Girnilegt graskerskarrí og nýbakað naan

Graskerskarrí og nýbakað naan-brauð er fullkominn haustréttur.
Graskerskarrí og nýbakað naan-brauð er fullkominn haustréttur. mbl

Bergrún Mist Jóhannesdóttir sálfræðinemi er mikill matgæðingur. Bergrún er grænmetisæta og finnst skemmtilegast að elda allskonar pottrétti, súpur og sushi eða sumarrúllur. Bergrún hefur leikni sína í eldhúsinu frá móður sinni sem er mjög flink í eldhúsinu. „Ég hef lært eitt og annað af henni í gegnum tíðina en svo hef ég líka prófað mig mikið áfram sjálf og lært þannig.

Ég finn oft uppskriftir, til dæmis frá Jamie Oliver eða af bloggsíðunni Minimalist Baker og þróa þær svo áfram eða breyti einhverjum innihaldsefnum og þá er maður kominn með allskonar útgáfur af svipuðum mat, til dæmis baunaréttum og súpum.

„Ekki örvænta þegar þið lesið yfir uppskriftina og hún virðist taka heila eilífð. Það er best að byrja á naan-brauðinu og halda áfram að elda restina meðan það fær að hefast. Gott er að bera þetta fram með kínóa, byggi eða hrísgrjónum og mango-chutney.“

Ófeigur Lýðsson

Graskerskarrí

Uppskriftin dugar fyrir 4

1/2 rauðlaukur

3 skarlottlaukar

2 stk. butternut squash

grasker

1-2 dósir kjúklingabaunir

1 dós niðursoðnir tómatar

1 dós kókosmjólk

1 msk. red curry paste

½ tsk. af kanil

1 tsk. af karrí

1 rauð paprika

1/2-1 rautt chili

2 þumlar engifer

Búnt af kóríander

Kókosflögur til skreytingar

Byrjið á því að saxa niður rauðlaukinn og skarlottlaukinn í smáa bita. Blandið 1 msk. af red curry paste og ólífuolíu saman við laukinn og steikið í stórum potti eða pönnu við miðlungs hita þar til laukurinn er orðinn brúnn og mjúkur. Skerið graskerið í smáa bita, veltið upp úr karrý og kanil og bætið við í pottinn. Látið lok á pottinn og steikið í nokkrar mínútur og hrærið nokkrum sinnum á milli. Bætið næst út í engifer, chili og papriku ásamt stilkunum af kóríandernum, allt smátt saxað. Næst eru tómatarnir settir út í ásamt kjúklingabaunum. Ef þið hafið tíma þá er sniðugt að afhýða kjúklingabaunirnar en það má sleppa því. (Afhýddar baunir fara betur í maga fyrir þá sem þola illa baunir.) Látið þetta malla í einhvern tíma þar til að graskerið er orðið nokkuð mjúkt og bætið þá kókosmjólkinni við. Því lengur sem rétturinn fær að malla því betra, en gefið honum a.m.k. 10 mínútur eftir að kókosmjólkinni er bætt við, hafið frekar lágan hita á hellunni allan tímann svo hann brenni ekki við. Það er æðislegt að bera réttinn fram með fersku kóríander og kókosflögum.

Naan-brauð

1 3/4 bollar hveiti

1 msk. ger

smá volgt vatn

3 msk. möndlumjólk

ólífuolía

1 tsk. sjávarsalt

dass af kryddi að eigin vali, ég nota blöndu af oreganó, timian, rósmarín o.fl.

sesamfræ til skreytingar

Hvítlauksolía

1 dl extra virgin ólífuolía

3-5 hvítlauksrif eftir smekk

½ tsk. af sjávarsalti

1 tsk. krydd eins og oreganó eða pítsukrydd

Byrjið á að leysa gerið upp í volgu vatni og látið standa í 10 mínútur eða þar til það verður örlítið froðukennt. Bætið þá restinni af innihaldsefnum út í fyrir utan olíuna. Hrærið saman og bætið meira hveiti við ef blandan er of blaut. Stráið smá hveiti á borð og hnoðið deigið í nokkrar mínútur. Látið deigið í skál sem hefur verið smurð með slatta af olíu og leyfið því að hefast í klst., mér finnst virka best að láta skálina á ofn og hafa rakt viskastykki ofan á henni. Takið deigið úr skálinni eftir klukkutíma og skiptið í 8 bita, rúllið þeim upp í kúlur, látið á bökunarplötu og leyfið að hefast í 30 mínútur í viðbót. Fletjið kúlurnar út í þunn brauð og steikið á nokkuð háum hita upp úr olíu í 1-2 mínútur á hverri hlið. Smyrjið brauðin með hvítlauksolíu eftir að þau hafa verið steikt svo hvítlaukurinn brenni ekki.

Jógúrtsósa

1 bolli hreint vegan-jógúrt

(ég nota frá Alpro)

1/3 gúrka söxuð

1-2 tómatar fræhreinsaðir

og saxaðir

1 msk. sítrónusafi

búnt af rifnu kóríander

2 pressuð hvítlauksrif

paprikukrydd eftir smekk

cumin eftir smekk

Öllu blandað saman í skál og voila! Gott að geyma við stofuhita því jógúrtið á það til að þykkna þegar þessu hefur öllu verið blandað saman

Bergrún Mist er matgæðingur af guðs náð.
Bergrún Mist er matgæðingur af guðs náð.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert