Gæsabringa og Tandoori-síld Sigmars

Tandoori-síld Sigmars.
Tandoori-síld Sigmars.

„Við bræður höfðum talað um að gefa út matreiðslubók og mynddisk með áherslu á Strandir, þar sem rætur okkar liggja á Víðivöllum í Staðardal, en ekkert varð úr því. Það kom því í minn hlut að klára þessa bók í hans nafni,“ segir Jón Víðir, en Sigmar féll frá árið 2012.

Krydduð með sögum

Burðarverkið í bókinni er uppskriftir sem Sigmar átti í fórum sínum, í máli og myndum, en hún er krydduð með sögum, oft í gamansömum tón, þar sem samferðamenn lýsa kynnum sínum af honum. „Ég vona að lesendur hafi gaman af þessu því að sögur og Sigmar og sögur um Sigmar voru órjúfanlegur þáttur í lífi hans og starfi,“ segir Jón Víðir.

Bókina prýða fjölmargar ljósmyndir sem flestar eru eftir Jón Víði. Sögurnar gera það að verkum að bókin á alveg eins heima á stofuborðinu og náttborðinu eins og í eldhúsinu, að áliti Jóns Víðis.

Sér til halds og trausts við gerð bókarinnar hafði Jón Víðir framkvæmdastjórn sem skipuð var Kjartani Jónssyni, Rúnari Bachmann, Erni Svavarssyni, Guðmundi Björnssyni og Birgi Hrafnssyni.

Jón Víðir setti aukinn kraft í verkefnið í sumar; fór að elda uppskriftirnar sem Sigmar hafði haldið til haga í mörgum minnisbókum. Margt af því er handskrifað og ekkert endilega getið um hlutföll eða mælikvarða enda þótt allt hráefni sé til staðar. „Þessu þurftum við að ráða fram úr, sem var bara skemmtilegt. Þetta er nú einu sinni mitt áhugamál líka; það fer mikill tími í að hugsa um mat og hráefni, ekki síst tengt villibráð og öðru í náttúru Íslands,“ segir Jón Víðir.

bræðurnir Sigmar B. og Jón Víðir Haukssynir í fullum herklæðum …
bræðurnir Sigmar B. og Jón Víðir Haukssynir í fullum herklæðum á villibráðarveiðum.

Veiðimennskan í blóðinu

Sigmar var sem kunnugt er kappsfullur veiðimaður, hafði alist upp við það frá blautu barnsbeini, og sama máli gegnir um Jón Víði. „Veiðimennskan er í blóðinu og heldur áfram í börnum okkar. Maturinn í bókinni er raunar að mestu leyti matur sem Sigmar eldaði gjarnan fyrir vini sína í veiðiferðum og svo auðvitað fyrir fjölskylduna á góðum stundum.“

Jón Víðir segir Sigmar hvergi hafa unað hag sínum betur en á Ströndum og vonar að bókin skili þeirri stemningu til lesenda. „Strandirnar eru okkar torfa og Sigmar veiddi hvergi annars staðar síðustu árin. Þar hvíla líka bein hans; á Stað í Steingrímsfirði.“

Jón Víðir segir uppskriftir bróður síns mikinn fjársjóð og getur vel hugsað sér að gera aðra bók síðar. „Af nægu er að taka!“

Tandoori-síld

2 krukkur matjes-síld.

1 ½ dl hrein jógúrt

2 msk. majónes

1 msk. tandoori-kryddblanda eða mauk

1 msk. hunang

safi úr hálfu lime

salt og mulinn hvítur pipar

Jógúrt, majónesi, tandoori-kryddi og lime-safa blandað saman. Smakkað til með salti og pipar.

Vökvinn látinn renna vel af síldinni sem síðan er velt upp úr marineringunni.

Salat með heitreyktri gæsabringu og þyrrkuðum ávöxtum.
Salat með heitreyktri gæsabringu og þyrrkuðum ávöxtum.

Salat með heitreyktri gæsabringu og þyrrkuðum ávöxtum.

2 heitreyktar gæsabringur

5 sneiðar parmaskinka eða sambærilegt þurrkað kjöt

200 g blandað salat

2 dl aðalbláber, fersk eða frosin

5 þurrkaðar gráfíkjur, skornar í bita

5 þurrkaðar apríkósur, skornar í bita

50 g geitaostur, skorinn í bita

40 g ristaðar kasjúhnetur

salt og pipar

Bókina prýða fjölmargar ljósmyndir sem flestar eru eftir Jón Víði.
Bókina prýða fjölmargar ljósmyndir sem flestar eru eftir Jón Víði.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert