Þrífðu ísskápinn í 5 þrepum

Að þrífa ísskápinn er nauðsynlegur partur að því að halda …
Að þrífa ísskápinn er nauðsynlegur partur að því að halda heimili. Sé það gert vel endast þrifin betur. www.cleanipedia.com

Að þrífa ísskápinn er nauðsynlegt en hefur takmarkað skemmtanagildi. Reynst hefur vel að gera það í fimm þrepum til að þrífa hann markvisst og á sem skemmstum tíma en viðurkennast verður að það eru engar töfralausnir í þessu leiðigjarna verkefni. Hreinn ísskápur kætir þó vissulega hjarta snyrtipinnans og gerir allt mun girnilegra. Subbulegur ísskápur getur hæglega sundrað samböndum ... eða komið í veg fyrir að draumaprinsinn eða prinsessan svari næsta stefnumótaboði! Gamalt húsráð við að velja sér maka sagði einmitt, kíktu inn í ísskáp og sjáðu sálina! Er þá átt við að það geti allir komið vel fyrir út á við en ísskápurinn segi til um hvort fólk sé skipulagt, snyrtilegt og hugsi vel um heilsuna. Myglaður ísskápur með harðri skinku, kóki og útrunninni g-mjólk er til dæmis ekki heillandi (byggt á sönnum atburðum).

Um leið og ísskápurinn er þrifinn er gott að renna yfir skipulagið í ísskápnum og athuga hvort eitthvað megi ekki betur fara. 

1 - Takið allar vörur út úr ísskápnum og lesið utan á þær. Hendið því sem er útrunnið! 

2 - Fjarlægðu allar hillur og skúffur. Setjið það sem kemst í uppþvottavélina. Stærstu hlutina má setja í baðið eða sturtuna, spreyja með sótthreinsandi efni og skrúbba svo með uppþvottabursta og þurrka.

3 - Spreyið ísskápinn að innan með hreinsiefni sem inniheldur fituuppleysandi efni. Það má vel nota vatnsblandaðan uppþvottalög. 

4 - Gott er að nota matarsóda á erfiða bletti svo sem dökkar rákir. Varist þó að nota matarsóda á fleti með háum glans því hann virkar eins og sandpappír sé mikið nuddað með honum. Einnig má skilja matarsódann eftir á erfiðum blettum í klukkustund til að minnka nuddið.

5 - Þurrkið ísskápinn að innan með hreinni tusku og setjið allar skúffur og hillur á sinn stað. Gott er að setja hálfa sítrónu í miðjan ísskápinn og leyfa henni að dúlla sér þar í sólahring til að fá ferskan ilm. Sé föst sterk lykt í ísskápnum getur verið áhrifaríkara að setja kaffiduft eða matarsóda í opið ílát en það dregur í sig lykt. Sama gildir um opinn lauk – en fæstum finnst lauklykt góð svo laukurinn er örþrifaráð! 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert