Hátíðarborð Elvu

Svart, silfur og hvítt er ríkjandi hjá Elvu.
Svart, silfur og hvítt er ríkjandi hjá Elvu. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Elva Hrund Ágústsdóttir blaðamaður og stílisti hjá Húsum og híbýlum skreytir hátíðarborð Epal í þessari viku. Svart, hvítt og silfur er áberandi og því henta skreytingarnar einkavel t.d. fyrir áramóta- eða nýársboð. 

Hvaðan fékkstu innblástur að borðinu?

Þar sem ég hef verið að hugsa og skrifa um jólin síðan í október þá er hugur minn farinn að leita til áramótanna. Þetta gerist hjá blaðamönnum sem eru tveimur mánuðum á undan öðrum í undirbúningi jólanna. Ég var því innstillt á að gera eitthvað nýtt og hefði helst vilja leggja á borð undir frostlögðum himni sem er kannski ógerlegt þar sem við erum ekki með frost þessa dagana og borðið er staðsett inn í húsgagnaverslun. En það má alltaf láta sig dreyma. Ég valdi því að líta til  áramótanna og þá hugsa ég um glimmer og góss á borðið, enda alltaf gott partí ef þetta tvennt er á boðstólum.

Kertastjakar: Hafdís Brands.
Kertastjakar: Hafdís Brands. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Skreytir þú borðið eins á milli ára?

Nei, það geri ég ekki. Grunnurinn er kannski alltaf sá sami, með frávikum, en puntið breytist ár hvert. Stundum er það tengt tíðarandanum og það er mismikið skraut á milli ára. Á aðfangadag er til dæmis góð hefð að setja eitt nýtt jólaskraut á diskinn hjá hverjum og einum sem viðkomandi gætu síðan hengt á jólatréð – nema það séu 20 manns í mat, þá tekur ekki mörg ár að fylla tréð af skrauti. Annars snýst þetta um að nota hugmyndaflugið, horfa í kringum sig og nota líka það sem er til. Allt í bland – allt í boði!

Hnífapör: Georg Jensen.
Hnífapör: Georg Jensen. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Hvernig matarstell finnst þér fallegust?
Ég hrífst alltaf að einfaldleikanum í öllu. Einfaldleikinn er grunnurinn í svo mörgu. En að sama skapi get ég brotið upp stemninguna með ólíkum fylgihlutum, hvort sem það eru skálar með ýmiss konar áferð eða litlir hliðardiskar. Þegar grófir hlutir mæta einföldum línum, þá gerist eitthvað spennandi.

Grein og skraut: Einkaeign.
Grein og skraut: Einkaeign. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Þín bestu kaup í borðbúnaði?
Ég gæti nefnt svo margt. Arte-hnífapörin frá WMF, hönnuð af Makio Hasuike eru ómissandi á „spariborðið“ og mér finnst nauðsynlegt að skipta yfir í steikarhnífapör með góðri steik. Spariglösin eru kannski ekki svo mikið spari, því þau eru notuð við hvert tilefni enda eru allir dagar tilefni til að fagna og skála – er það ekki? En þetta vinnur allt saman, diskar, glös, áhöld og bakkar, og ég get í sannleika sagt orðið óróleg ef mér finnst eitthvað ekki alveg passa inn í „heildarpakkann“ á borðinu. Því þegar kemur að því að dekka borð þá er ég eins og lítill krakki að bíða eftir jólunum, á erfitt með að halda aftur að mér og hlakka til að setjast við borð, sem búið er að leggja fallega á og skreyta, með mínum uppáhalds.

En þau verstu?
Það eru án efa bláu glerdiskarnir sem ég keypti áður en ég byrjaði að búa og glös í stíl. Hjálp, hvað þetta var ekki smekklega valið og hálfvandræðalegt að segja frá því líka.

Ef þú ættir að velja þér einn hlut til að kaupa á hátíðarborðið, hvað væri það?
Það væri fallegur stjaki því það er „möst“ að hafa annaðhvort kerti eða seríu á borði, nú eða dásemdar skreytingu í fallegum vasa.

Hvernig mætti skreyta fallegt borð án þess að eyða of miklum peningum?
Sækja greinar og köngla út í skóg, og drífa alla fjölskylduna með í ævintýraför.

Sildurlitar lakkrískúlur eru gómsætt skraut.
Sildurlitar lakkrískúlur eru gómsætt skraut. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Sítrónupressan: Alessi.
Sítrónupressan: Alessi. Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Elva Hrund Ágústsdóttir blaðamaður og stílisti hjá Húsum og híbýlum.
Elva Hrund Ágústsdóttir blaðamaður og stílisti hjá Húsum og híbýlum. Aldís Páls
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert