SAMANTHA Britton, enska knattspyrnukonan sem lék með ÍBV í sumar, var rekin úr enska landsliðshópnum á föstudaginn í kjölfar lyfjaprófs. Strax að prófinu loknu viðurkenndi hún fyrir landsliðsþjálfaranum að hún hefði neytt kannabisefna.
SAMANTHA Britton, enska knattspyrnukonan sem lék með ÍBV í sumar, var rekin úr enska landsliðshópnum á föstudaginn í kjölfar lyfjaprófs. Strax að prófinu loknu viðurkenndi hún fyrir landsliðsþjálfaranum að hún hefði neytt kannabisefna. England mætir Úkraínu í síðari leik liðanna um sæti í átta liða úrslitum Evrópukeppninnar í dag en Britton er í hópi reyndari leikmanna enska liðsins og hefur spilað 44 landsleiki. Hún var markahæsti leikmaður ÍBV í sumar, skoraði 12 mörk í 14 leikjum.

"Ég skammast mín mjög og hef svikið bæði sjálfa mig og félaga mína í landsliðinu fyrir svona mikilvægan leik. Ég mun taka afleiðingunum af misgjörðum mínum," sagði hin 27 ára gamla Britton, sem leikur með Everton í ensku úrvalsdeildinni. Forráðamenn Everton sögðust ætla að bíða eftir viðbrögðum enska knattspyrnusambandsins áður en þeir tækju ákvörðun um refsingu. "Hún hefur leikið frábærlega að undanförnu," sagði Keith Marley, knattspyrnustjóri kvennaliðs Everton.

Enska landsliðið stendur mjög vel að vígi gegn Úkraínu eftir að hafa unnið fyrri leikinn á útivelli, 2:1.