Beikon Bloody Mary í Boston

Stephanie's on Newbury er vinsæll veitingastaður við verslunargötuna Newbury Street í Boston. Staðurinn er þekktur fyrir góðan dögurð og drykki. Sjálfri finnst mér morgunmaturinn þarna fínn en myndi seint lýsa honum sem stórkostlegum. Drykkjarseðilinn er hinsvegar ansi framandi en um helgar er boðið upp á sturlaðan Bloody Mary-seðil sem er mjög vinsæll meðal heimamanna.

Fyrir þá sem ekki þekkja Bloody Mary er það kokteill sem er einkar vinsæll í dögurð eða ef skemmtanahald kvöldsins áður hefur tekið sinn toll. Drykkurinn er í raun máltíð í glasi en ég hef líka heyrt fólk lýsa honum sem „áfengri pitsu í glasi“. Uppistaða drykksins er tómatsafi, vodka og krydduð sósa í ætt við tabasco. 

Á Stephanie's er hugmyndin tekin alla leið en veitingastaðurinn er með sína eigin Bloody Mary- safablöndu. Gestir fá blað þar sem þeir merkja við hvaða „snakk“ viðkomandi vill fá með drykknum en það er borið fram ofan á glasinu svo í raun er þetta smáréttur um leið. 

Hægt er að bæta við áfengi, ostafylltum olífum, ostapinna með salami, grænmeti og beikoni sem dæmi. En varið ykkur - drykkurinn er ansi sterkur! Það er kannski ágætt því þjónustan þarna er ekkert sérstök. Ég mæli hinsvegar sérstaklega með Apperol Spritz á staðnum, þar sem notast er við kampavín en ekki freyðivín, og ætiþistlaídýfunni þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert