Eyjólfur fæddist í Ólafsvík 23. október árið 1923. Hann lést á Skjóli hjúkrunarheimili 11. október 2017.
Foreldrar hans voru Magnús Kristjánsson frá Ólafsvík, f. 1875, d. 1963, og Sigþrúður Katrín Eyjólfsdóttir úr Bjarneyjum, f. 1890, d. 1949, sem var seinni eiginkona Magnúsar. Fyrri eiginkona hans var Kristín Þórðardóttir, f. 1875, d. 1921. Eyjólfur var þriðji yngstur tíu systkina sem öll eru látin.
Eyjólfur giftist Sigurrósu R. Jónsdóttur árið 1962 en hún lést árið 2014. Sigurrós og Eyjólfur eignuðust tvær dætur en fyrir átti Sigurrós eina dóttur sem Eyjólfur gekk í föðurstað. Dæturnar eru: 1) Guðrún V. Stefánsdóttir, f. 1954, prófessor við Háskóla Íslands, gift Birni Ágústssyni, f. 1954. Dætur Guðrúnar og Björns eru: a) Ágústa Rós, f. 1977, gift Herði Sturlusyni. Dætur þeirra eru Úlfhildur, f. 2013, og Birta fædd 2017. b) Harpa, f. 1985. Dóttir Hörpu er Embla Einarsdóttir, f. 2004. c) Valgerður, f. 1992. Dóttir hennar er Ylfa Birkisdóttir, fædd 2016. 2) Halldóra Eyjólfsdóttir, f. 1964, sjúkraþjálfari, gift Mats Arne Jonsson, f. 1957. Börn þeirra eru Hafdís Maria, f. 1992, sambýlismaður hennar er Þorleifur Einarsson, Vera Hjördís, f. 1995, kærasti hennar er Dagur Þorgrímsson, Snorri Mats, f. 1999, og Magdalena, f. 2002. 3) Sigþrúður Katrín Eyjólfsdóttir, f. 1971, þroskaþjálfi, gift Arnaldi Skúla Baldurssyni. Sigþrúður Katrín átti fyrir einn son; a) Eyjólf Emil Jóhannsson, f. 1994, með Arnaldi á hún drengina b) Baldur Rökkva, f. 2002, og Dag Skúla, f. 2005.
Eyjólfur ólst upp í Ólafsvík og vann þar ýmis störf á sjó og landi til ársins 1961. Það ár gerðist hann verkstjóri á síladarplaninu Haföldu á Seyðisfirði. Þar kynntist hann Sigurrósu eiginkonu sinni. Þau bjuggu öll sín búskaparár í Reykjavík, lengst af á Langholtsvegi 168. Eyjólfur vann þó áfram sem verkstjóri á síldarplönum fram til ársins 1968, framan af á Seyðisfirði en síðar á Raufarhöfn. Eftir það starfaði hann lengst af í málningarverksmiðju Slippfélagsins.
Eyjólfur og Sigurrós fluttu í þjónustuíbúð á Norðurbrún 1 árið 2005 en síðustu þrjú ár dvaldi Eyjólfur á hjúkrunarheimilinu Skjóli.
Eyjólfur verður jarðsunginn frá Langholtskirkju í Reykjavík í dag, 23. október 2017, og hefst athöfnin klukkan 13.

Þær voru fjórar, Suðureyrarsysturnar frá Tálknafirði, Magnea, Sigurrós, Erna, mamma mín, og Gerða. Hann Eyvi okkar átti eina þeirra, þá næstelstu, hana Sigurrósu, sem við kölluðum alltaf Sillý frænku. Bjuggu lengst af á Langholtsveginum þangað sem leiðir allra í fjölskyldum systranna lágu í tíma og ótíma. Þar bjó líka afi okkar, hann Jón Guðmundsson, sem við kölluðum gjarnan ættarhöfðingjann. Nú eru þau öll farin með honum Eyva okkar.

Þau Eyvi og Sillý voru komin undir fertugt, að mig minnir, þegar þau kynntust. Ástin kviknaði í síldinni á Seyðisfirði, hann verkstjóri, hún ráðskona í eldhúsinu á síldarplani, örugglega stuð og stemning þar, enda mikið umleikis. Gunna frænka var stelpan hennar Sillýjar, fædd á sama ári og ég, Eyvi barnlaus en svo fæddust þær Dóra og Kata, kærar frænkur mínar. Man eftir þeim báðum í vöggu, ótrúleg krútt. Þau voru svo sannarlega stolt af þeim öllum þremur; hafa allar orðið gæfumanneskjur og fært þeim dásamlega afkomendur og tengdabörn.

Eyvi var frá Ólafsvík. Hann átti sterkar taugar þangað og sagði sögur í gríð og erg um Ólafsvík og lífið þar en ekki síst frá fólkinu og átti margar skemmtilegar sögur í handraðanum. Stundum var eins og sögurnar spryttu fram án nokkurs tilefnis. Hann var einfaldlega sítengdur við æskuslóðir og þangað leitaði hugurinn gjarnan og þangað fór hann eins oft og tækifærin gáfust.

Eyvi hefur örugglega verið tryggasti starfsmaður sem um getur. Heilsuhraustur, trúr sínu og vildi alltaf skila öllum verkum með sóma var ekki mikið fyrir að skipta um vinnu. Sama gilti um störf hans við Langholtskirkju. Þar var hann hringjari árum saman, mætti alltaf þegar á þurfti að halda, hringdi kirkjuklukkunum og lagði margt fleira af mörkum í kirkjustarfinu. Honum var umhugað að sinna því hlutverki af alúð, eins og öllu öðru.

Í mínum huga var hann alltaf svo brosmildur og glaðlegur og hafði óendanlega gaman að barnabörnunum þeirra Sillýjar frænku, tilsvörum þeirra, hegðun, söng og samveru. Það var eins og hann ætti auðvelt með að breyta sér aftur í barn, fullorðinn maðurinn. Sat eða lá hjá þeim á gólfinu, hló og kjáði og fékk mikla ást á móti. Honum fannst afar gaman að segja frá skemmtilegum tilsvörum þeirra. Svo hló hann.

Þegar ég hugsa um samverustundir okkar gegnum tíðina þá finn ég fyrir hlýju í hjartanu. Meðal afar ljúfra minninga eru þau ár sem þau Sillý og Eyvi og mamma mín, Erna, bjuggu að Norðurbrún 1; þau saman í íbúð og mamma í annarri. Hún að sigla inn í tilveru Alzheimer sjúkdómsins. Þar var ég vitni að ótrúlega fallegri samveru þeirra þriggja. Mamma naut óendanlega góðrar umhyggju þeirra beggja en þau veittu henni ekki síst glaðlega samveru. Þvílík kátína og skemmtun að vera með þeim þremur! Glaðværð hefur örugglega aukist þarna uppi núna, þið vitið og bakkelsi með, geri ég ráð fyrir.

Það varð síðan hlutskipti Eyva að missa smátt og smátt samband við tilveruna hin allra síðustu ár og var kominn á tíunda tuginn þegar hann kvaddi. Hann var tilbúinn í það, geri ég ráð fyrir.  Ég er afar þakklát fyrir kynni okkar og á kveðjustundinni næ ég í fallegu minninguna þegar ég bauð honum í síðasta sinn upp í dans,  á níræðisafmælinu hans. Vildi frekar dansa, en halda ræðu fyrir hann. Það var betur við hæfi. Það eru ekki margir sem eru til í tuskið á þeim aldri.

Blessuð sé minning hans og frænku minnar góðu. Þeirra er saknað en minningarnar ylja. Börn þeirra og barnabörn bera þeim báðum svo sannarlega gott vitni. Fyrir þau voru þau svo þakklát og stolt.

Margrét Theodórsdóttir