Ólöf Einarsdóttir fæddist í Reykjavík 3. júlí 1960. Hún lést 23. júní 2015 á Landspítalanum við Hringbraut í Reykjavík.
Foreldrar hennar eru Einar Björn Sigvaldason pípulagningamaður og harmonikkuleikari í Reykjavík, f. 10.8. 1916, d. 17.10. 1996, og Sigríður Ólafsdóttir, húsfreyja og starfsstúlka á Hrafnistu í Reykjavík, f. 25.8. 1934. Systkini Ólafar: Einar Þórketill, f. 1.2. 1959, Karitas, f. 26.8. 1963, d. 28.5. 1964, Sigvaldi Sveinbjörn, f. 31.1. 1965, og Ólafur, f. 11.8. 1969. Þá átti hún tvo bræður samfeðra, þá Björn Einar, f. 1939, og Linnhardt, f. 1942, d. 2010, en þeir voru alla tíð búsettir í Kaupmannahöfn.
Ólöf giftist hinn 8.8. 1981 Hannesi Haraldssyni bifvélavirkja, f. 1.8. 1958, frá Víðigerði í Eyjafjarðarsveit. Faðir hans er Haraldur Hannesson, bóndi í Víðigerði, f. 11.8. 1926, og móðir hans var Sólveig Benný Jóhannsdóttir, f. 25.12. 1932, d. 30.11. 2001. Börn Ólafar og Hannesar eru: 1) Sigríður, f. 1.6. 1978. Maður hennar er David Lower, f. 19.12. 1983, og sonur þeirra er Matthías Ayinel, f. 8.12. 2014. Fyrir átti Sigríður dótturina Emmu, f. 30.12. 2003. Faðir Emmu er Thomas Hjelmesæth. 2) Haraldur Einar, f. 27.6. 1981. Kona hans er Bryndís Jóna Sveinbjarnardóttir, f. 19.3. 1985. Þeirra börn eru Viktoría Björk, f. 19.7. 2008, Alexander Freyr, f. 13.8. 2012, og Hannes Breki, f. 18.10. 2013. Ólöf og Hannes slitu samvistir.
Ólöf giftist hinn 20.6. 2004 eftirlifandi eiginmanni sínum, Óskari Sveini Þorsteinssyni, viðskiptafræðingi frá háskólanum í Álaborg í Danmörku, f. 20.6. 1954. Faðir hans var Þorsteinn Sveinsson, héraðsdómslögmaður og skrifstofustjóri hjá Húsameistara ríkisins, f. 20.12. 1913, d. 6.8. 1981, og móðir hans var Þórunn Sveinsdóttir húsfreyja, ættuð frá Nikulásarhúsum og Heylæk í Fljótshlíð, f. 6.1. 1914, d. 16.6. 1969. Seinni kona föður hans var Sigríður Ingibjörg Þorgeirsdóttir kennari, f. 29.7. 1937.
Útför Ólafar fer fram frá Langholtskirkju föstudaginn 3. júlí 2015 kl. 13.

Það er með þungum trega sem ég sest niður til að skrifa minningarorð um hana Ólöf mágkonu mína. Við vorum búnar að vera samferða í lífinu meira og minna síðustu 35 árin eða allt frá því við Einar bróðir hennar fórum að draga okkur saman í ársbyrjun 1980. Hún átti líka sinn þátt í þeim ráðahag en hún sparaði ekki  lýsingarorðin þegar hún var að telja upp alla hans kosti  og segja mér hvað hann væri nú góður strákur og það var alveg augljóst að henni þótti afar vænt um stóra bróður sinn.

Það rifjast upp margar skemmtilegar minningar frá fyrstu árunum; spilakvöldin í Rofabænum, ballferðir, bæði á Akureyri og í Reykjavík, fjölskylduferðir með nesti og veiðistangir til að renna fyrir silung og margt, margt fleira þar sem ávallt var glatt á hjalla.

Fljótlega upp úr tvítugu fór að bera á heilsubresti hjá Ólöfu og ágerðist hann með árunum og því þurfti hún oft að dvelja á sjúkrahúsi, bæði í lengri og skemmri tíma, og gangast þar undir margar og erfiðar aðgerðir. Þrátt fyrir þetta lét hún heilsuleysið helst aldrei stoppa sig í því sem hana langaði að gera og sem betur fer fékk hún í vöggugjöf ríflega bjartsýni, glaðværð og seiglu sem kom sér svo sannarlega vel.  Ég ætla, get og skal, eru orð sem koma upp í hugann þegar ég hugsa um Ólöfu og baráttuviljann sem henni var gefinn.

Ólöf bjó á Akureyri í á annan áratug með Hannesi, fyrri manni sínum og börnunum þeirra tveimur, Sigríði og Haraldi Einari.   Á Akureyri fannst henni gott að búa og þar átti hún stóra og góða tengdafjölskyldu og eignaðist fullt af góðum vinum.  Þegar leiðir hennar og Hannesar skildu flutti hún aftur suður til Reykjavíkur enda var þar sú læknisþjónusta sem hún þurfti þá orðið á að halda. Hún réðist í að kaupa sér íbúð og bjó sér fallegt og hlýlegt heimili.  Svo fór að hún kynntist seinni manni sínum, honum Óskari og varð það gæfa þeirra beggja.  Þau áttu afar fallegt samband og var aðdáunarvert að sjá hversu vel og fallega Óskar hugsaði um Ólöfu, hvort heldur sem var heima eða þegar hún dvaldi á sjúkrahúsi  og ekki síður hvað hún hugsaði svo um hann af sömu natni eftir að hann veiktist af Alzheimer sjúkdómnum. Það var Ólöfu mjög þungbært þegar Óskar varð svo veikur að hann varð að fara til fullrar dvalar á hjúkrunarheimili. En hún hélt áfram að hugsa um hann og vera sem mest með honum og hún heimsótti hann alla daga sem hún mögulega gat, ef heilsa hennar leyfði.

Eftirminnileg er ferð til Krítar sumarið 2008 en þangað fór stór hluti móðurfjölskyldu Ólafar til að dvelja í eina til tvær vikur. Ólöf og Óskar ætluðu að fara með út og vera fyrri vikuna en veikindi settu strik í reikninginn og Ólöf dvaldi á sjúkrahúsi þegar ferðalangarnir héldu til Krítar. Vonbrigði hennar voru gríðarlega mikil en með ótrúlegri seiglu komst hún á fætur tímanlega til þess að þau náðu að fara út og vera með hópnum seinni vikuna. Það urðu fagnaðarfundir þegar hún hitti þar Sirrý dóttur sína og Emmu litlu ömmustelpuna sína, sem komu frá Noregi til Krítar til að vera með fjölskyldunni. Og mikið óskaplega var hún glöð að hafa komist í ferðina sem hún hafði svo lengi hlakkað til.

Ólöf var glæsileg í fasi, mikill fagurkeri og naut þess að gera fínt í kringum sig og safna að sér fallegum hlutum. En hún elskaði líka að gefa gjafir og átti alltaf eitthvað til að gefa þeim sem kíktu í heimsókn eða senda litlu börnunum í fjölskyldunni.  Hún var frænkan sem gaf öllum jóla- og afmælisgjafir og skipulagði og aðstoðaði við skipulag ef voru veislur í fjölskyldunni. Hún var dóttirin sem snerist með mömmu sína það sem mamma hennar þurfti og það sem hana langaði og hún flutti gjarnan heim til mömmu sinnar í nokkra daga ef önnur hvor þurfti á stuðningi að halda.

Hún var höfðingi heim að sækja, tók á móti gestum með bros á vör og átti jafnan pönnukökur eða gotterí í skál. Henni fannst líka afar gaman að fara í búðir og vissi alltaf hvar á stór-Reykjavíkursvæðinu hægt var að gera bestu kaupin. Henni þótti því ekki leiðinlegt að aðstoða þá sem það vildu við jólagjafainnkaupin.  Þá voru ferðir austur á Hæringsstaði til Stellu, stjúpmóður Óskars, algjörlega ómissandi.

Ólöf var orðin fimmföld amma og hún var afar stolt af börnunum sínum, tengdabörnum og barnabörnunum. Hún hafði sérstaklega gaman af að segja sögur af barnabörnunum og sýna af þeim myndir.  Hún var mikil fjölskyldukona, þótti vænt um fólkið sitt og  hafði gaman af að taka þátt og vera með þegar stórfjölskyldan kom saman og það var henni hvað þungbærast síðustu vikurnar að hafa ekki heilsu til að heimsækja Óskar sinn eins oft og hún vildi og að komast ekki til að vera með þegar fjölskyldan kom saman til að fagna hinum ýmsu áföngum.  Ólöf var að eðlisfari lífsglöð og hjartahlý og það var gaman að vera með henni. Henni þótti vænt um fólk og fólki þótti vænt um hana. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að verða henni samferða og trúi að nú sé hún komin á betri stað þar sem henni líður vel. Minningar um Ólöfu eru geymdar en ekki gleymdar.

Far vel elskulega mágkona þar til við hittumst fyrir hinumegin.

Sigríður Emilía Eiríksdóttir