NÝ ljósmyndastofa, Dagsljós, verður formlega opnuð í dag, laugardag en hún er við Glerárgötu 36. Finnbogi Marinósson ljósmyndari á og rekur stofuna.
NÝ ljósmyndastofa, Dagsljós, verður formlega opnuð í dag, laugardag en hún er við Glerárgötu 36. Finnbogi Marinósson ljósmyndari á og rekur stofuna.

Við þetta tækifæri opnar hann jafnframt sýningu á ljósmyndum sem hann hefur tekið að undanförnu og eru liður í syrpu sem hlotið hefur vinnuheitið Andlit Akureyrar. Um er að ræða myndir af bæjarbúum, sá yngsti er 7 mánaða gamall og þeir elstu tilheyra hópi eldri borgara. Ætlunin er að í lok árs verði til 60 mynda syrpa sem sýni þverskurð af fólki sem byggði Akureyri árið 2003. Myndirnar eiga það sameiginlegt að fólkið er allt í eða við sama stólinn.

Dagsljós býður upp á alla almenna ljósmyndaþjónustu, myndatökur af ýmsu tagi hvort heldur er á stofunni eða utan hennar, viðgerðir á myndum og fleira.

Stofan verður opin daglega frá kl. 10 til 18, en í dag, laugardag verður opið frá kl. 12 til 17.