Bjarni Pálsson, fv. skólastjóri Núpsskóla í Dýrafirði og framhaldsskólakennari í Garðabæ, fæddist í Reykjavík 18. júlí 1936. Hann lést 3. október 2017.
Bjarni var sonur Önnu Árnadóttur húsmóður frá Stóra-Hrauni, f. 26. júlí 1901, d. 29. febrúar 1996, og Páls Geirs Þorbergssonar, verkstjóra, frá Syðri Hraundal, f. 29. júní 1894, d. 17. maí 1979. Systkini hans eru Anna María Elísabet, húsmóðir, f. 8. september 1925, d. 19. október 1974, og Árni, fv. sóknarprestur í Kópavogi, f. 9. júní 1927, d. 16. september 2016.
Bjarni lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1958 og hlaut síðar kennsluréttindi sem framhaldsskólakennari. Framan af sinnti hann ýmsum störfum, meðal annars hjá bílaleigunni Fal í Reykjavík, við kennslu í Neskaupstað og við Gagnfræðaskólann við Lindargötu.
Bjarni var kennari og síðar skólastjóri Núpsskóla í Dýrafirði frá 1960-1961 og 1968-1981. Hann var kennari við Fjölbrautaskóla Garðabæjar frá stofnun skólans, þar til hann lét af störfum vegna aldurs árið 2001. Bjarni sinnti einnig bókhaldsvinnu og ráðgjöf fyrir ýmsa aðila allt til dánardags.
Samhliða kennslustörfum sinnti Bjarni ýmsum trúnaðarstörfum. Hann var í stjórn SÁÁ allt frá stofnun samtakanna til æviloka. Bjarni var alla tíð virkur í stjórnmálum og var í framboði til Alþingis bæði fyrir Samtök frjálslyndra og vinstri manna og Alþýðuflokkinn. Hann skrifaði ritstjórnargreinar fyrir Alþýðublaðið um tíma og gegndi mörgum trúnaðarstörfum fyrir Alþýðuflokkinn og síðar Samfylkinguna. Bjarni var mikill áhugamaður um flug og á árum sínum vestur á fjörðum lauk hann flugprófi og skemmti vinum og ættingjum með útsýnisflugferðum.
Eftirlifandi eiginkona Bjarna er Valborg Þorleifsdóttir, f. 31. október 1938, fv. kennari og lífeindafræðingur. Valborg er dóttir Þorleifs Jónssonar, lengst af búsetts í Hafnarfirði, síðar sveitarstjóra á Eskifirði, f. 16. nóvember 1896, d. 29. september 1983 og Hrefnu Eggertsdóttur húsmóður, f. 15. júní 1906, d. 20. mars 1965. Börn þeirra hjóna Bjarna og Valborgar eru: 1) Þorleifur, deildarstjóri hjá Advania, f. 24. október 1963, eiginkona hans er Hildur Ómarsdóttir, yfirþroskaþjálfi hjá Kópavogsbæ, f. 11. ágúst 1970. Þeirra synir eru Bjarni, f. 23. september 1997, og Ómar Þór, f. 8. júlí 2000. 2) Hrefna, tölvunarfræðingur, f. 14. júlí 1965, eiginmaður hennar er Bjarni Birgisson, tölvunarfræðingur, f. 9. desember 1964. Þeirra börn eru Daði, verkfræðingur, f. 28. febrúar 1987, Andri, tölvunarfræðingur, f. 6. mars 1993, og Nanna Kristín, f. 27. ágúst 2002. 3) Anna, leikskólastjóri í Garðabæ, f. 24. mars 1971, sambýlismaður hennar er Jón Emil Magnússon sviðsstjóri, f. 15. september 1964. Börn Önnu og fv. eiginmanns, Hlyns Hreinssonar, f. 4. janúar 1969, eru Huldar, f. 31. maí 1998, Hrefna, f. 28. mars 2001, og Hreiðar Örn, f. 16. mars 2005. 4) Páll Geir, dagskrárstjóri hjá SÁÁ, f. 31. júlí 1972. Dóttir hans og fv. eiginkonu, Rachelle Nicole Wilder, f. 21. september 1980, er Valborg Leah, f. 1. maí 2009.
Útförin fer fram frá Hallgrímskirkju í dag, 18. október 2017, klukkan 13.

Það er með miklum söknuði og trega sem við kveðjum okkar kæra mág og trausta vin, Bjarna Pálsson. Honum kynntumst við fyrst fyrir rúmlega hálfri öld er hann gerðist lífsförunautur Valborgar systur okkar. Með okkur hafa alla tíð ríkt  vináttu- og tryggðarbönd sem aldrei hefur borið skugga á.
Bjarni var með afbrigðum skemmtilegur maður, með ríka frásagnargáfu og afburða skopskyn, sem  svo ríkulega hefur fylgt afkomendum þess merka klerks Árna Þórarinssonar, en Bjarni var dóttursonur hans.

Ég var þeirrar gæfu aðnjótandi að leigja herbergi í kjallaranum að Mánagötu 16, fyrsta háskólaárið mitt veturinn 1966-1967. Það hús, sem var tvær hæðir og kjallari áttu foreldrar Bjarna, Anna Árnadóttir og Páll G. Þorbergsson. Þau bjuggu á efri hæðinni en Bjarni og Valborg á neðri hæðinni með Þorleif þriggja ára og Hrefnu eins árs.

Þetta var sannarlega skemmtilegur tími og gaman að hlusta á skemmtilegar og vel kryddaðar frásagnir þeirra mæðgina, Önnu og Bjarna. Enn skemmtilegra var það þegar systkini Önnu komu í heimsókn, sérstaklega Dói bróðir og Stína systir.

Árið 1968 fluttu Bjarni og Valborg vestur á Núp í Dýrafirði, þar sem þau dvöldu næstu 13 árin eða fram til ársins 1981. Þau kenndu þar bæði og síðar varð Bjarni skólastjóri um langt árabil. Ávallt var gaman að koma vestur á Núp og njóta gestrisni Bjarna og Valborgar. Bjarni var frábær ræðumaður og fór ávallt á kostum í ræðustól, enda kallaði Matthías Bjarnason ráðherra Bjarna skemmtikraftinn frá Núpi á framboðsfundum þegar Bjarni var í framboði fyrir Samtök frjálslyndra og vinstri  manna á Vestfjörðum.

Eftir að að Bjarni og Valborg fluttu suður árið 1981, gerðist Bjarni stærðfræðikennari við Fjölbrautaskólann Í Garðabæ  og starfaði þar til starfsloka. Samtímis sá Bjarni um bókhald og framtöl smáfyrirtækja og einstaklinga. Þar var hann afkastamikill og sparaði mörgum mikla peninga, enda sagði einn ágætur maður við hann þegar Bjarni nefndi hvað hann vildi fá í þóknun: Þú færð í það minnsta þrefalda þessa upphæð enda hefur þú sparað mér stókostleg útgjöld.

Síðustu áratugina hafa samskiptin verið tíðari og nánari en áður. Stórfjölskylda okkar systkina hefur komið saman árlega eftir jólin til að njóta samvista, spila og borða góðan mat. Þessar stundir hafa verið dýrmætar og þar hefur Bjarni ávallt verið hrókur alls fagnaðar.

Tvennt viljum við sérstaklega minnast á og þakka fyrir. Ég og Sigga heitin eiginkona mín fórum í hálfsmánaðar ferðalag um Evrópu með Bjarna og Valborgu árið 1986. Þá nutum við vel frásagnarsnilldar Bjarna. Síðastliðið haust buðu svo systkini mín okkur Bjarna í óvissuferð, en þá höfðum við nýlega átt stórafmæli, ég 70 ára afmæli og Bjarni 80 ára afmæli. Óvissuferðin, sem var tveggja daga ferð um Mýrar og Snæfellsnes þar sem farið var á slóð föðurfólks Bjarna á Mýrum, en þar var hann nokkur sumur í sveit og á slóð móðurfólks hans á sunnanverðu Sæfellsnesi þar sem sr. Árni Þórarinsson sat sem prestur. Þá var farið í Stykkishólm þar sem ég átti mín unglingsár og eins um allt Snæfellsnesið, en ég var í 14 ár héraðslæknir í Ólafsvík.
Þessi ferð var stórkostleg og úr henni geymum við fallegar og ljúfar minningar um góðan dreng.
Við fráfall Bjarna er stórt skarð höggvið í fjölskylduna og söknuðurinn er sár. Fyrir allar góðu stundirnar sem við áttum með Bjarna erum við þakklát, þær ljúfu minningar munu lifa með okkur og sefa sorgina.
Elsku Vallý, Þorleifur, Hrefna, Anna, Páll og fjölskyldur.  Megi algóður Guð gefa ykkur styrk, og minningin um  þennan ljúfa og góða dreng bregða birtu á þungbæra sorg ykkar.
Blessuð sé minning Bjarna Pálssonar.

Kristófer Þorleifsson, Guðríður Þorleifsdóttir.