Tjúlluð tómatsúpa

Tómatsúpa Lindu er ódýr, holl og bragðgóð.
Tómatsúpa Lindu er ódýr, holl og bragðgóð. eatrvk.com
Linda Björk Ingimarsdóttir bloggari á eatrvk.com slær enn á ný í gegn með stórkostlegri tómatsúpu en síðasta súpa sem hún deildi með okkur var með afburðum vinsæl. Þessa súpu er tilvalið að gera og frysta í litlum boxum eða eiga í ísskápnum í nokkra daga til að flýta fyrir sér út vikuna.
„Það sem gerir þessa súpu sérstaklega góða er að grænmetið er ofnbakað áður en það er sett í súpuna og við það verður bragðið af grænmetinu sértaklega gott. Með þessari súpu hef ég brauðið góða. Þar sem mánudagar er oft kallaðir kjötlausir dagar þá ætla ég að reyna setja inn hollar og góðar grænmetis- og/eða vegan-uppskrifitir á mánudögum næstu vikur, sérstaklega í desember þar sem jólaboð og hlaðborð tröllríða öllu og maginn oft kominn í ólag á sjálfum jólunum.“

1 hvítlaukur
1 búnt basil, um einn bolli
2 rauðlaukar, skornir í bita
2 tsk hrásykur
1 kg tómatar, skornir í báta
200 ml grænmetissoð
1/3 bolli kókosmjólk, meira ef þið viljið
1/2-1 tsk reykt paprikuduft
Klípa af cayennepipar
Ólífuolía
Salt og pipar eftir smekk

Leiðbeiningar

Hitið ofninn í 200 gráður.
Takið hýðið af hvítlauknum, skerið rauðlaukinn í bita, skerið tómata í báta, takið basil laufin frá en saxið basilstilkana og bætið þeim saman við í eldfast mót.
Stráið salti og pipar yfir ásamt hrásykrinum og ólífuolíunni.
Setjið mótið í ofninn og látið malla í um 20-30 mínútur eða þar til tómatar eru orðnir vel mjúkir.
Setjið grænmetið í pott og notið töfrasproti til að mauka vel saman.
Bætið soðinu og paprikuduftinu saman við og látið malla í um 5 mínútur.
Bætið kókosmjólkinni saman við og hrærið vel í.
Bætið við salti og pipar eftir smekk.
Saxið basilblöðin og bætið helmingnum saman við og setjið rest í skál til að bera fram með súpunni.

Maðurinn minn setur alltaf harðsoðið egg í sínar tómatsúpur sem er dásamlega gott en ekki nauðsyn. Berið fram með kókosmjólk, basil og góðu brauði.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert