Jólakokteill Siggu

Sigga Eyrún heldur jólatónleika 17. des í Þjóðleikhúskjallaranum. Skál fyrir …
Sigga Eyrún heldur jólatónleika 17. des í Þjóðleikhúskjallaranum. Skál fyrir því! Árni Sæberg
Sigríður Eyrún Friðriksdóttir söngkona er unnandi jólalegra kósýstunda. Hún ætlar einmitt að fanga þá stemmningu á jólatónleikum sem hún verður með 17. desember í Þjóðleikhúskjallaranum. Sigga hristir hér í frískandi jólakokteil sem tilvalið er að bjóða upp á í jólahittingi í vinahópnum. Til dæmis ef hittast á í drykk fyrir góða jólatónleika! 
Hvað er „kósý“ í matarlegum skilningi fyrir þér?
Kósý er matur sem er heimagerður. Og þeir sem maður elskar mest eru með manni þegar maður borðar matinn. Það er verulega kósý og gott fyrir hjartað. 
Hvaða matur er „jólin“ fyrir þér?
Maturinn sem er „jólin“ fyrir mér var einu sinni alltaf hamborgarhryggur, ég á mjög vanafasta bræður sem hefðu gengið út ef eitthvað annað hefði verið á boðstólum hjá foreldrum mínum. Hins vegar hef ég upplifað jólin í öðrum löndum og heimilum á fullorðinsárunum og hef komist að þeirri niðurstöðu að það er meira meðlætið eða desertinn en aðalrétturinn. Það þarf að vera waldorffsalat og einhver geggjuð brún sósa og það verður eiginlega að vera ís og súkkulaði í desert.  Það er ekki erfitt að þóknast mér við matarborðið.
Syngur þú við eldamennskuna?
Já ég syng við flestar athafnir. Mér finnst ómissandi að hafa útvarp í eldhúsinu og stundum nýti ég tímann á meðan ég elda í að læra texta eða máta ný lög. 
Hvað er fram undan hjá þér ?
Fram undan er að klára sýningar á Improv Ísland sem er á leið í jólafrí (komum aftur í janúar) en ég fer ekki úr Þjóðleikhúskjallaranum því ég verð með afskaplega kósý jólatónleika þar þann 17.desember. Fram að því er ég að syngja og skemmta á jólahlaðborðum út um allan bæ og kenna. 
Er ekki tilvalið að bjóða upp á frískandi kokteil í …
Er ekki tilvalið að bjóða upp á frískandi kokteil í næsta jólaboði?
Ég fann uppskrift af "Candy Cane Martini" þegar ég var að leita að einhverjum jólalegum drykk fyrir vinahópinn minn sem ég er búin að bjóða heim í fordrykk fyrir jólahlaðborðshitting. Fyrst var ég pínu hrædd um að hann bragðaðist eins og tannkrem þar sem það er hátt hlutfall af piparmyntusnafs í uppskriftinni en vanilluvodkinn vegur upp á móti því og ég myndi segja að þetta sé fínasti frískandi kokteill fyrir jólapartýin. 
Í uppskriftinni eru:
Einfaldur (30 ml) vanilla vodka
Einfaldur (30 ml) hvítt Créme de Cacao-líkjör
Rúmlega hálfur (15 ml) piparmyntusnafs
Bismarck-brjóstsykur til skreytingar.
Ég hristi saman vodkann, líkjörinn og snafsinn við klaka í hristara.
Þá muldi ég Bismarck-brjóstsykur í matvinnsluvél og setti á disk. 
Ég notaði smá líkjör (af því það er svo sykrað og festist vel við) á glasbrúnina og hvolfdi svo glasinu á diskinn með brjóstsykursmylsnunni.
Að lokum hellti ég svo úr hristaranum í glasið.
„Að lokum vil ég bara segja: Njótið hátíðarinnar og notum hana til að staldra við og njóta þess að vera með þeim sem við elskum. Ekki til að tapa okkur í stressi. Jólin koma alltaf samt.“
Sigga Eyrún histir jólin í gang!
Sigga Eyrún histir jólin í gang! Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert