Heilsudrykkurinn sem mun ráða ríkjum árið 2017

Kvass mun verða einn vinsælasti heilsudrykkurinn á árinu samkvæmt spekúlöntum.
Kvass mun verða einn vinsælasti heilsudrykkurinn á árinu samkvæmt spekúlöntum. Dagný Hermannsdóttir

Heilsusérfræðingar víða um heim vilja meina að kvass sé sá heilsudrykkur sem muni ráða ríkjum á komandi ári. Sumir þeirra ganga jafnvel svo langt í að dásama heilsubætandi áhrif drykksins og segja neyslu hans geta verið forvörn gegn krabbameini og víða um heim er drykkurinn nú seldur í heilsuverslunum.

Matarvefurinn kynnti sér málið en nú þegar sjást myndir af íslensku kvassi víða á samfélagsmiðlum. „Kvass er drykkur sem á að vera allra meina bót og hálfgerður lífslexír. Drykkurinn er fullur af mjólkursýrubakteríum og það kætir nú aldeilis þarmaflóruna,“ segir Dagný Hermannsdóttir ein fremsti sérfræðingur landsins í mjólkursýrðu grænmeti. Hún segir drykkinn ekki bara hollan heldur mjög bragðgóðan. Dagný heldur einnig úti vinsælli facebooksíðu um sýrt grænmeti.

Sýrt grænmeti er meinhollt og neysla þess getur hresst upp á þarmaflóruna. Margir tengja súrkál við eitthvað fremur ólystugt grænmeti en sýrt grænmeti getur verið mikið sælkerafóður og býður upp á nýjar víddir í matargerð.  Í flestum eldhúsum er til allt sem þarf til að sýra sitt eigið grænmeti.

„Sumir þurfa þó aðeins að venja sig við bragðið en verða svo alveg forfallnir og þrá og dá þennan holla drykk. Persónulega finnst mér kvass sem eingöngu er bruggaður úr rauðrófum ekkert sérstakt ljúfmeti. Því eins og rauðrófur eru nú góðar, geta þær orðið dálítið yfirþyrmandi. Þess vegna brugga ég mitt kvass úr gulrótum, lauk, káli og rauðrófum. Það er um að gera að prófa sig áfram með hlutföll og auðvitað má einnig krydda að smekk," segir Dagný en hún verður með kynningarkvöld á bókasafninu Seltjarnarnesi sem hefst í dag kl. 17.30. Viðburðurinn er ókeypis og allir velkomnir.

Smelltu hér fyrir fleiri uppskriftir frá Dagnýu.

Dagný er mikið séní í mjólkursýrðu grænmeti og allskonar góðmeti …
Dagný er mikið séní í mjólkursýrðu grænmeti og allskonar góðmeti því tengdu. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Rauðrófu – kvass

En sem sagt; í eina væna krukku:
½ laukur, 3-4 gulrætur í sneiðum,
2-4 blöð af hvítkáli í nokkuð stórum bitum,
1-2 rauðrófur í teningum,
jafnvel þunn sneið af engifer ef maður fílar það.
vatn
salt

Gott að setja grænmetið í krukkuna í þessari röð. 1 lítri af vatni sem 15 grömm af salti hafa verið leyst upp í. Gætið þess að ekkert grænmeti standi upp úr saltvatninu, ef svo er þarf að bæta dálitlu saltvatni í krukkuna. Gott er að nota niðursuðukrukku með smelluloki því hún hleypir út gasinu sem myndast við gerjunina en súrefni kemst ekki inn.

Krukkan er látin standa við stofuhita í 3-7 daga. Það borgar sig að hafa disk eða annað undir henni ef eitthvað skyldi frussast út þegar gerjunin fer af stað.

Það er um að gera að byrja að smakka eftir 3-4 daga.

Oft verður smá gos í kvassinu og það er tilbúið þegar það er unaðslega sæt-salt-súrt.

Þá sigtar maður vökvann frá, borðar grænmetið eða notar í eldamennsku en hellir drykknum á flöskur og geymir í kæli í allt að 2 vikur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert