Svona býrðu til ekta makkarónukökur

Bleikar makkarónukökur.
Bleikar makkarónukökur.

Það er óendanleg stemning sem fylgir frönskum makkarónukökum. Þær eru ógurlega fallegar í laginu og svo bráðna þær í munninum og veita ákveðna alsælu á meðan þær eru borðaðar. Makkarónukökur eru dásamlega fallegar á veisluborð, í brunch-inn með vinunum, í saumaklúbbinn eða sem desert.

Smartland Mörtu Maríu elskar fallega hluti sem búa til stemningu og þess vegna eru makkarónukökur í miklu uppáhaldi. Í höfuðstöðvum Smartlands eru borðaðar makkarónukökur þegar vel gengur og þegar ástæða er til að fagna lífinu og tilverunni. Það væri óskandi að það væri hægt að halda því fram að það gerðist daglega en það er því miður ekki raunveruleikinn. Undirrituð mælir með því að ferðalangar hugsi út fyrir rammann og taki makkarónukökur með sér í ferðalagið. Þegar margir ferðast saman er góður siður að hver og einn komi með óvæntan glaðning í ferðalagið. Óvænti glaðningurinn er tekinn upp þegar enginn á von á neinu og skapar þetta dásamlega stemningu.

Makkarónukökur eru frábær leið til að slá í gegn í ferðalaginu. Ímyndið ykkur að þið séuð stödd á Hornströndum þar sem mjólkin er búin og nestið orðið pínulítið sjúskað eftir nokkurra daga gönguferð þegar einn í hópnum dregur upp box með makkarónukökum.

Svona bakar þú þínar eigin makkarónukökur:

150 g möndlumjöl (möndlur hakkaðar í matvinnsluvél eða Vitamix-blandara)
150 g flórsykur
2 eggjahvítur

150 g sykur
100 g vatn
2 eggjahvítur
20 g sykur

Möndlumjölinu er blandað saman við flórsykur og eggjahvítur og hrært er vel í á meðan eða þangað til deigið er orðið að flottum massa. Ef þú vilt hafa makkarónurnar í fallegum litum skaltu setja duftmatarlit út í massann á þessu stigi málsins. (Fljótandi matarlitur er afleitur í þessar kökur).

Sykur og vatn er sett saman í pott og soðið í síróp. Sírópið þarf að verða 113 gráðu heitt og því er gott að hafa hitamæli við höndina. Gott ráð er að sjóða sírópið þangað til gufa hættir að koma upp úr pottinum.

Eggjahvítuskammtur tvö er þeyttur saman við sykurinn í hrærivél. Síðan er sírópinu blandað hægt út í deigið og það þeytt þangað til marensinn verður kaldur.

Þá er marens og möndlumassa blandað saman. Setjið deigið í sprautupoka og sprautið í litlar makkarónukökur og setjið á bökunarpappír.

Látið makkarónurnar þorna í um það bil 30 mínútur, áður en þær eru bakaðar í forhituðum ofni í 12 til 16 mínútur við 140°C.

Fylling í makkarónur:

100 g rjómi
25 g glúkósi
215 g hreint hvítt súkkulaði

95 g ávaxtamauk (niðursoðnir ávextir með 10 prósent sykri; nota má hvaða ávöxt sem er)

Rjómi og glúkósi eru sett saman í pott og suðan látin koma upp. Síðan er því hellt yfir súkkulaðið og hrært saman þar til súkkulaðið er alveg bráðið. Þá er ávaxtamaukinu blandað saman við. Það er góð hugmynd að nota töfrasprota þegar þessu er blandað saman.

Látið kremið kólna inni í kæli þar til það fer að taka sig. Þá er hægt að smyrja fyllingunni á milli makkarónanna.

Verði ykkur að góðu!

Makkarónukökur búa til mikla stemningu.
Makkarónukökur búa til mikla stemningu. Ljósmynd/Pintrest
Ljúffengar makkarónukökur í fallegum pastellitum.
Ljúffengar makkarónukökur í fallegum pastellitum.
Makkarónukökur.
Makkarónukökur.
Í Frakklandi er hægt að kaupa dásamlegar makkarónukökur í flottum …
Í Frakklandi er hægt að kaupa dásamlegar makkarónukökur í flottum umbúðum.
Makkarónukökur.
Makkarónukökur.
Makkarónukökur minna á París.
Makkarónukökur minna á París.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert