Ómótstæðilegar quesadillas á augnabliki

Það eru fjölmargir réttir sem má töfra fram úr hamborgarhrygg. Í síðasta þætti af Korter í kvöldmat eldaði Óskar Finnsson kokkur tvo girnilega rétti, annars vegar tartalettur með sveppum og sætum kartöflum, og hins vegar djúsí samloku fyrir fullorðna. Hér heldur hann áfram og gerir tvo rétti til viðbótar úr afgöngunum.

Quesadillas með nóg af osti

Fyrst kinkar Óskar kolli til Mexíkó með því að nota afgangana í quesadilla, fulla af osti og góðgæti. Takið afganginn sem ekki fór í tartaletturnar og hitið á pönnu. Bætið við 4–5 dropum af Tabasco. Setjið mexíkóska pönnuköku (tortilla) í kringlótt kökuform og þar næst eitt lag af osti ofan á. Setjið svo kjötafganginn ofan á það og annað lag af osti. Lokið með annarri pönnuköku. Bakið við 200 gráður í 10 mín., skerið í sneiðar og berið fram heitt.

Svínasamloka

Þessi svínasamloka er ekki bara matarmikil og sérlega bragðgóð, það er líka mjög fljótlegt að útbúa hana. Ristið heilhveitibrauð og smyrjið með piparrótarsósu eða sýrðum rjóma. Settu því næst lambhagasalat á brauðið. Hitið afganginn af tartalettunum með hamborgarhryggnum í örbylgjuofni og setjið á brauðið. Setjið góða slettu af piparrótarsósu eða sýrðum rjóma ofan á og að lokum er samlokunni lokað með ristuðu brauði. Samlokurnar gerast ekki safaríkari og einfaldari en þessi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert