Sigurður Aðalheiðarson Magnússon fæddist að Móum á Kjalarnesi 31. mars 1928. Hann andaðist á Landakotsspítala 2. apríl 2017.Foreldrar Sigurðar voru hjónin: Aðalheiður Jenný Lárusdóttir, f. 7. júní 1907, d. 11. júlí 1937, húsfreyja, og Magnús Jónsson, f. 8. júlí 1893, d. 19. júní 1959, frá Selalæk, verkamaður í Reykjavík. Börn þeirra, auk Sigurðar, eru Sverrir, f. 1929, búsettur í Svíþjóð; Lára Jónína, f. 1930, húsfreyja í Reykjavík; tvíburarnir Úlfar, f. 1931, d. 1932, og Rafn, f. 1931, d. 1966. Stjúpmóðir Sigurðar var Anna Sigurbjörg Lárusdóttir, f. 11. september 1914, d. 3. mars 1997. Anna var móðursystir Sigurðar og tók hún við heimilinu við fráfall systur sinnar, ól hann upp og systkini hans þrjú. Anna og Magnús tóku saman og eignuðust níu börn: Hilmar; Aðalheiði, Ágústu Jónu, Magnús, Jóhönnu, Lárus; Jónínu Rannveigu, Kristin Janus og Hrafnhildi. Auk þess átti Sigurður sjö hálfsystkin samfeðra: Óskar Bertels, Garðar Norðfjörð, Axel Hólm, Bergþóru, Hlín; Magneu, Huldu og Birgi.

Eiginkona Sigurðar, g. 23.3. 2003, er Ragnhildur Bragadóttir, f. 27. júlí 1952, sagnfræðingur og upplýsingafræðingur; skjalastjóri biskupsembættisins. Þau hafa verið samvistum frá 1984. Dóttir þeirra er Þeódóra Aþanasía, f. 23. desember 1991. Dóttir Sigurðar og fyrstu eiginkonu hans, Andreu Þorleifsdóttur, er Hildur, f. 1957; börn hennar eru, Andri Þór, og tvíburarnir Helga Snót og Hildur Sif. Hildur á tvær sonardætur. Sigurður eignaðist synina Magnús Aðalstein og Sigurð Pál með annarri eiginkonu sinni, Svanhildi Bjarnadóttur. Magnús er fæddur 1964; sambýliskona hans er Ragnheiður Valdimarsdóttir; börn þeirra eru Guðrún Elena og Sigurður Mar; Sigurður Páll fæddist 1968; hans kona er Hulda Ingibjörg Magnúsdóttir; synir þeirra eru, Magnús Aron, Ragnar Páll og Bjarni Þór. Þau eru búsett á Spáni. Synir Svanhildar, stjúpsynir Sigurðar, eru Bjarni, Guðmundur Týr og Ragnar Þórarinssynir. Dóttir Sigurðar og Ingveldar H. B. Húbertsdóttur er Kristín, f. 1953, gift Gunnari Val Jónssyni; og eru börn þeirra Inga Dóra Aðalheiður, Húbert Nói og Anton Smári. Kristín og Gunnar eiga einn dótturson.

Sigurður ólst upp í Reykjavík. Hann gekk ungur í KFUM; gerðist ritstjóri Kristilegs skólablaðs árið 1944. Eftir að hann lauk stúdentsprófi úr MR nam hann guðfræði og grísku við HÍ á árunum 1948-1950. Þá hélt hann til Kaupmannahafnar og nam guðfræði og bókmenntir við Kaupmannahafnarháskóla í um það bil ár. Sigurður hélt svo til Grikklands, lærði sögu og bókmenntir við Háskólann í Aþenu til 1952. Að því loknu lá leiðin til Stokkhólmsháskóla, þar lagði hann stund á bókmenntir. Því næst hélt hann til BNA, í New School for Social Research í New York þar sem hann lauk BA-prófi í samanburðarbókmenntum árið 1955. Meðan Sigurður dvaldi í New York var hann útvarpsfyrirlesari hjá Sameinuðu þjóðunum og kenndi íslensku við City College.
Sigurður hóf ungur að birta ljóð, leikrit og smásögur. Sigurður hefur starfað sem ritstjóri, blaðamaður, gagnrýnandi, þýðandi, höfundur ferðabóka og kynningarrita. Sigurður varð bókmenntagagnrýnandi Morgunblaðsins 1957, og árið 1962 gerðist hann meðritstjóri Lesbókar Morgunblaðsins. Árið 1967 tók hann við ritstjórn Samvinnunnar og stýrði tímaritinu til 1974. Sigurður sat í ritstjórn tímarits þýðenda, Jóns á Bægisá, frá 1997.

Sigurður var leiðsögumaður íslenskra ferðalanga um Grikkland um árabil. hann gegndi fjölda trúnaðarstarfa fyrir hin ýmsu félög. Hann var m.a. formaður Rithöfundafélags Íslands 1971-72; Formaður Rithöfundasambands Íslands, hins fyrra og síðara, 1972-78. Formaður Norræna rithöfundaráðsins 1976-77. Hann stofnaði Grikklandsfélagið Hellas 1985 og var formaður þess 1985-88. Þá var hann formaður Íslandsdeildar Amnesty International 1988-1990, 1992-1995. Hann sat í alþjóðlegri dómnefnd um The Neustadt Prize for Literature 1986; og í dómnefnd um Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 1990-1998.

Sigurður hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir verk sín, m.a. var hann tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 1981. Gullkross Konunglegu grísku Fönixorðunnar hlaut hann 1955, og Gullkross Gríska lýðveldisins árið 2006.

Sigurður verður jarðsunginn frá Hallgrímskirkju í dag, 19. apríl 2017, klukkan 13.

Sigurður A. Magnússon, rithöfundur, skáld og þýðandi, ritstjóri, blaðamaður og gagnrýnandi, lést 2. apríl 2017. Sigurður setti sitt mark á íslenskan bókmenntaheim með frumsömdum verkum sínum en ekki síður þýðingunum sem hann færði íslenskum lesendum. Hann var heiðursfélagi Bandalags þýðenda og túlka og  Rithöfundasambands Íslands, enda lagði hann margt af mörkum í þágu íslenskra þýðenda og rithöfunda.

Sigurður var fæddur á Móum á Kjalarnesi árið 1928 og átti um margt erfiða æsku og uppvöxt sem hann sagði síðar frá í endurminningabókum sínum. Eftir að hafa lokið stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1948 las hann guðfræði, grísku, trúarbragðasögu og bókmenntir, fyrst við Háskóla Íslands en síðar í Kaupmannahafnarháskóla, háskólanum í Aþenu og háskólum í Stokkhólmi og New York. Að námi loknu fékkst hann við kennslu en sneri sér fljótlega að blaðamennsku, bæði hérlendis og hjá Sameinuðu þjóðunum, og um tíma kenndi hann íslensku í New York. Heimkominn varð Sigurður ritstjóri Lesbókar Morgunblaðsins og síðar Samvinnunnar, og eftir hann liggja fjölmargar greinar um menningu og þjóðfélagsmál.

Sigurður A. Magnússon var mikill eldhugi með sterka réttlætiskennd og var mjög virkur í félagsmálum, meðal annars í Íslandsdeild Amnesty International og um tíma formaður Norræna rithöfundaráðsins.  Hann var óþreytandi í baráttu sinni fyrir réttindum og bættum kjörum rithöfunda og þýðenda og fékk miklu áorkað í þeim efnum, sem verður seint fullþakkað. Sigurður gegndi lengi formennsku í félögum rithöfunda, fyrst í Rithöfundafélagi Íslands (19711972), síðan í fyrra Rithöfundasambandi Íslands (19721974) og á endanum varð hann fyrsti formaður sameinaðs Rithöfundasambands Íslands (19741978), þegar eiginlegt stéttarfélag varð til. Sigurður var enn fremur einn af stofnfélögum Bandalags þýðenda og túlka og var gerður að heiðursfélaga bandalagsins árið 2005.

Fyrsta bókin sem Sigurður sendi frá sér var Grískir reisudagar árið 1953, en Grikklandsástin fylgdi honum alla tíð og hann var stofnfélagi í Grikklandsvinafélaginu Hellas, fyrsti formaður þess og heiðursfélagi. Grikkland kom einnig við sögu í fleiri ritum hans, bæði frumsömdum og þýddum, en Sigurður sendi frá sér ljóðabækur, skáldsögur, ferðasögur, leikrit, ævisögur, greinasöfn og fræðslurit. Fyrsta bókin í endurminningaröð hans er mörgum minnisstæð, bókin Undir kalstjörnu , sem vakti talsverða athygli og umtal. Hún kom út árið 1979, hlaut Menningarverðlaun DV og var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Sigurður hlaut ýmsar aðrar viðurkenningar fyrir ritstörf, m.a. evrópsku Jean Monnet bókmenntaverðlaunin og gullkross grísku Fönixorðunnar.

Auk annarra ritstarfa var Sigurður A. Magnússon afkastamikill þýðandi sem kynnti íslenskar bókmenntir og menningu á erlendum málum en hans verður ef til vill ekki síst minnst fyrir vandaðar þýðingar á erlendum bókmenntum á íslensku, meðal annars á verkum H. C. Andersen, Walt Whitman, Bertolt Brecht, Gíorgos Seferis, John Fowles, Kazuo Ishiguro, Nagib Mahfúz og Ernest Hemingway, en afbragðsgóð þýðing hans á Snjórinn á Kilimanjaró Hemingways var tilnefnd til Íslensku þýðingaverðlaunanna. Eftirminnilegust af þýðingum Sigurðar er þó ef til vill stórvirkið Ódysseifur , mögnuð þýðing á hinni torþýddu bók Ulysses eftir James Joyce.

Sigurður þýddi einnig fjölmörg ljóð, einkum úr ensku, dönsku, þýsku og grísku, sem hefðu varla ratað til íslenskra lesenda nema fyrir tilstilli hans, enda mörg komin langt að. Úrval þeirra kom út í bókinni Með öðrum orðum (1995), en margar aðrar ljóðaþýðingar Sigurðar hafa birst á öðrum vettvangi.


Bækur mínar (sem vita ekki að ég er til)
eru mér jafngildur þáttur og þetta andlit,
gránandi þunnvangar og augun gráu,
þetta andlit sem ég leita árangurslaust í speglinum
um leið og ég dreg útlínur þess íhvolfri hendi.
Það er ekki án skiljanlegrar beiskju
sem ég hugsa til þess að hin kjarnlægu orð
sem tjá mig eru á þessum síðum
sem ekki þekkja mig, ekki á þeim sem ég hef skrifað.
Þannig er það best. Raddir framliðinna
tala til mín um alla eilífð.

(Höf. Jorge Luis Borges. SAM þýddi -1987)

Merkur og fjölhæfur bókmenntamaður er fallinn í valinn. Bandalag þýðenda og túlka þakkar Sigurði A. Magnússyni samfylgdina og sendir ástvinum hans innilegar samúðarkveðjur.


Fyrir hönd Bandalags þýðenda og túlka,

Magnea J. Matthíasdóttir.