Dagur Jónsson fæddist í Hafnarfirði 11. október 1961. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut 9. febrúar 2017.
Foreldrar hans voru Guðrún Guðmundsdóttir ljósmyndari, f. 5.7. 1922, d. 4.9. 2013, og Jón Jónsson jarðfræðingur, f. 3.10. 1910, d. 29.10. 2005. Systkini Dags eru a) Vala, f. 1955, b) Jón Kári, f. 1958, maki Heiða Gestsdóttir, og c) Sigurlaug, f. 1962, maki Magnús Sigfússon. Dagur var kvæntur Þórdísi Bjarnadóttur hæstaréttarlögmanni f. 1959. Foreldrar hennar: Bjarni Þórðarson, tryggingastærðfræðingur, f. 1936, d. 2012, og Kristín Guðmundsdóttir, lífeindafræðingur, f. 1942.
Börn Dags og Þórdísar eru: 1) Vera, f. 16.5. 1989, í sambúð með Páli Fannari Pálssyni, 2) Vaka, f. 12.7. 1994, í sambúð með Bjarna Guðmundssyni, 3) Vala, f. 4.10. 2000.
Dagur bjó í Hafnarfirði fyrstu fjögur æviárin og flutti þá á Smáraflötina í Garðabæ sem var hans æskuheimili fyrir utan tvö ár þar sem hann dvaldi með fjölskyldu sinni í Mið-Ameríku á áttunda áratugnum. Hann fluttist til Hafnarfjarðar er hann og Þórdís hófu sambúð 1987.
Dagur lauk stúdentsprófi frá Flensborgarskólanum í Hafnarfirði 1982 og nam síðan jarðfræði við Háskóla Íslands.
Dagur hóf störf hjá bæjarverkfræðingi í Hafnarfirði 1986, síðar varð hann vatnsveitustjóri Hafnarfjarðar og við sameiningu veitnanna í Hafnarfirði varð hann veitustjóri. Hann sat í fjölmörgum stjórnum og ráðum sem lutu að vatnsvernd, vatnsöflun, orku- og veitumálum.
Dagur var öflugur skot- og stangveiðimaður, Labradorræktandi og retriever-veiðihundadómari.
Dagur lagði stund á skógrækt og uppbyggingu á jörð fjölskyldunnar Hafnardal við Ísafjarðardjúp, og hvergi fannst honum betra að vera.
Útför Dags fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 17. febrúar 2017, kl. 15.


Við suðurgafl  Sólvangs í Hafnarfirði standa tvö systkini og stara upp í gluggana á annarri hæð hússins. Stúlkan, sem er sex ára, leiðir bróður sinn sem er aðeins þriggja ára, en nógu skynugur til að vita hvers beðið er. Ásamt föður sínum hafa þau komið gangandi að heiman frá Tjarnarbraut 25, sem er aðeins spölkorn í burtu, en faðirinn er genginn inn í húsið og þau bíða þess að frétta hvort systkini sé fætt. Þau standa þarna lengi í októbernepjunni, mænandi upp á gaflinn, eða þar til faðir þeirra kemur loks í gluggann og veifar þeim, en það er til merkis um að fjölskyldunni litlu hafi bæst liðsauki. Þannig er fyrsta minning mín um kæran bróður sem ég kveð í dag með sárum trega.

Drengurinn sem fæddist þennan dag var hið þriðja í röðinni af börnum foreldra minna. Í þá daga var fæðingardeild rekin á Sólvangi en af einhverjum ástæðum var ekki til siðs að hleypa börnum inn á heimsóknartímum. Sú var ástæða þess að systkinin biðu við húsgaflinn. Drengurinn fékk nafnið Dagur, skírður eftir þeim merka manni Dag Hammarskjöld, sem faðir minn hafði mikið dálæti á, en hann var annar í röðinni af tveimur fyrstu aðalriturum Sameinuðu þjóðanna. Dag Hammarskjöld fórst í flugslysi rétt áður en bróðir minn fæddist. Fyrstu fjögur árin í lífi drengsins bjó fjölskyldan í Hafnarfirði en árið 1965 fluttist hún í Garðahrepp, síðar Garðabæ, þar sem hann ólst upp og gekk í skóla. Fyrst barnaskóla, sem nú heitir Flataskóli, og síðar Fjölbrautaskóla Garðabæjar, en í Garðabæ stóð heimili foreldra okkar meðan þau lifðu.

Dagur var strax ákaflega sjálfstæður í hugsun.  Honum varð ekki auðþokað væri hann búinn að gera upp hug sinn og skipti litlu í hvaða máli það var. Hann var greindur og íhugull og óvenju fljótur að setja sig inn í viðfangsefni sín.  Heiðarleiki var honum í blóð borinn, ekki síður en rík kímnigáfa, en jafnframt var hann einrænn að eðlisfari. Hann var vel að sér um veiðar og meðferð skotvopna, enda veiðimaður af Guðs náð. Ég hef aldrei skilið hvernig hann, gjarnan einn síns liðs, gat stundað hreindýraveiðar á fjöllum uppi, gert að bráð sinni, oft mörgum dýrum, og fleytt henni niður jökulár til byggða. Dagur var ekki allra og í samræðum lá hann ekki á skoðunum sínum ef svo bar undir. Hann þoldi illa rökleysur og fleipur.

Faðir okkar, sem var jarðfræðingur, vann talsvert fyrir Sameinuðu þjóðirnar og tók eitt sinn fjölskylduna með til Mið-Ameríku þar sem hún dvaldist á annað ár. Slíkt var auðvitað mikið ævintýri fyrir unglinga á þeim tíma og Dagur, þá aðeins tólf ára, sýndi þar hverrar gerðar hann var. Einn góðan veðurdag, þeir eru gjarnan þannig í Costa Rica, mætti hann hróðugur á tröppurnar heima með forláta veiðiriffil. Kom þá í ljós að hann hafði vélað nágranna okkar og góðan vin, sem var flugstjóri,  til að kaupa fyrir sig riffil í Bandaríkjunum, en þangað flaug nágranninn oft í viku. Dagur hafði klipið af nestispeningum sínum til að láta drauminn rætast, skrapað saman hundrað dollurum sem nægðu til riffilkaupa.  Mér líður seint úr minni angist móður okkar þegar hann svo birtist hróðugur með vopnið. Hann vissi auðvitað sem var að hann hefði aldrei fengið leyfi til slíkra kaupa. Í þessu sem öðru fór hann sínar eigin leiðir. Riffilinn notaði Dagur svo til veiða í frumskógum Costa Rica svo ótrúlegt sem það kann að hljóma.

Eftir stúdentspróf stundaði Dagur nám í jarðfræði við Háskóla Íslands. Árið 1986 hóf hann störf hjá bæjarverkfræðingi Hafnarfjarðarbæjar. Síðar varð hann vatnsveitustjóri Hafnarfjarðar og gegndi því starfi allar götur síðan. Á þessum árum kynntist hann eftirlifandi eiginkonu sinni, Þórdísi Bjarnadóttur hæstaréttalögmanni. Saman eiga þau þrjár dætur.

Árið 2007 keyptu þau Þórdís jörðina Hafnardal á Langadalsströnd í Ísafjarðardjúpi. Dagur sýndi þá eina ferðina enn hve duglegur og áræðinn hann var. Hann byggði þar myndarlegt hús og einn síns liðs lagði hann vatnsveitu heim að bæ, langt ofan úr fjalli, hóf að girða tún og rækta skóg. Þá kom hann sér upp tækjum og vélum til að heyja. Hann vildi að í Hafnardal væri staðarlegt heim að sjá.

Óvíða undi Dagur sér jafn vel, og margar góðar ferðir fórum við bræðurnir saman þangað vestur. Í einni af þeim ferðum kom í ljós að Dagur gekk ekki heill til skógar. Við komuna suður varð ljóst að hann gekk með alvarlegan sjúkdóm. Við áttum þó eftir að fara nokkrar ferðir vestur. Það voru sannkallaðir sæludagar við Djúp. Ég gleymi seint hve glaður hann var þegar ég bauðst til að fara með honum vestur í Hafnardal hvenær sem hann treysti sér til. Dagur vissi mætavel hvernig baráttan við krabbameinið gæti farið. Uppgjöf var honum þó víðs fjarri, og til marks um hve staðráðinn hann var í því að sigra óvininn, stakk hann upp á því að við bræðurnir keyptum saman bát og sigldum vestur í vor.  Ég sagði auðvitað strax já við því og báturinn var keyptur að bragði. Saman sátum við svo á sjúkrahúsinu og skipulögðum siglinguna vestur. Við vorum staðráðnir í að sigla í Jökulfirði, en þangað langaði Dag mjög að koma. Sjálfur hafði ég sem sjómaður komið þangað og veit hve fagurt getur verið þar á góðum dögum.

Mína síðustu stund með bróður mínum átti ég daginn áður en hann dó. Ég var þá hjá honum þar sem hann lá á gjörgæsludeild í öndunarvél. Honum var haldið sofandi. Ég ætlaði að vera farinn heim en eitthvað sagði mér að bíða lengur. Hann vaknaði óvænt og gat gert það skiljanlegt að hann vissi af návist minni. Þegar ég svo loks fór kvaddi ég hann með þeim orðum að í vor sigldum við í Jökulfirði. Ég vissi að hann skildi mig því hann lyfti þumalfingri hægri handar hægt upp.

Elsku Þórdís, Vera, Vaka og Vala. Guð veri með ykkur í sorginni. Það er þyngra en tárum taki að sjá á eftir Degi í blóma lífsins. Hans er og verður sárt saknað af okkur öllum sem stóðum honum nærri.

Jón Kári.