Matarmikil súpa og morð

Vígaleg heldur Lilja af stað inn í jólabókaslaginn.
Vígaleg heldur Lilja af stað inn í jólabókaslaginn. Eggert Jóhannesson

Í nýjustu bók Lilju Sigurðardóttur, Netinu, örlar á gömlum töktum frá fyrstu bókum hennar því aftarlega í sögunni,  nánar tiltekið í kafla 98, er mataruppskrift.

„Fyrstu bækurnar mínar voru fullar af lýsingum á mat og eldamennsku en í Gildrunni átti það einhvern veginn ekki við, þar sem hvorki persónurnar né sagan kröfðust þess. Fyrr en núna,“ segir Lilja sem sjálf er mikil matarunnandi.

Netið, er beint framhald af Gildrunni sem vakti verðskuldaða athygli í fyrra. Söguhetja bókanna, kókaínsmyglarinn Sonja á í ástarsambandi við aðra konu en sú er flækt í vafasöm mál í tengslum við bankahrunið. Í kafla 98 er Sonja eftir sig eftir fremur harkalega útreið glæpamannanna sem eru á hælum hennar og lurkum lamin stendur hún við eldavélina og lagar sér súpu. Eins og maður gerir!

Nýja eldhúsið hennar Lilju er einstaklega bjart og fagurt. Þar …
Nýja eldhúsið hennar Lilju er einstaklega bjart og fagurt. Þar kvikna án efa margar glæpsamlegar hugmyndir. Eggert Jóhannesson

„Þessi kafli er svona umhugsunarkafli. Róleg stund milli stríða þar sem persónan reynir að ná áttum og taka ákvörðun um mál sem hún hefur átt erfitt með en það tengist morði. Það eru vandræði að láta persónur hugsa heilan kafla í gegn svo að þá þarf að láta þær gera eitthvað á meðan. Setja einhverja hreyfingu í gang sem leiðir hugsunina. Og í þessu tilviki var það súpa. Hálfgerð naglasúpa, nánar tiltekið sem endurspeglar þau fáu úrræði sem Sonja hefur í vandræðum sínum.“

Það eru alltaf einhver notalegheit yfir mat í bókum Lilju er það vegna þess að hún er sjálf mikil matarmanneskja?

„Algjörlega! Ég elska mat og matargerð og auðvitað hlýtur það að speglast í textanum. En það er einhvern veginn þannig að eiginlega allir tengja einhverjar tilfinningar við ilm og bragð svo að með því að setja mat inn í sögu þá kveikir það einhverjar tengingar við þær tilfinningar. Og flestir upplifa það jákvætt.“

       „Þetta augnablik, ilmandi matarpottur og muldrið í drengnum hennar innan úr stofu þar sem hann lék sér glaður, var lífið eins og hún vildi hafa það. Ef ekki væri hættan sem endalaust vofði yfir þeim.“ (Netið, bls. 300)

Netið tilheyrir undirflokki glæpabókmenntanna sem kallast þrillerar eða svokallaðar spennusögur. Er eldamennskan líka alltaf svona spennandi hjá þér?

„Aldeilis ekki! Þó mér finnist gaman að leggja mikið í matinn þá er nú fremur einfaldur matur á borðum hjá mer flesta daga. Og stjórnast oft af tíma og ísskápsinnihaldi. Svona eins og naglasúpan hjá Sonju,“ segir Lilja sem þó unir sér einstaklega vel í eldhúsinu þessa dagana en Lilja og Magga Pála eiginkona hennar fluttu nýverið í dásamlegt hús við Elliðavatn þar sem andinn kemur svo sannarlega yfir rithöfundinn.

Naglasúpa Sonju

(f. 2-4, fer eftir því hvort sett er mikið vatn og grænmeti osfv. )

2 msk kókos- eða ólífuolía
1 laukur
2-3 hvítlauksrif
þumalfingurlangur bútur af engifer
2 tsk karrý (meira ef vill)
1 tsk laukfræ (fást t.d. í asískum matarbúðum)
1-2 bollar vatn
1 dós kókosmjólk
1-2 súputeningar (grænmetis eða kjúklinga)
gulrætur, papríka, blómkál, brokkolí eða hvað annað grænmeti sem til er í ísskápnum.
Prótín að eigin vali. t.d. fiskur, rækjur, kjúklingur eða egg.

Steikið laukinn í olíunni á vægum hita í potti þar til hann er orðinn glær, saxið hvítlauk og engifer smátt og bætið útí og hrærið.
Kryddið með karrýi og laukfræjum (og fleira kryddi ef vill) Ef þið eruð með hráan kjúkling er fínt að setja hann nú útí og steikja upp úr kryddinu.
Bætið vatni og kókosmjólk við ásamt súputeningnum og grænmetinu og sjóðið þar til grænmetið er mjúkt. (Ef hrár kjúklingur þá passið að sjóða hann í gegn). Bætið rækjum, fiski eða afgöngum af köldu kjöti útí og svo má í lokin brjóta egg út í súpuna ef fólk vill og láta það sjóða rólega útí.

Svona súpa hitar mann upp innanfrá!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert