Hrífandi haustsúpa með naan brauði

Yesmine segist stundum sleppa linsubaununum og setja lambakjötsbita í staðinn.
Yesmine segist stundum sleppa linsubaununum og setja lambakjötsbita í staðinn. Áslaug Snorradóttir

„Ég geri þessa súpu gjarnan á haustin þegar mig vantar yl í kroppinn. Súpan er líka tilvalin leið til að nota nýtt grænmeti úr haustuppskeru fjölskyldunnar. Þar að auki er engifer, túrmerik og hvítlaukur í súpunni sem er allra meina bót þegar haustlægðin gengur yfir landið. Mér finnst þetta besta útgáfan af súpunni en það má vel gera hana vegan með því að nota grænmetissoð og kókosrjóma í stað hefðbundins rjóma, “ segir Yesmine Olsson ástríðukokkur með meiru. Yesmine er mörgum kunn enda hefur hún gefið út fjölda matreiðslubóka og stýrt vinsælum matreiðsluþáttum. Í uppskriftum Yesmine blandast gjarnan uppruni hennar skemmtilega saman en Yesmine er fædd á Sri Lanka, alin upp í Svíþjóð en hefur verið búsett á Íslandi síðustu 18 árin. 

Hrífandi Haustsúpa fyrir 4

2 msk. ólífuolía
250 g grænar linsubaunir án vökva (u.þ.b. 400 g í dós)
3 stórir laukar, grófsaxaðir
3 stórar gulrætur, grófsaxaðar
5 hvítlauksrif, söxuð
2 sentímetrar engifer, fínsaxaðir
1 rauður chilipiparbelgur með fræjum, fínsaxaður
1 tsk. karrí
1 tsk. túrmerik
1⁄2 tsk. cayennepipar
1 tsk. cuminfræ
500 ml lambasoð
200 ml rjómi
safi úr hálfri sítrónu
1⁄2 tsk. malaður, svartur pipar
1 tsk. sjávarsalt
handfylli af fersku kóríander

Látið vökvann renna af baununum.
Mýkið laukinn í olíu á pönnunni.
Bætið við hvítlauk, chillí og kryddi og hrærið stanslaust í 1 mínútu. 
Því næst fer afgangurinn af grænmetinu og salt út á pönnuna.
Hrærið svo öllum kryddunum nema engiferinu saman við.
Bætið við baununum og lambasoðinu og látið suðuna koma upp.
Rjóminn og saxað engiferið fer saman við.
Þá skal lækka hitann og leyfa súpunni að malla þar til allt grænmetið er farið að mýkjast, u.þ.b. 25–30 mínútur.
Kreistið þá sítrónusafann út í, saltið og piprið eftir smekk og stráið að lokum söxuðu kóríander yfir og berið fram með nýbökuðu naanbrauði. 

 

Hvítlauks-naanbrauð

Hvítlauks-naanbrauðið er ómissandi með súpunni. Úr uppskriftinni verða 8-10 stykki, eftir stærð.

250 g hveiti
250 g fínt spelt
2 tsk. vínsteinslyftiduft
1 tsk. salt
2 msk. grískt jógúrt (má sleppa)
1 msk. kókosolía í fljótandi formi eða ólífuolía
1 1⁄2 dl vatn, eða eftir þörfum
3–4 hvítlauksrif, fínsaxaðir
búnt af fersku kóríander, gróftsaxað

Ofan á brauðið:
50 g brætt smjör eða 1/2 dl ólífuolía
1–2 kramin hvítlauksrif
1 rauður chilibelgur með fræjum klípa af sjávarsaltí

Fínsaxið hvítlaukinn og chilibelginn og blandið saman við smjörið/olíuna og saltið. Látið standa á meðan deigið er gert.

Blandið saman þurrefnunum, gerðið holu í miðjuna og bætið svo jógúrti, olíu, hvítlauk og kóríander saman við. Vatnið fer svo saman við smátt og smátt og meiru ef þarf. Blandið hráefnunum vel saman. Ef deigið verður of klístrað er meira hveiti bætt við til að fá réttu áferðina svo úr verði fínt mjúkt deig. Látið deigið bíða í skálinni í 10 mínútur. Setjið svo hveiti á hendurnar og fjarlægið deigið varlega úr skálinni. Nú á það að vera orðið mjög klístrað!
Deigið fer þá á hveitistráð borð eða bretti. Sláið það niður til að losna við allt loft, síðan er deigið hnoðað í nokkrar mínútur.  Skiptið deiginu í litlar kúlur og fletjið kúlurnar út í þykkar kringlóttar kökur.  

Hitið pönnu vel. Láttið brauðið steikjast án olíu u.þ.b. hálfa mínútu eða þar til þú sérð loftbólur í því.  Penslaðu svo varlega með hvítlaukssmjöri/olíu, snúðu brauðinu við og steiktu þar til þú færð fallegar doppur og mynstur á það. Taktu brauðið af pönnunni og settu viskustykki yfir svo brauðið haldist heitt á meðan þú steikir restina eða þar til að allt er tilbúið og þú getur borið brauðið það fram. Þegar allt deigið hefur bakast penslarðu brauðin með meira smjöri, stráir síðan sjávarsalti yfir og berð þau fram heit.

Ljósmynd: Áslaug Snorradóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert