Landmælingar ríkisins: Ný kortabók og landshlutakort komin út LANDMÆLINGAR Íslands hafa sent frá sér nýja útgáfu af kortabók og tvö ný aðalkort, af Vestfjörðum og Snæfellsnesi, Dölum og Borgarfirði.

Landmælingar ríkisins: Ný kortabók og landshlutakort komin út

LANDMÆLINGAR Íslands hafa sent frá sér nýja útgáfu af kortabók og tvö ný aðalkort, af Vestfjörðum og Snæfellsnesi, Dölum og Borgarfirði.

Í kortabókinni eru ýmsar upplýsingar fyrir ferðafólk og m.a. eru bensínstöðvar, bifreiðaverkstæði, söfn og sundlaugar merktar inn á kortin. Í bókinni eru einnig ráðleggingar Umferðarráðs varðandi akstur á þjóðvegum og leiðbeiningar frá Almannavörnum ríkisins um viðbrögð við ýmsum hættum.

Aðalkort blað 1 sýnir Vestfjarð arkjálkann en blað 2 sýnir Snæfellsnes, Dali og Borgarfjörð. Inn á aðalkortin eru m.a. merkt örnefni, vegir, bílferjur, vegaslóðir, bæir, sundlaugar, söfn og margt fleira sem getur komið ferðafólki að einhverju gagni á ferðalagi um Ísland.

Sölustaðir korta frá Landmælingum Íslands eru um 200 talsins um allt land en einnig er rekin sérverslun með kort að Laugavegi 178 í Reykjavík.

Ný útgáfa kortabókar Landmælinga.