Kynþokkafullur og dísætur morgunverður

Kynþokkafyllsti morgunverðurinn er rauðar pönnukökur samkvæmt purewow.com.
Kynþokkafyllsti morgunverðurinn er rauðar pönnukökur samkvæmt purewow.com. purewow.com

Á vefsíðunni purewow.com er að finna uppskrift af Red Velvet-morgunverðapönnukökum með dísætu kremi en þeim er lýst sem mjög kynþokkafullum morgunverði hvernig sem sú niðurstaða fæst. 

„Það nánasta sem tvær manneskjur geta deilt? Nú morgunverður auðvitað,“ segir uppskriftarhöfundurinn. Pönnukökunum er lýst sem leikandi, bragðmiklum og jafnvel óþægum! Ég veit ekki alveg hvað gekk á í þessu eldhúsi en uppskriftin er frumleg og ætti að falla vel í kramið hjá þeim er kunna að meta Red Velvet-bollakökur. 

RED VELVET-PÖNNUKÖKUR

2 bollar Red Velvet-kökumix 
3 msk. smjör 
1 egg
1 bolli mjólk
Olía til steikingar 

Rjómaostakrem 
6 msk. rjómaostur
4 msk. flórsykur
4 msk. rjómi
1/4 tsk. vanila

Hrærið saman kökuduftinu, smjörinu, egginu og mjólkinni þar til blandan verður að kekkjalausu deigi.

Hitið pönnu á háum hita og setjið olíu á pönnuna og lækkið niður í miðlungshita svo pönnukökurnar verði ekki of dökkar.

Ausið deigi á pönnuna sem dugar í eina væna pönnuköku og steikið uns loftbólur fara að myndast í miðju pönnukökunnar eða eftir um 2-3 mínútur.

Snúið þá kökunni við og steikið áfram í 1-2 mínútur. Takið þá kynþokkafullu pönnukökuna af pönnunni og steikið næstu.

Setjið álpappír yfir kökurnar til að halda þeim heitum.

Hrærið allt innihaldið í kremið saman með handþeytara uns blandan er hefur fengið fallega kekkjalausa áferð.

Hellið kreminu yfir pönnukökustaflann og berið fram ... það kemur reyndar ekki fram í hvernig klæðnaði en væntanlega er satín-náttsloppur málið! 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert