Birna Óskarsdóttir Bouderau fæddist í Reykjavík 28. mars 1933. Hún lést í New Hampshire, Bandaríkjunum, 31. október 2016.Foreldrar Birnu voru Ólöf Björnsdóttir og Óskar Sólberg feldskeri. Systir sammæðra: Sigríður Hjálmarsdóttir.
Eiginmaður Birnu var Alfred(Ned) Bouderau. Börn þeirra eru Tina Bouderau og Edwin Bouderau.
Útför Birnu hefur farið fram.

Fallin er frá í fjarlægu landi elskuleg frænka mín, Birna Óskarsdóttir Bouderau, en hún lést eftir stutt dauðastríð þann 31. Október síðastliðinn. Mig langar að skrifa um hana örlitla minningargrein, meir af vilja en mætti. Birna fæddist í Reykjavík þann 28.3.1933 dóttir móðursystur minnar Ólafar Björnsdóttur og Óskars Sólberg feldskera. Á meðan foreldrarnir voru í námi í Danmörku dvaldist Birna hjá afa og ömmu á Heimagötu 30 í Vestmannaeyjum og átti þaðan góðar bernskuminningar. Foreldrar hennar slitu samvistum þegar Birna var í æsku. Það æxlaðist því þannig, að hún var meira og minna í fóstri hjá barnslausum foreldrum mínum í Reykjavík fyrst á Háteigsvegi og síðar að Flókagötu 69. Aldursmunurinn var mikill og Birna flutti alfarin til útlanda strax eftir giftingu er ég var aðeins 7 ára. Eftir það sá ég hana fyrst aðeins í stuttum fríum hennar til landsins og síðar, eftir að ég flutti sjálfur til náms í Sviss, einungis ef tilviljun réði, að við vorum samtímis á landinu. Kann ég því engar sögur að segja af því alrómaða heimili, sem hún bjó ástkærum eiginmanni sínum og tveim börnum þeirra í Boston og New Hampshire og ávallt stóð öllu frændfólki og vinum frá Íslandi opið.

Birna var glaðvært og fallegt barn, sem allir er umgengust gátu ekki annað en haft ánægju af. Sem hávaxin ung stúlka með mikið og liðað ljóst hárið var hún ekki aðeins sérlega glæsileg heldur alls staðar hrókur alls fagnaðar, sem átti staðinn hvar sem var. Það var því ekki að undra að eftir henni, þessum einstaka sólargeisla, væri tekið gjafvaxta. Hana hreppti einn tiginn majór og flugkapteinn, Alfred (Ned) Bouderau, í bandaríska flughernum í Keflavík. Það var foreldrum mínum, sérstaklega móður, og væntanlega mörgum öðrum í fjölskyldunni enginn sérlegur glaðningur, enda vel flestir vægast sagt lítt hrifnir af veru hersins í landinu eftir að stríðinu lauk. Brottflutningur Birnu strax eftir brúðkaupið heima á Flókagötu, sem mér er í ljósu minni, var mér ekki aðeins mikill missir heldur hið þyngsta áfall, þegar hughreystingin skyldi felast í því, að hún Binga mín, eins og ég kallaði hana, var alls ekki systir mín heldur bara frænka! Til þessa þekkti ég hana ekki öðruvísi en glaðværa og gjafmilda stóru systur, sem alltaf var tilbúinn að kjassa mig, knúsa og kyssa og gauka síðan að mér einhverju hnossgætinu, fyrstu skólatöskunni og fyrsta pennaveskinu... Hvað Ned sjálfan varðaði, var allur fyrirvari alls ástæðulaus. Ef hann var ekki nákvæmlega sami öðlingurinn og hún, tókst henni að sveigja hann á þá braut umsvifalaust. Veit ég ekki betur en þeirra hjónaband hafi verið hamingjuríkt, enda bar hann Birnu sína á höndum sér alla tíð og sá henni góðan farborða eftir að hann féll sjálfur frá fyrir meir en tveim áratugum.

Birna annaðist Ned af alúð í löngum veikindum. Eftir fráfall hans gerði hún umönnun aldraðra í heimahúsum að aðalstarfi, sem hún stundaði svo lengi sem kraftar entust eða fyrir fáum árum. Vafalaust hefur hún orðið fjölmörgum til uppörvunar og gleði með glaðværð og óþrjótandi bjartsýni sinni.

Frá unglingsárum eru mér minnisstæð fyrsta utanlandsför til Skotlands og heimsókn til Prestwick og Edinborgar á fyrsta heimili þeirra svo og sumarfríin og jólaboðin, þegar Birna og Ned komu í heimsókn frá Bandaríkjunum. Ávalt hlaðin gjöfum. Þetta hófst á framsóknartímum skömmtunar og hafta, þegar ekkert erlent fékkst á landinu og hélst áfram allt til seinustu ferðar. Hvort sem það voru leikföng, vatns- og olíulitir, annað til handavinnu eða fatnaður sitt af hverju tagi, tók það öllu öðru fram. Og kom í þvílíku magni, að iðulega þurfti að senda fyrirferðarmikla kassa á undan sér með skipi. Mun láta nærri, að allar yfirhafnirnar, peysurnar skyrturnar sokkarnir hanskarnir, slæðurnar og bindin hafi nægt til að klæða vel á annan tug manns. Ógleymanlegar eru mér ferðirnar út á Ægisgarð og Gróttu, að gæta að, hvort nokkuð sæist til Tröllafoss og síðan ævintýraleg launungin í rökkrinu niðri á höfn til að nálgast kassana hjá Tryggva Bryta um borð og komast síðan óséður með pabba og pakkana í land.
En við Birna vorum nánari en ég vissi áður, það er fyrir fráfall hennar. Hún mun hafa gengið mér í móður stað er móðir mín festist í postnatal depression eftir fæðingu. Fyrir það vil ég þakka þér, elsku Binga mín, hinsta sinni, því um allt annað höfðum við rætt svo ýtarlega seinustu árin. Jafnframt votta ég Edwin, Tínu, barnabarni og barnabarnabörnum í Bandaríkjunum svo og Sigríði Hjálmarsdóttur systur hennar mína innelegustu samúð.
Í Sviss þann 5. nóvember 2016,

Dr. Björn Oddsson, Rapperswil-Jona.