Vegan brauðterta – gullfalleg og góð

Falleg og fersk brauðterta.
Falleg og fersk brauðterta. veganistur.is

Systurnar Helga María og Júlía Sif Ragnarsdætur betur þekktar sem Veganistur hafa klárlega toppað sig með þessari gullfallegu og gómsætur brauðtertu. Klassík í veganbúningi.

„Brauðtertur voru virkilega vinsælar hér áður fyrr. Varla kom það fyrir að maður færi í veislu þar sem ekki voru bornar á borð fallega skreyttar brauðtertur. Svo virðist sem þær séu að detta úr tísku og persónulega datt okkur aldrei í hug að reyna að „veganæsa“ slíka uppskrift. Fyrir ári fórum við svo að taka eftir ákveðnu „trendi“ í sænskum Facebook-hóp þar sem liðsmenn hópsins kepptust við að útbúa fallegustu vegan-brauðtertuna, eða „smörgåstårta“ eins og hún er kölluð á sænsku. Þar sem okkur þykir skemmtilegt að sýna ykkur hversu auðvelt er að útbúa vegan-útgáfur af því sem manni þykir gott að borða ákváðum við að útbúa vegan-brauðtertu og getum sagt ykkur að hún kom okkur virkilega mikið á óvart.“

Tófúið er rifið niður í salat.
Tófúið er rifið niður í salat. veganistur.is

„Við ákváðum að hafa tvær týpur af fyllingu. Annars vegar tófú „eggjasalat“ og hins vegar „skinkusalat“ með reyktri vegan-skinku. Bæði salötin smakkast virkilega vel og skinkusalatið munum við hiklaust gera við fleiri tilefni.

Það er einfalt að gera brauðtertu og við erum hissa á því að hafa ekki dottið það í hug fyrr. Hver og einn getur að sjálfsögðu gert þá fyllingu sem hann langar en við erum mjög ánægðar með þessi salöt. Reykta vegan-skinkan sem við notuðum gefur brauðtertunni skemmtilega jólalegt bragð.“

Við ákváðum að hafa tvær týpur af fyllingu. Annars vegar …
Við ákváðum að hafa tvær týpur af fyllingu. Annars vegar tófú „eggjasalat“ og hins vegar „skinkusalat“ með reyktri vegan skinku. veganistur.is

„Það er gaman að heyra hversu margir eru farnir að gera uppskriftirnar okkar. Við höfum fengið sendar myndir þar sem fólk hefur bakað súkkulaðikökuna okkar eða gert aspasbrauðið fyrir ættingja og vini sem eru vegan. Fyrir nokkrum árum þótti fólki yfirleitt mjög stressandi að fá vegan-manneskju í matarboð eða veislu því flestir vissu ekkert hvað þeir gætu boðið þeim upp á. Nú er þetta loksins að breytast og fólk farið að sjá hversu auðvelt það er að útbúa vegan-rétti. Brauðtertan er einmitt tilvalinn réttur til þess að mæta með í veislu til þess að sýna öðrum að veganismi stoppar mann ekkert í því að borða góðan og fallegan mat. Við vegan-fólkið getum svo sannarlega belgt okkur út um jólin á smákökum, lakkrístoppum, súkkulaðitertum og brauðréttum alveg eins og aðrir.“

Vegan brauðterta

  • 1 pakki af brauðtertubrauði
  • Vegan-eggjasalat (uppskrift fyrir neðan)
  • Vegan-skinkusalat (uppskrift fyrir neðan)
  • Auka mæjónes til að smyrja á tertuna (við gerum okkar mæjónes sjálfar, það er hægt að kaupa margar týpur af vegan mæjó til dæmis í Hagkaup og Gló fákafeni en okkur þykir alltaf miklu betra að gera okkar eigið. Það tekur innan við 5 mínútur og smakkast æðislega. Uppskriftin okkar er HÉR og tvöföld uppskrift passar fullkomlega í brauðtertuna, bæði í salötin og til að smyrja utan um tertuna)
  • Grænmeti til að skreyta. Það fer að sjálfsögðu bara eftir smekk og hugmyndaflugi hvað fólk kýs að hafa ofan á tertunni. Við notuðum graslauk, steinselju, kirsuberjatómata, gúrku og radísur. 

1. Leyfið brauðinu að þiðna og skerið skorpuna af

2. Smyrjið salötunum á hverja brauðsneið fyrir sig

3. Smyrjið vegan mæjónesi utan um brauðtertuna og skreytið með því sem ykkur dettur í hug

4. Ef þið hafið tök á er fínt að leyfa tertunni að fara í ísskáp í svolítinn tíma en þá er þægilegra að skera hana, hins vegar er það bara aukaatriði og skiptir engu hvað bragðið varðar. 

Salat 1 – Tófú „eggjasalat“

  • 1 tófústykki (við kaupum tófúið sem fæst í Bónus)
  • Örlítil olía til steikingar
  • 1/2 tsk. túrmerik
  • 1 tsk. hvítlauksduft
  • 1 tsk. laukduft
  • 1 msk. sítrónusafi
  • 1 og 1/2 dl vegan-mæjónes. 
  • 1 dl hreint sojajógúrt frá Sojade (jógúrtin fæst í Bónus og Hagkaup og ein dolla af stærri gerðinni er nóg í bæði salötin)
  • 1 tsk. gróft sinnep eða dijon sinnep
  • 1 msk. smátt skorinn graslaukur
  • salt og pipar eftir smekk

1. Brjótið tófúið niður á pönnu og steikið létt upp úr smá olíu, kryddum og sítrónusafa.

2. Leyfið tófúhrærunni að kólna í nokkrar mínútur, setjið hana í stóra skál og blandið mæjó, jógúrt, sinnepi og graslauk saman við. 

Salat 2 – Vegan skinkusalat

  • 1 dós blandað grænmeti frá Ora
  • 1 bréf vegan-skinka (Við notuðum reyktu skinkuna frá Astrid och Aporna sem kom nýlega í Hagkaup. Auk þess fæst góð skinka frá Veggyness í Nettó)
  • 1 og 1/2 dl vegan mæjónes
  • 1 dl hreina jógúrtin frá Sojade
  • 1/2 tsk. hlynsíróp
  • salt eftir smekk

1. Skerið skinkuna í bita og blandið öllu saman í skál.

Við vonum að þið njótið! 
Veganistur

Afraksturinn er gullfallegur.
Afraksturinn er gullfallegur. veganistur.is
Hvern myndi gruna að þetta bjútí væri vegan?
Hvern myndi gruna að þetta bjútí væri vegan? veganistur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert