Kjötlaus jól á Flórída

Helgi Seljan og Katrín Rut Bessadóttir halda græn jól í …
Helgi Seljan og Katrín Rut Bessadóttir halda græn jól í Flórída.

Þrjár grænar ofurhetjur sameinast í hinni girnilegu bók Eldhús grænkerans sem kom út fyrir skemmstu. Katrín Rut Bessadóttir, félagsfræðingur og blaðamaður á Fréttatímanum, Hanna Hlíf Bjarnadóttir, myndlistakona og Rut Sigurðardóttir ljósmyndari. Katrín heldur í ár sín fyrstu kjötlausu jól og jafnvel eiginmaðurinn sem elskar pylsupasta er farinn að uppgötva gleðina í því græna.

„Þetta verða fyrstu kjötlausu jólin mín, hingað til hef ég notið þess að hægelda fyllt lamb og byrja yfirleitt að undirbúa matseldina löngu fyrir jól. Þessi jólin verð ég með fjölskyldunni á Flórída og það verður afar áhugavert að sjá hvaða gúrme ég næ að hrista fram úr erminni. Markmiðið verður að sjálfsögðu að fjölskyldunni finnist það sem ég er að borða betra en það sem hún er að borða – mér finnst alltaf ákveðinn sigur fólginn í því þegar minn matur sigrar kjötið í vinsældakeppninni – og það gerist bara ansi oft get ég sagt þér.“

Pylsupastað víkur fyrir blómkálssteik

Fjölskyldan tók vel í grænar hugmyndir húsmóðurinnar að sögn Katrínar, hún er gift Helga Seljan sem er einn kunnasti fréttamaður landsins. „Eldri dóttir mín segist raunar vera grænmetisæta því henni finnst flest kjöt vont en yngri dóttir mín hins vegar er mikil kjötæta en styður móður sína heilshugar. Ég elda örsjaldan eitthvað kjöt- eða fiskmeti fyrir restina af fjölskyldunni en annars gera þau sér að góðu grænmetis- og baunaréttina sem ég elda. Helgi eldar pylsupasta og fiskibollur þegar ég er ekki heima. Á upphafsárum sambúðar okkar eldaði ég gjarnan pasta því það var svo ódýrt og steikti lauk og annað grænmeti og bætti svo skinku eða pepperoni eða öðru kjöti við. Ofsalega ódýrt fyrir unga blanka blaðamenn en einu sinni prófaði ég að gera þetta kjötlaust og ég vissi hreinlega ekki hvert maðurinn ætlaði – þetta er í fyrsta og eina skipti sem matur sem ég elda er ekki „besta sem hann hefur smakkað“ – en hann er afar hrifnæmur þegar kemur að eldamennsku minni sem er alltaf jafnhressandi.“

Síðan ungu blaðamennirnir elduðu sér pylsupasta hefur mikið vatn runnið til sjávar segir Katrín og er Helgi farinn að elska grænmetismatinn sem hún ber á borð. „Til dæmis blómkálssteik sem ég geri stundum – hann tekur alltaf mynd og setur á Instagram þegar ég elda hana þannig að fólk heldur líklega að ég eldi ekkert annað en blómkálssteik!“

Gikkurinn sem lærði að borða grænmeti

„Ég er í grunninn frekar mikill gikkur og sem krakki var ég óþolandi – kúgaðist þegar mamma reyndi pína mig til að borða soðinn fisk og vildi ekkert nema Cocoa Puffs. Ég fúlsaði við flestu grænmeti og hélt í alvöru að ég myndi aldrei nokkurn tímann byrja að borða lauk, papriku og kál, tilhugsunin um að smakka þetta var óbærileg. En með aldrinum bara gerðist eitthvað og ég er sjúk í flest grænmeti þó að ég eigi enn þá smá erfitt með sveppi en er ég með dálitla áferðarfóbíu. Ég elska sveppabragð en er enn þá að læra að bíta í sveppi.“

Katrín deilir hér einni af sinni uppáhaldsuppskriftum úr bókinni Eldhús grænkerans.

Grillaður halloumi-ostur á kúskúsbeði er hin fínasta hátíðarmáltíð.
Grillaður halloumi-ostur á kúskúsbeði er hin fínasta hátíðarmáltíð. Rut Sigurðardóttir

Grillaður halloumi á kúskúsbeði

100 g kúskús
100 ml olía
1 msk. dijon sinnep
1 hvítlauksrif, pressað
1 rautt chilialdin, smátt saxað og fræhreinsað
safi úr ½ sítrónu
1 msk. balsamedik
1 msk. púðursykur
50 g þurrkuð trönuber, þurrristuð
60 g halloumi, skorinn í jafna bita (notið tofu ef vegan)
100 g kirsuberjatómatar, skornir í helminga
2 vorlaukar, saxaðir, líka græni hlutinn
50 g salat, t.d. klettasalat
handfylli af ferskri myntu, söxuð
handfylli af fersku kóríander, saxað

Sjóðið kúskús eftir leiðbeiningum og geymið til hliðar. Hrærið saman olíu, sinnepi, hvítlauk, chili, sítrónusafa, balsamediki og púðursykri þar til sykurinn leysist upp. Bætið blöndunni við kúskúsið og blandið vel saman. Sjóðið sykurbaunir í söltu vatni í u.þ.b. 5-7 mín. Hitið olíu á pönnu og steikið halloumi-ostinn þar til hann er fallega brúnn á báðum hliðum, kreistið sítrónusafa yfir ostinn um leið og þið takið hann af pönnunni. Bætið öllu grænmetinu og fersku kryddi saman við kúskúsið og raðið baunum og osti yfir.

Berið fram með laukhummus með balsamsírópi.

Laukhummus
u.þ.b. 400 g

2 msk. olía
2 laukar, skornir í þunnar sneiðar
1 msk. balsamedik
250 g kjúklingabaunir
1-2 msk. púðursykur
3 msk. vökvi af baununum (ef þið notið baunir úr dós, annars notið bara vatn)
2 msk. tahini
2 msk. balsamsíróp
1 hvítlauksrif
1-2 msk. ferskur sítrónusafi
sjávarsalt og nýmalaður pipar

Hitið olíu á pönnu og steikið lauk þar til hann er orðinn glær. Bætið balsamedikinu og púðursykrinum við, hrærið vel. Setjið restina af hráefninu í matvinnsluvél ásamt steikta lauknum. Blandið vel.

Ég nota mikið kjúklingabaunir úr dós, ekki síst þar sem nota má safann í ýmiss konar vegan-hráefni (eins og til dæmis vegan-marens). Ef ég hins vegar legg baunir í bleyti geri ég það í stórum skömmtum og frysti það sem ég ekki nota.

Eldhús grænkerans er falleg og girnileg bók sem slegið hefur …
Eldhús grænkerans er falleg og girnileg bók sem slegið hefur í gegn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert