NÝTT greiðslukortatímabil hefst í dag hjá þeim fyrirtækjum sem hafa breytilegt tímabil, en að sögn talsmanna greiðslukortafyrirtækja falla flestar verslanir þar undir. Búast kaupmenn við líflegri jólaverslun um helgina.
Nýtt kortatímabil hefst í dag

NÝTT greiðslukortatímabil hefst í dag hjá þeim fyrirtækjum sem hafa breytilegt tímabil, en að sögn talsmanna greiðslukortafyrirtækja falla flestar verslanir þar undir. Búast kaupmenn við líflegri jólaverslun um helgina.

Kristján Jóhannesson, markaðsfulltrúi hjá Visa-Íslandi, segir að með því að lengja kortatímabil í desember sé hægt að dreifa álagi viðskipta yfir lengra tímabil.

Kortatímabil hefst að öllu jöfnu 18. hvers mánaðar. Bergsveinn Sampsted, markaðsstjóri Eurocard á Íslandi, segir að þeir kaupmenn sem hafa breytilegt kortatímabil færi tímabilið gjarnan fram á fimmtudag ef 18. ber upp um helgi.

Í jólamánuðinum í fyrra hófst kortatímabil 8. desember, en á næsta ári mun það hefjast 12. desember. Viðmiðun varðandi breytilegt kortatímabil í desember er að tvær helgar fyrir jól falli inn í nýja tímabilið. Að sögn talsmanna kortafyrirtækjanna haldast boðgreiðslur, raðgreiðslur og erlendar úttektir óbreyttar.

Morgunblaðið/Kristinn