Ljúffenga lambið

Píturnar gerast ekki mikið girnilegri.
Píturnar gerast ekki mikið girnilegri. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Að þessu sinni eldaði Óskar Finnsson HÉR á mbl.is íslenskt lambalæri á spánska vísu með sætkartöflum og hvítlaukssósu sem er auðvitað klassískur sunnudagsmatur. Nýta má það sem afgangs er af lambinu í nýja og spennandi rétti eftir helgina og enginn mun kvarta yfir afgöngum. 

Eins og sjá má í myndbandinu setur Óskar íslenska lambalærið í spænskan búning, enda þekkir hann vel spænska matargerð þar sem hann býr í Barcelona. Það fer lambinu sérlega vel og er tilvalin tilbreyting frá gamla góða lærinu „eins og mamma gerir það“. Hann kryddar með paprikudufti, hvítlauk, rósmaríni, sítrónusafa, hunangi, salti og svörtum pipar og verður lærið skemmtilega bragðsterkt. Með í skúffuna setur hann síðan sætar kartöflur skornar í litla teninga og beikon í bitum kryddað með timjan. Með þessu ber hann fram sína heimatilbúnu „original“ hvítlaukssósu sem hann þróaði fyrst á Argentínu fyrir tuttugu árum eða svo. En allt um það má finna á mbl.is. Hér skoðum við hvað má gera við ljúffenga lambið sem verður afgangs eftir helgarmatinn. Óskar kemur með tillögur að biximat, marokkóskum lambapottrétti og pítusamloku með lambi.
Girnileg píta.
Girnileg píta. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Marokkósk píta

Pítubrauð

sýrður rjómi

klettasalat

paprika

marokkóskur lambapottréttur (sjá uppskrift neðar á síðu)

Hitið pítubrauðið aðeins í ofni. Setjið fyrst salat, síðan pottréttinn, papriku-strimla og toppið með sýrðum rjóma.

Einnig er hægt að skera lambið í samlokubrauð eða pítubrauð og nota afgang af hvítlaukssósunni sem var með lambinu ásamt grænmeti sem til er í ísskáp.

Marokkóskur lambapottréttur

Afgangar af lærinu, skornir í bita

1 dós kókosmjólk

2 msk mango chutney

2 pokar hrísgrjón

2 nan-brauð

1 1/2 - 2 tsk Arabískar nætur frá Pottagöldrum.

(Kryddið Arabískar nætur hefur allt; kúmen, kardimommur, kóríander, negul, papriku og pipar og er alveg frábært á steiktan eða grillaðan kjúkling og lambalæri.) Setjið kjötbitana á pönnu, kryddið með Arabískum nóttum, blandið vel og steikið með kryddinu í 1 – 2 mín. Hellið kókosmjólkinni út á pönnuna og bætið svo við mangó chutney. Látið sjóða í 1 mínútu. Berið fram með hrísgrjónum og nan-brauði. Gott er að klippa ferskar kryddjurtir yfir, til dæmis steinselju eða kóríander.

Biximatur

Lamb, skorið í bita

kartöflur, soðnar, skornar í bita eða afganga af sætum kartöflum

1 laukur, skorinn gróft

Worcestershire og

Tabasco (val)

Grófskerið laukinn og léttsteikið á pönnu upp úr ólífuólíu en má ekki vera brúnn. Skerið lambið niður í ca eins cm bita og bætið út í sem og kartöflum í litlum bitum. Kryddið með 5-10 dropum af worcestershiresósu og fyrir þá sem vilja smá sterkt er gott að setja 3-4 dropa af Tabasco út í. Berið fram með 2 spældum eggjum, hvítlaukssósu og súrum gúrkum.

 Smelltu HÉR til að sjá fleiri þætti af Korter í kvöldmat

Óskar eldaði þetta lamb í síðustu viku.
Óskar eldaði þetta lamb í síðustu viku. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert