Dásamleg naan-baka með mangókjúklingi

Uppskriftin er fljótleg og góð.
Uppskriftin er fljótleg og góð. Ljósmynd/Eldhúsperlur

Helena Gunnarsdóttir sem heldur úti matarblogginu Eldhúsperlur útbjó á dögunum þessa einföldu og góðu naan-böku með mangókjúklingi og spínati. Á síðunni segir hún uppskriftina fljótlega og tilvalda í helgarmatinn. Þá bendir hún á að einnig sé hægt að gera naan-brauðin sjálfur frá grunni.

Naan-baka með mangókjúklingi og spínati (fyrir 3–4)

  • Tvö stór naan-brauð (til dæmis Stonefire hvítlauks naan, fást t.d. í Hagkaup)
  • 2 msk. smjör
  • 700 gr úrbeinuð kjúklingalæri, krydduð með kjúklingakryddi og karrýi eftir smekk (ég mæli með Deluxe-karrýi frá Pottagöldrum)
  • 2 msk. ólífuolía,
  • 1 dl mangóchutney
  • 1 dl kjúklingasoð (vatn og kraftur, ég nota alltaf fljótandi Oscar-kraft)
  • 1 tsk. Sambal oelek chillimauk (má sleppa ef þið viljið alls ekki sterkt)
  • 2 góðar handfyllir ferskt spínat
  • 200 gr. rifinn ostur (1 poki, má líka nota meira)
  • Ofan á: 1 rauðlaukur skorinn í þunnar sneiðar, fersk steinselja eða kóríander og jógúrtsósa, ég notaði tilbúna jógúrtsósu frá Gott í kroppinn með hunangi og dijon.
Tilvalinn helgarmatur.
Tilvalinn helgarmatur. Ljósmynd/Eldhúsperlur

 

Aðferð

Hitið ofn í 180 gráður. Leggið naan-brauðið á ofnplötu. Skerið kjúklinginn í litla munnbita. Hitið pönnu með ólífuolíu, kryddið kjúklinginn vel með góðu kjúklingakryddi og karrý og steikið. Þegar kjúklingurinn hefur brúnast vel bætið þá mangóchutney og kjúklingasoði á pönnuna og látið malla þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn og sósan hefur þykknað aðeins, ca. 10 mínútur (það á ekki að vera mikil sósa). Smakkið til með salti og pipar og chilimaukinu.

Smyrjið naan-brauðin með smá smjöri og skiptið spínatinu jafnt á bæði brauðin. Hellið því næst kjúklingnum ofan á spínatið og toppið með vel af rifnum osti. Bakið í um 15 mínútur. Þegar þetta er komið úr ofninum leggið þá þunnar rauðlaukssneiðarnar yfir og skreytið með smá saxaðri steinselju eða ferskum kóríander og jógúrtsósu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert