Gerði tvískipta brúðartertu fyrir frænda sinn

Eva Rún Michelsen gerði þessa glæsilegu brúðartertu.
Eva Rún Michelsen gerði þessa glæsilegu brúðartertu.

Eva Rún Michelsen hefur unun af kökubakstri og bera kökurnar hennar þess merki. Hún heldur úti bloggsíðunni Kökudagbókin og það er auðvelt að missa sig þegar síðan er heimsótt því það virðist allt leika í höndunum á Evu Rún. Hún á ekki langt að sækja hæfileikana því afi hennar rak lengi bakarí í Þorlákshöfn. Fyrir stuttu var hún beðin um að baka brúðartertu fyrir frænda sinn og skoraðist hún ekki undan því. Annar hluti kökkunar var tileinkaður brúðurinni en hinn helmingurinn brúðgaumanum.

„Kakan var ætluð um 70 gestum en slíkar kökur eru almennt ekki nema tveggja hæða þegar um svona háar og þykkar kökur er að ræða og (nema efsta kakan sé þeim mun smærri) þannig að ég nældi mér í gerviköku hjá Allt í köku til að hafa neðst. Ég byrjaði svo á að baka tvennskonar botna, kókósbrúðartertu og súkkulaði truffle torte,“segir Eva Rún.

Kakan var tvennskonar, kókósbrúðartertan öðru megin og súkkulaði truffle torte hinum megin. Til þess að kökurnar myndu allar haldast saman segir Eva Rún að það skipti mjög miklu máli að hafa nóg af súkkulaðikremi.

„Ég hefði vitanlega átt að byrja fyrst á að gera slaufuna og blómin nokkrum dögum fyrr svo skrautið sé fullharðnað þegar það er sett á kökuna en það sleppur að gera það einum til tveimur sólarhringum fyrr ef skrautið er ekki með þeim mun meira og þykkra Gum paste. Leiðbeiningar fyrir slaufunni má finna á CakeCentral. Rósirnar má gera á marga vegu en uppáhaldsaðferðin mín í dag er að mynda keilur sem fara á vír eða tannstöngla og nota svo rósamót fyrir rósarblöðin ásamt kúluáhaldi til að þynna út jaðrana og gera rósirnar raunverulegri, til að gera laufblöðin notaði ég stimpil með rósarlaufblaði. Leyfið öllu að stífna og þorna á eggjabakkadýnum,“ segir hún.

Þegar Eva Rún var búin að koma kökunum saman voru þær kældar vel áður en sykurmassinn var settur yfir.

„Ég byrjaði á að setja hvítan sykurmassa yfir allt saman og setti svo litaðan fondant yfir brúðguma megin. Þannig fékkst ákveðin dýpt á móti mynstrinu á brúðar „kjólnum“. Ég hef áður sýnt og sagt ykkur stuttlega frá því hvernig sé best að stafla kökum með bambus stoðum og fer því ekkert nánar í það hér en ítreka þó mikilvægi þess að styrkja svona háar og staflaðar tertur. Ég notaði Royal Blue frá Wilton til að lita sykurmassann en ég nota ávallt Satin Ice Sugar Icing sem fæst hjá Allt í köku. Það þurfti í raun mikið minni lit en ég átti von á,“ segir hún.

Blómið/næluna gerði hún með Patchwork skera en „perlufestina“ og línurnar gerði hún með beinum hringlaga stút. Hún notaði stút no. 4 fyrir perlurnar (doppurnar) og no.3 fyrir línurnar.

„Ég mæli eindregið með meðfylgjandi uppskrift frá Wilton fyrir svona skreytingar, þ.e.a.s. línur, borða, rósir og hvaðannað sem krefst þess að það haldi lögun sinni.“

Mjallhvítar-smjörkrem

  • 2/3 bolli vatn
  • 1/4 bolli Meringue duft frá Wilton
  • 1 og 1/4 bolli Crisco feiti eða önnur álika grænmetis feiti
  • 12 bollar flórsykur
  • 1 tsk salt
  • 2 tsk bragðefni eftir smekk, t.d. vanilludropar og smjörkremsbragð

Aðferð:

  1. Þeytið fyrst vatn og maregns duft þangað til vel blandað saman eða stífir toppar myndast.
  2. Bætið við 4 bollum af flórsykri á litlum hraða.
  3. Bætið rest af flórsykri og feiti saman við til skiptis þangað til allt er komið í skálina ásamt bragðefnum, áfram á lágum hraða.
  4. Hrærist þangað til allt er fullblandað saman.

„Til að fá fallegt munstur er best að leyfa hendinni að ráða, munið bara að halda þessu eins og lönguvitleysu þar sem þið endið hvergi og haldið áfram, langar/stuttar línur, beygjur hér og þar osfrv. Ef þið viljið fá glansáferð á kökuna mæli ég með að gera það fyrst með perludufti og pensli. Það gefur skemmtilega dýpt í kökuna.  Lokahnykkurinn hjá mér á kökuna var að raða rósunum, rósarblöðunm og „kjólfaldinum“, í öfugri röð. Ég flatti út smávegis af sykurmassa, eins þunnt og ég treysti mér til, skar svo til í lengjur, braut saman annan endann og myndaði fínan fald, festi svo á neðstu tertuna með sykurmassalími. Ég byrjaði á einum enda og lagði svo hvert ofan á annað. Svo eru rósirnar festar með meira lími en best er að nota mjallhvítarkremið til að festa laufblöðin í kring. Ég dustaði einnig meira perludufti yfir þann hluta.

Læt hér fylgja með nokkrar myndir til viðbótar en það vantar alveg mynd af innihaldinu þar sem tvískiptingin sést vel en gesti gátu valið að fá kókostertu, súkkulaðitertu eða sittlítið af hvoru.“

Hér sést glæsileg brúðarterta Evu Rún Michelsen.
Hér sést glæsileg brúðarterta Evu Rún Michelsen.
Öðru megin var kakan eins og jakkaföt.
Öðru megin var kakan eins og jakkaföt.
En hinum megin eins og perluskreyttur brúðarkjóll.
En hinum megin eins og perluskreyttur brúðarkjóll.
Munstrið á kökunni heppnaðist vel og var sérlega fallegt.
Munstrið á kökunni heppnaðist vel og var sérlega fallegt.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert