Nýtt íslenskt ostasnakk gerir allt vitlaust

Lava Cheese er ostasnakk gert úr bræddum osti og ætlað …
Lava Cheese er ostasnakk gert úr bræddum osti og ætlað að líkja eftir ostinum sem bráðnar undan grilluðum samlokum og storknar rétt fyrir utan.
Vinirnir Guðmundur Páll Líndal og Jósep Birgir Þórhallsson kynntu um helgina nýtt íslenskt snakk úr bráðnuðum osti. „Hugmyndin kviknaði svo sem ekki á einum stað eða einum tíma. Ég og Jósep erum einfaldlega alltaf að prófa eitthvað nýtt hvort sem það er matargerð eða á öðrum sviðum. Á einhverjum tímapunkti fór sú pæling að gerjast hjá okkur að langbesti osturinn sé osturinn sem bráðnar undan grilluðum samlokum og storknar rétt fyrir utan,“ segir Guðmundur sem er menntaður lögfræðingur en Jósep verkfræðingur. Snakkið góða hefur verið til reynslusölu í Búrinu og Ostabúðinni en var formleg kynnt á matarmarkaði Búrsins sem nú stendur yfir í Hörpu.
Guðmundur Páll Líndal og Jósep Birgir Þórhallsson eru bestu vinir …
Guðmundur Páll Líndal og Jósep Birgir Þórhallsson eru bestu vinir frá því úr menntaskóla.
„Við fórum að prófa okkur áfram með snakk sem myndi fanga þetta sérstaka bragð og enduðum með uppskrift sem virkaði nokkuð vel á fólk. Eftir að hafa talað við nokkuð af fólki hittum við hana Eirnýju hjá Búrinu sem hefur reynst okkur virkilega vel og bauð okkur að koma á matarmarkaðinn sem stendur núna yfir í Hörpunni. Eftir það fóru hjólin svolítið að snúast og við þurftum að gera margt á litlum tíma sem hefur gengið furðu vel upp,“ segja ostaunnendurnir en Lava Cheese er íslenskur cheddar-ostur sem er þurrkaður, bakaður og kryddaður þannig að úr verður skífulaga snakk.
„Fyrsta línan okkar er með chilibragði og rífur ágætlega í ef þú hittir vel á, en ef vel gengur munum við koma með aðrar línur sem við höfum verið að prófa okkur áfram með. Við höfum verið að prófa fleiri tegundir, krydd og aðferðir þegar við höfum lausan tíma og sumt sem lofar góðu. Við viljum þó taka eitt skref í einu og ekki fara fram úr okkur, enda eigum við margt eftir ólært á þessum markaði.“
Lava Cheese er íslenskur cheddar-ostur sem er þurrkaður, bakaður og …
Lava Cheese er íslenskur cheddar-ostur sem er þurrkaður, bakaður og kryddaður þannig að úr verður skífulaga snakk.
Löng röð myndaðist við básinn hjá vinunum í gær á matarmarkaðnum í Hörpu. „Viðtökurnar voru dæmalaust góðar. Það er svolítið yfirþyrmandi þar sem undirbúningurinn fyrir þessa helgi hefur verið mjög langur og strangur og fyrirséð að okkar bíður mikil vinna við áframhaldandi þróun og sölu á vörunni. Sem betur fer hefur fagfólk í matvælaiðnaðinum á borð við Óla Þór hjá Matís og Eirnýju hjá Búrinu verið virkilega duglegt við að beina okkur í réttar áttir,“ segir Guðmundur en þeir félagar munu taka brosandi á móti fólki til kl. 17 í Hörpu í dag og bjóða því að smakka snakkið – sem er ansi gott!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert