Villtur vinstri, miðjumaðurinn og hægribomban

Matarvefnum fannst nauðsynlegt að leita uppi góðar hugmyndir að kosningarkokteilum fyrir helgina en það er nokkuð ljóst að það verða kosningarpartý víða um borg og bý. Ónefndur stjórnmálafræðingur með mikla reynslu af kokteil samsetningum setti saman fyrir okkur hugmyndir að skotheldum drykkjum fyrir helgina. Alla drykkina má vel gera óáfenga með því að sleppa áfenginu og setja meira af óáfenga blandinu. Athugið þó að þar sem þetta er kosningakokteill er ekki víst að öll loforð um ágæti drykkjanna muni standast.

Hægribomban

Einfaldur og góður drykkur með léttum miðjarðahafsblæ, límónukeim og góðu sterku eftirbragði. Drykkurinn hentar vel fólki með ákveðnar skoðanir, ástríðu fyrir bláum flöskum og þeim sem eru markaðslega þenkjandi.

3cl gin. T.d Bombay eða annað gin í blárri flösku.
Límónu sneið
Fever-Tree Mediterranean Tonic
Fyllt upp í glasið með klaka – enda er þessi svellkaldur 

Miðjumaðurinn

Þessi rífur í. Engiferölið kemur með sætaleika á móti viskíinu. Miðjudrykkurinn vill gera sem flestum til geðs en hefur þó mjög sterkar skoðanir. Það fíla kannski ekki allir viskí – en engiferölið reynir að sætta málin. Jöfnuður er sterkur í drykknum sem leitast við að sætta ólík innihaldsefni.

3cl Jack Daniels
Límónu bátur
Fyllt upp með engiferöl
Klaki

Villtur vinstri

Vinstridrykkurinn er nátengd náttúrunni. Eldmóðurinn er í chillípiparnum, sætleikinn og sátt í myntunni og límónan kemur með ferskan keim. Í drykknum er einnig að finna samfélagslega ábyrgð og skilningur á náttúrunni en leitast er við að nota íslenska villta myntu.

3cl Bacardi Razz eða annað romm með berjakeim
2tsk lífrænn hrásykur
1/2 rauður chillípipar, fræhreinsaður, skorin í bita
2 Límónubátar
4-6 myntublöð, fer eftir stærðum.

Merjið sykurinn, áfengið, chillípiparinn og myntuna saman. Fyllið upp með sódavatni eða sprite.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert