkingu drottning því þeir sem henni kynntust gleyma henni aldrei.  Vinum og kunningjum finnst þeir þekkja hana í gegn um samveru við okkur ættingja og frásagnir af henni. Systir var ákveðin kona og regluföst það verður oft vitnað í þig um ókomin ár því þú varst orðheppin, hafsjór af fróðleik og fórst þínar eign leiðir. Ef við komum í heimsókn án þess að boða komu okkar leyst þú á klukkuna og spurðir, "hvað ætlar þú að stoppa lengi Hlíf mín"?.

Ingeborg var einstaklega minnug á alla afmælisdaga ættingja sinna og tók þátt í öllum viðburðum með okkur bæði í gleði og sorg. Hún hafði sérstaka ánægu af því gefa gjafir og var ótrúlega fundvís á skemmtilegar gjafir, allir biðu spenntir eftir gjöfum frá Ingeborgu.
Ingeborg var fróðleiksfús, var alltaf til í að spjalla, hún fór reglulega á Borgabókasafnið, orti ljóð, kom fram opinberlega og las upp úr ljóðum sínum.
Ingeborg hafði gaman af ferðalögum, ferðaðist erlendis með sambýlisfólki sínu og með okkur systrum til Noregs, Svíþjóðar, síðast utanlandsferð hennar var vikuferð til Parísar árið 2010 í tilefni að 60 ára afmælum okkar systra. Af öllum ferðalögum hennar held ég að hún hafi notið þeirrar ferðar einna best. Þegar Ingeborg var spurð hvað hún vildi gera í París var það alveg á hreinu, hún ætlaði að sjá myndina af Mona Lisu á Louvre safninu, fara upp í Eiffeltuninn, Notre Dame kirkjuna, þar var skimað upp í turnanna til að vita hvort við sæjum hringjarann en það ævintýri þekkti Ingeborg mjög vel. Við heimsóttum einnig heimili og rósagarð listmálarans Claude Monet þá skörtuðum við stráhöttum sem keyptir voru á leiðinni að Sacre-Coeur kirkjunni á Montmartre hæðinni, margar skemmtilegar myndir eru til úr þessari ferð. Eitt af því sem Ingeborg hafði gaman af var að taka myndir, þær voru ekki alltaf hefðbundnar en góðar heimildir engu að síður t.d. hvaða inniskó ég átti 1976, auglýsing um hvaða sýning var á fjölum Möguleikhússins eða bara af strætóskilti.
Þegar við systkinin stofnuðum fjölskyldur eða frá 1970 hefur Ingeborg eitt öllum hátíðum með okkur ásamt því að koma í sumarheimsóknir.  Í hart nær tvo áratugi hafa heiðurshjónin Guðrún og Davíð á Arnbjargarlæk í Borgarfirði tekið Ingeborgu til sín í sumardvöl allt að tveim viku í senn.  Þar leið henni vel og bera myndir frá dvöl hennar þar þess glöggt vitni, ég vil þakka þeim hjónum fyrir einstaka umhyggju í hennar garð.
Að lokum vil ég þakka Margréti dóttur minni fyrir hve dugleg hún og hennar fjölskylda var að taka Ingeborgu með sér í bíó á sunnudögum, helgarferðir í Grundarfjörð og sveitaferðir  í nágrenni Reykjavíkur.
Agnesi og hennar góða starfsfólki í Auðarstræti og öllum sem hafa komið að þjónustu við Ingeborgu í gegn um tíðina þakka ég af alhug, einnig vil ég þakka hjúkrunarfólki á deild 33c á Landspítala við Hringbraut fyrir alúð og hlýju sem þau sýndu í verki bæði systur minni og okkur ættingjum á meðan hún dvaldi þar.
Elsku systir, frá því um miðjan janúar hrakaði heilsu þinni mjög hratt, þú gafst okkur til kynna að það væri komið nóg og þú vildir fara til pabba og mömmu. Ég vil trúa því að nú hafi þau fengið stúlkuna sína til sín og leiði þig sér við hlið um alla eilífð, einnig vil ég trúa því að Ólöf frænka sé þér nálæg og þú fáir nú að njóta umhyggju hennar eins og við systkini þín fengum í svo ríku mæli en þú ekki vegna fjarlægðar.

Jesús vakir yfir öllum.
Þegar litlu börnin sofa koma litlir englar og vaka yfir þeim.
Guð vakir yfir börnunum í nótt og englarnir vernda börnin.
Guð og englarnir láta börnin dreyma fallega drauma.
Jesús passar börnin í rúmunum sínum í nótt.

Höf. IEG.

Nú er síminn hljóður klukkan hálfníu á kvöldin og engin sem býður mér góða nótt en til margra ára hringdir þú alltaf á sama tíma til að bjóða góða nótt.

Við elskuðum þig öll, þú auðgaðir líf okkar, hvíl þú í friði engillinn minn.
Þín systir



Hlíf Geirsdóttir og Stefán Ásgeirsson.

Nú er hún Ingeborg okkar farin frá okkur og eftir sitjum við með margar góðar minningar um yndislega og litríka persónu.
Ingeborg flutti í sambýlið Auðarstræti 15 árið 1983. Fyrstu tíu árin bjó hún í herbergi á fyrstu hæð, í íbúð ásamt tveimur öðrum en þegar sambýlinu var breytt úr herbergjasambýli í íbúðasambýli flutti hún ein í íbúð í kjallaranum í sjálfstæða búsetu með stuðningi og var það mikið gæfuspor fyrir hana, þar sem hún hefur alltaf viljað ráða sér sjálf og hafa hlutina eins og hún vildi, rétt eins og við öll. Ingeborg var mjög sjálfstæð, hún eldaði matinn sinn sjálf að mestu leyti og þvoði sinn þvott. Hún kærði sig því ekki um að hafa starfsmann inni í íbúðinni sinni nema hún óskaði eftir aðstoð, en vissum starfsmönnum bauð hún að koma að horfa á fréttirnar með sér og svo áttu þeir að fara um leið og þær voru búnar.
Ingeborg bjó yfir hreinum hafsjó af fróðleik um hina ótrúlegustu hluti og var óspör á að ræða lífið og tilveruna. Hún mundi alla afmælisdaga og eins var hún með á hreinu hvenær þessi og hinn starfsmaðurinn byrjaði að vinna í Auðarstræti og hvenær hann hætti. Ingeborg  hafði óbilaðan áhuga á öllu mögulegu, vissi til dæmis allt um hagi starfsmanna, því hún spurði þá í þaula og mundi allt sem svarað var. Hún horfði mikið á sápuóperur og dýralífsmyndir og kom oft upp til að spjalla um dýrin sem hún hafði verið að horfa á í sjónvarpinu. Stundum var eins og hún væri að prófa þekkingu starfsfólksins um dýrin, hún spurði spurninga, t.d. hvað gengur kýrin lengi með kálfana og ef starfsmaður gat ekki svarað því, þá var hún með svarið á hreinu. Hún spurði þessara spurninga til þess að brjóta ísinn og hefja spjall um það sem hún hafði verið að horfa á.
Ingeborg bjó sér til mjög fasta rútínu og lifði eftir klukkunni. Allar daglegar athafnir höfðu sinn fasta tíma og það átti alltaf að sjóða kartöflurnar í 20 mínútur, hvort sem þær voru litlar eða stórar. Hún lagði mikið upp úr stundvísi, ekki aðeins sinni eigin, heldur líka þeirra sem annað hvort ætluðu að heimsækja hana eða sækja hana til að fara eitthvað annað og fengu viðkomandi tiltal ef þeir komu einni mínútu of seint.
Ingeborg var afkastamikið ljóðskáld og byrjaði að yrkja ljóð um leið og hún lærði að lesa og skrifa, þegar hún var 17 ára gömul á Skálatúni. Hún samdi ljóð alla virka daga, eftir síðdegiskaffið klukkan þrjú, en hún tók sér sumarfrí og jólafrí frá skáldskapnum alltaf á sama tíma. Ingeborg talaði alltaf um hluti eins og persónur, hún sagði til dæmis alltaf Hann síminn er að hringja eða Ég er að bíða eftir honum bílnum. Þetta kom líka sterkt fram í ljóðunum hennar, sem fjölluðu um allt mögulegt. Náttúran var henni hugleikin, blóm, fuglar, önnur dýr, sólin, tunglið og stjörnurnar, sem öðluðust líf sem persónur í ljóðunum hennar. Ingeborg orti mörg ljóð um fólkið í kringum hana, guð, Jesú, engla, álfkonur og einnig orti hún vögguvísur. Það eru ófáar stílabækurnar sem hún lætur eftir sig, þétt skrifaðar ljóðum. Snemma á níunda áratugnum var ljóð eftir hana birt í Þjóðviljanum og var hún mjög stolt af því. Ingeborg hafði gaman af söng og hélt sérstaklega mikið uppá sálminn Í bljúgri bæn og kunni textann utanað.
Við eigum eftir að sakna mikið þessarar yndislegu konu með litríka persónuleikann sinn og geymum minningarnar um hana í hjörtum okkar meðan við lifum.
Að lokum viljum við minnast Ingeborgar með þessum tveimur ljóðum eftir hana:

Stjörnurnar
Á himninum skína stjörnurnar á nóttinni tært.
Ein stjarna er fallegust á himninum.
Það er Betlehemstjarnan.
Hún er skær og falleg á litinn en hinar
stjörnurnar eru líka fallegar.
Á kvöldin þegar stjörnurnar skína á himninum,
er sjálfur Guð að bjóða okkur góða nótt
og  Jesú vakir yfir okkur og englarnir.

/

Lækurinn

Á veturna liggur ís yfir læknum
Á vorin fer ísinn af læknum,
þá rennur hann eftir jarðveginum,
svo syngur hann sumarlagið sitt.
Hann er glaður þegar sólin skín á hann.
Á sumrin rennur hann niður í sjó svo að
allir fuglarnir geta synt í sjónum.
Lækurinn rennur hratt.

(IEG)

Við  vottum systkinum og öðrum aðstandendum  innilega samúð okkar.
Fyrir hönd starfsfólks og íbúa Auðarstrætis 15,

Agnes Jensdóttir.