Stórkostlegar djúsírúllur Bergrúnar

Bergrún er mikið náttúrubarn og borðar mikið af grænmeti og …
Bergrún er mikið náttúrubarn og borðar mikið af grænmeti og fersku kryddi. Ljósmynd/Facebook

Bergrún Mist Jóhannesdóttir háskólanemi er mikill særkeri. Bergrún er grænmetisæta og elskar að prufa nýjar uppskriftir sem eru þá gjarnan undir asískum eða indverskum áhrifum. Hér höfum við ofureinfalda og mjög svo bragðgóða uppskrift að sumarrúllum með hnetusósu að hætti Bergrúnar. Fullkominn partýréttur, aðalréttur eða sem nesti.

Ferskleiki, litadýrð og hollusta einkennir þessar fallegu rúllur sem tekur …
Ferskleiki, litadýrð og hollusta einkennir þessar fallegu rúllur sem tekur enga stund að henda í. Bergrún Mist

„Ferskleiki, litadýrð og hollusta einkennir þessar fallegu rúllur sem tekur enga stund að henda í. Maður getur í raun látið hvað sem er inn í rúllurnar, allt grænmeti, ávexti, spírur, tófú eða það sem maður á til hverju sinni. Mikilvægast finnst mér að setja eitthvað sætt, t.d. mangó, epli eða vínber en það kemur mjög vel út með öllu grænmetinu,“ segir Bergrún en í þetta skiptið fyllti hún rúllurnar af sesamfræjum, rauðkáli, hvítkáli, gulrótum, lárperu, mangó, papriku, gúrku, spírum, vorlauk og kóríander. Hrísgrjónablöðin fást víða, til dæmis í Krónunni og Bónus.

Smelltu hér fyrir guðdómlegt graskerskarrý Bergrúnar.

Hrísgrjónavefjunum er svo vafið utan um grænmetið.
Hrísgrjónavefjunum er svo vafið utan um grænmetið. Bergrún Mist

Aðferð:

Skerið niður það sem þið viljið hafa í vefjunum og raðið á bretti.
Sjóðið vatn og hellið í form t.d. eldfast mót.
Gott er að leyfa vatninu að kólna aðeins áður en hrísgrjónablaðið er lagt ofan í það svo puttarnir komist óbrenndir úr þessu.
Hrísgrjónablaðið þarf einungis nokkrar sekúndur ofan í heitu vatninu en maður finnur það mýkjast með því að þreifa með puttunum.
Næst er mjúkt blaðið lagt eins slétt og hægt er á borð eða bretti og innihaldinu raðað á mitt blaðið.
Blaðinu er svo rúllað upp eins þétt og hægt er og rúllan er tilbúin.

Hnetusósa:
Það sem toppar rúllurnar er hnetusósan, í hana slumpa ég yfirleitt því sem er til hverju sinni og hún kemur alltaf vel út en hér er hugmynd að uppskrift.

2-3 mjög fullar matskeiðar af hnetusmjöri
1 msk. hoisin-sósa
1 msk. soya-sósa
Safi úr 1/2 lime
1/2 hvítlaukur
1 tsk. sriracha-sósa
smá vatn til að þynna sósuna

Hrærið þetta allt saman og smakkið til, ég mæli svo eindregið með því að bæta eða minnka við innihaldsefnin eins og ykkur finnst gott.

Hnetusósan er algjört dúndur! Það má vel hafa sojasósu líka …
Hnetusósan er algjört dúndur! Það má vel hafa sojasósu líka með. Bergrún Mist
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert