Víglundur Sigurjónsson fæddist 23. desember 1920 í Þorgeirsstaðarhlíð í Miðdölum, Dalabyggð. Hann andaðist á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund 8. október 2017. Foreldrar hans voru Sigurjón Jónsson, f. 16.5. 1875, d. 20.4. 1956, og kona hans Kristín Ásgeirsdóttir, f. 1.11. 1878, d. 6.9. 1971.
Systkini Víglundar voru: Guðrún, f. 28.7. 1901, d. 2.2. 1962; Ágúst, f. 15.8. 1902, d. 13.3. 2001; Ásgeir, f. 19.11. 1904, d. 15.6. 1996; Jóhanna, f. 29.7. 1911, d. 29.9. 2002 ; Þuríður f. 3.11. 1912, d. 25.10. 1993; Margrét, f. 27.3. 1916, d. 29.11. 1995; og Stefanía, f. 11.5. 1918, d. 28.1. 2010.
Víglundur kvæntist Ragnheiði Hildigerði Hannesdóttur, f. 29. febrúar 1924, frá Litla – Vatnshorni í Haukadal, 4. nóvember árið 1950. Foreldrar hennar voru: Guðrún Stefanía Guðjónsdóttir, f. 4.8. 1891, d. 19.11. 1984, og Hannes Gunnlaugsson, f. 30.9. 1891, d. 5.9.1949.
Börn Víglundar og Ragnheiðar eru:
1) Trausti Víglundsson, f. 1944, kvæntur Kristínu Berthu Harðardóttur, f. 1947. Börn þeirra eru: a) Ragnheiður, f. 1966, sem býr með Knut Paasche, f. 1964, börn hennar með fyrrverandi eiginmanni, Þór Jónssyni, f. 1964, eru i) Jakob Sindri, f. 1991, sem býr með Aldísi Ernu Vilhjálmsdóttur, f. 1990, barn þeirra er Marey Ösp, f. 2016, ii) Víglundur Jarl, f. 1992, iii) og Freydís Jara, f. 1999; b) Hörður, f. 1967, sem býr með Dagnýju Rós Jensdóttur, f. 1982, börn hans með fyrrverandi sambýliskonu, Brynhildi Jónsdóttur, f. 1966, eru i) Trausti Lér, f. 1997, ii) og Tryggvi Loki, f. 1999, en börn með Dagnýju Rós eru i) Natalía Birna, f. 2015, ii) og Karmen Von, f. 2016, en áður átti Dagný Rós Alexöndru Angelu, f. 2002; c) Bertha, f. 1970, gift Ágústi Arnbjörnssyni, f. 1964, og eru börn þeirra i) Kristín, f. 1996, ii) og Elísabet, f. 1998.
2) Guðrún Stefanía, f. 1951, gift Heiðari Gíslasyni, og er barn þeirra Fríða Kristín, f. 1979.
3) Ásgeir Sævar, f. 1962.
Víglundur flutti að Kirkjuskógi í Miðdölum sex ára með foreldrum sínum og stórum systkinahópi árið 1926 og ólst þar upp, en bjó áður á Glæsisvöllum. Ungur vann hann landbúnaðastörf á bænum og sömuleiðis við vegagerð, en þannig áskotnaðist honum fé til að greiða fyrir skólavist á Héraðaskólanum að Reykjum í Hrútafirði 16 ára að aldri. Víglundur flutti síðan til Reykjavíkur og vann þar ýmis störf, í Bretavinnunni, sem kallað var, og einnig hjá Ölgerðinni, auk þess sem hann framleiddi gúmískó. Hann starfaði hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur frá 1. september 1946 til 1. júní 1983 og sem yfirdyravörður á Hótel Sögu frá 6. júní 1963 fram á áttræðisaldur. Víglundur stundaði hestamennsku frá því að hann gat setið uppréttur í hnakki og fram á gamalsaldur og átti marga ágæta hesta, þ. ám. Gnýfara sem var með bestu kappreiðarhestum landsins.
Útför Víglundar fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 19. október 2017, og hefst athöfnin klukkan 13.

Nú er elsku afi minn fallinn frá 96 ára að aldri, fyrirmynd mín í svo mörgu, hjálparhella og ráðgjafi. Var mikil gæfa fyrir fjölskylduna að eiga hann að í næstum heila öld, því að hann fylgdist með öllum eins og kostur var og studdi af einurð og örlæti, hann og amma Ragna. Þau eru í huga mínum eitt enda alltaf nefnd í sömu andrá, Ragna og Villi.
Fyrstu árin mín ólst ég upp í kjallaranum hjá þeim á Hagamel, þar sem þau áttu heima í 50 ár. Þegar ég var 6 ára flutti ég með foreldrum mínum og systkinum á Seltjarnarnes, þannig að við vorum áfram í nálægð við þau. Var gott að koma við hjá þeim eftir skólasund í Vesturbæjarlaug áður en sundlaug kom á nesið. Afi stundaði Vesturbæjarlaugina daglega og saknaði þess mikið eftir að þau amma fluttu á Sléttuveg. Afi bjó lengst af við góða heilsu. Hann stundaði hestamennsku fram á níræðisaldur, en slasast alvarlega þegar hann datt af baki. Var ótrúlegt að fylgjast með honum í bataferlinu en þá sýndi sig úr hverju hann var gerður. Hann gafst ekki upp, lét ekki úrtöluraddir hafa áhrif á sig og æfði sig, meðal annars með því að ganga í vatninu í lauginni á Grensás , til að geta komist leiðar sinnar einn og óstuddur sem fyrr. Þrautseigju hans og dugnaði var við brugðið.
Afi ólst upp í stórum systkinahópi í Kirkjuskógi í Miðdölum og var yngstur systkina sinna. Systkinin voru samrýnd og mikil hlýja á milli þeirra og fjölskyldna þeirra. Römm var sú taug sem dró þau öll til Dalanna og hún náði einnig taki á næstu kynslóðum. Frá sex ára aldri og fram á unglingsár fór ég reglulega í sveit á LitlaVatnshorn í Haukadal þar sem amma og pabbi eru fædd. Á þeim tíma kynntist ég vel ættingjum ömmu og afa þar en bróðir afa var t.d. bóndi á Erpsstöðum og dætur hans bjuggu á jörðum þar í kring. Amma og afi komu í Dalina á hverju sumri til að heimsækja frændfólk sitt og ég man hvað var alltaf gaman að fá að leggja silungsnet með afa, vitja um þau og læra af honum handtökin, þessi handtök sem ég er nú farin að sýna sonardóttur minni við Haukadalsvatn.
Afi sat aldrei auðum höndum þegar hann kom vestur. Hann var mikill vinnuþjarkur og hjálpaði til við þau verk sem þurfti að vinna á bænum. En það var líka farið í heimsóknir á aðra bæi, hestamannamót á Nesodda og í reiðtúra, þegar afi hafði hestana í sumarbeit fyrir vestan hjá Ágústi bróður sínum á Erpsstöðum. Þá var ég sjaldnast skilin eftir.

Ég stundaði síðan hestamennsku með afa í Víðidalnum en þar átti hann hesthús. Áttum við góðar stundir saman þar og fékk ég að heyra margar sögur bæði af hestum og af honum þegar við fengum okkur kakó eða kaffi með pönnukökum frá ömmu.
Þegar ég fermdist fékk ég hnakk frá ömmu og afa í fermingargjöf og fyrir fermingarpeningana keypti ég mér hestinn Ljúf. Eftir að amma og afi eignuðust sumarbústað í Eilífsdal í Kjós fóru hestarnir í sumarhaga þangað og var það tilhlökkunarefni á hverju vori að fara í þá ferð. Þá kom Óli, bróðir ömmu, ríðandi úr Hafnarfirði með sína fjölskyldu. Var yfirleitt áð í Kollafirði og þangað komu börn og barnabörn til að taka þátt og gæða sér á nestinu.
Afi og amma nutu dvalarinnar í sumarbústaðnum á sumrin, að rækta landið og skóginn, stinga niður kartöflum og stunda hestamennsku. Þau voru alltaf að og var stórkostlegt að sjá hvernig þau höfðu ræktað upp landið í kringum bústaðinn sem var berangur þegar þau keyptu hann. Afi sló með orfi og ljá þar sem ekki var hægt að koma að sláttuvél, hann hlóð vaðlaug fyrir hundinn okkar Rösk því að hann vissi hvað honum þótti gaman að synda, hlóð laut til að hægt væri að vera þar í skjóli þegar sólin skein, og sléttaði flöt fyrir barnabörnin svo þau gætu leikið sér í boltaleikjum.
Afi og amma studdu mig þegar ég fór í nám til Svíþjóðar í fornleifafræði og fylgdust mjög vel með því sem ég var gera. Þau hvöttu mig jafnframt til að læra meira, sem ég gerði eftir dálítið hlé. Afa bauðst ekki löng skólaganga en hann hefði gjarnan viljað eiga þess kost að stunda frekara nám. Mér er afskaplega minnisstætt þegar hann sagði börnunum mínum frá því að hann hafði safnað peningum í vegavinnu til að komast í Héraðaskólann á Reykjum í Hrútafirði þegar hann var 16 ára. Þeim var þetta ofarlega í huga þegar þau fóru sjálf í vikuferð að Reykjum með sínum skólafélögum. Þangað óku þau í rútu en langafi þeirra gekk úr Dölunum yfir í Hrútafjörð. Þegar hann fór heim í jólafrí óð hann snjó upp að mitti. Einkadóttur minni Freydísi Jöru fannst mjög gaman þegar hún fann mynd af langafa sínum þar á vegg og gat sagt frá því að í þá daga hefði hann farið þessar ferðir fótgangandi.
Þótt afi byggi öll þessi ár í Reykjavík átti sveitin í honum hvert bein. Ég gleymi ekki hvað honum fannst mikið til Skagafjarðar koma, þegar þau amma komu norður þangað ásamt Stefaníu, föðursystur minni, til að skoða fornleifauppgröftinn sem ég stóð fyrir á Hólum í Hjaltadal. Hann hreifst af bæjunum og hestunum og ekki síst hinni fornu höfn í Kolkuósi.
Undir það síðasta gat hann ekki leyft sér að fara vestur í Dali, en þar dvöldum við stórfjölskyldan í fáeina daga í sumar hjá frændfólki hans á Stóra-Vatnshorni. Sólin skein og glampaði á vatnið. Við lögðum net frá Litla-Vatnshorni og fengum nokkrar vænar bleikjur. Það gladdi hann ósegjanlega að fá nýjan silung þegar við komum aftur í bæinn og að sjá ljósmyndir úr sveitinni sem var honum alltaf svo kær.
Afi hefur leitt afastúlkuna sína gegnum lífið, alltaf til taks og alltaf ráðagóður, en nú er komið að kveðjustund. Það er sárt þótt ekki sé hægt að krefjast þess að menn lifi miklu lengur en hann gerði. En mestur er missir ömmu. Þau voru gift í næstum 67 ár. Það er nú í okkar höndum, sem næst henni standa, að halda utan um hana og styðja. Afi treysti því. Blessuð sé minning hans.

Ragnheiður Traustadóttir.