Ítalskt humarpasta á 30 mínútum

Fljótlegt og ferskt pasta þar sem hráefnin fá að njóta …
Fljótlegt og ferskt pasta þar sem hráefnin fá að njóta sín. Eggert Jóhannesson

Katrín Amni Friðriksdóttir, eigandi Kamni ehf., er jógaunnandi sem elskar mat og viðurkennir fúslega að klúður í eldhúsinu sé órjúfanlegur hluti af því að elska matargerð. Katrín stendur í ströngu þessa dagana við að undirbúa stórsýninguna Heilsa og lífsstíll 2016 sem er haldin dagana 29. og 30. október í Hörpu. Hún miklar þó ekki fyrir sér að elda kvöldmat og hefur ferskt hráefni að leiðarljósi því það kalli jafnan á einfaldari og fljótlegri matargerð.

Hvert er uppáhaldseldhústækið þitt?
Blandarinn minn - hann er notaður daglega í ýmsa þeytinga. 

Hvað er það versta sem þú hefur bragðað?
Þetta gamla íslenska súra/kæsta, það er bara alls ekki fyrir mig. 

Hver eldar á heimilinu?
Jafnt ég sem og hinn helmingurinn. Kannski bara sá sem er fyrr heim á daginn. Þannig að ég passa mig að koma bara mjög seint heim úr vinnu. 

Hefur þú einhvern tímann klúðrað matnum á ögurstundu?
Oft og mörgum sinnum. Ég er klúðrari af guðs náð!                                                                               

Hver er fáránlegasti kúr eða mataræði sem þú hefur prófað og hvernig fór?

Þetta er erfið spurning, þar sem ég er voða lítið fyrir kúra, átök og aðrar öfgar, einfaldlega vegna þess að ef eitthvað er bannað bara panikka ég og geng berserksgang. En ég skal stæra mig frekar af sykurlausa tímabilinu mínu sem ég tók í fyrra í sjö mánuði og ég hef aldrei verið jafn fersk, hress, glöð, grönn og geggjuð. 

Hvað ætlar þú að elda fyrir okkur?
Ég ætla að elda gómsætan, einfaldan og fljótlegan pastarétt. Einu sinni stóð ég fast á því að ég borðaði ekki pasta en eftir að hafa búið á Ítalíu fyrir nokkrum árum komst ég að því að lífið er ekki eins án þess að borða gott pasta endrum og eins.

Uppskrift fyrir 2-3 

Ferskt pasta – helst tagliatelle (má nota þurrt auðvitað).

Klettasalat

Sítrónu-ólífuolía (fæst t.d. í Hagkaup)

Fersk basilika - söxuð

Þurrkuð basilika

1 askja piccolo-tómatar eða aðrir litlir sætir tómatar

Gott gróft salt

Extra virgin ólífuolía

1 hvítlauksrif

Humar (upp á hátíðleikann, ef þú ert í mánudagsskapi þá má sleppa honum).

Aðferð:

Hitið ofninn í 180 gráður.

Klettasalatið fer í skál, dreypið sítrónu-ólífuolíunni yfir og smá sjávarsalt. Setjið til hliðar.

Skerið tómatana í tvennt og leggið á álpappír.

Hellið smá ólífuolíu yfir, þurrkaðri basilíku og sjávarsalti. Bakið tómatana inn í ofni í 15-20 mínútur.

Ef nota á humar er hann smjörsteiktur með pressuðu hvítlauksrifi. Þegar humarinn er steiktur er smjörið og hvitlaukurinn skilinn eftir á pönnunni.

Pastað er svo soðið með smá salti – al dente. Fylgjið leiðbeiningunum á pakkanum og varist að ofsjóða pastað. Þegar pastað er soðið fer það yfir á pönnuna og því leyft að blandast við smjörið og hvítlaukinn. 

Skammtið á djúpa diska í þessari röð:

Pasta

Humar (ef notaður)

Klettasalat

Bakaðir tómatar

Söxuð fersk basilika

Skvetta af fallegri extra virgin ólífuolíu (algjört æði)

Örlítið gróft salt

Svo er það bara að njóta. Gott hvítvín í glasi myndi alls ekki skemma þessa máltíð.

Katrín Amni bjó á Ítalíu um tíma og getur ekki …
Katrín Amni bjó á Ítalíu um tíma og getur ekki hugsað sér lífið án þess að fá gott pasta við og við. Eggert Jóhannesson
Einfalt og ferskt hráefni gefur oft bestu niðurstöðuna á sem …
Einfalt og ferskt hráefni gefur oft bestu niðurstöðuna á sem skemmstum tíma. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert