Framkvæmdastjórinn býr sjálfur til ostinn

Þegar Matarvefurinn hafði samband við Helga var hann upptekinn við …
Þegar Matarvefurinn hafði samband við Helga var hann upptekinn við ostagerð en osturinn er nýjung hjá fyrirtækinu.

Við höfum verið að föndra við ostagerð, ostarnir fást eingöngu í örfáum verslunum en við hyggjumst bæta úr því á þessu ári,“ segir Helgi Rafn Gunnarsson, framkvæmdastjóri Bio-bú, sem framleiðir mjólkurvörur úr lífrænni mjólk. „Við köllum ostinn „Búlands havarti“ nefndum hann í höfuðið á öðrum bænum sem framleiðir lífrænu mjólkina, osturinn er sem sagt havarti-týpa og er 36% feitur. Hann fæst í Melabúðinni, Fjarðarkaupum, Brauðhúsinu, Frú Laugu og hjá Brauð og co.“

Helgi segir vöruþróun takmarkast af væntanlegu mjólkurmagni, ef mjólkurmagnið aukist eykst vöruframboðið. „Það hefur til dæmis ekki verið mikil aukning á lífrænni mjólk síðustu ár en það hefur aukist aðeins og því er í undirbúningi að bæta við nýjum vörum. Við leggjum okkur fram um að sinna vöruþróun eins og kostur er. Þess má geta að Bio-bú var fyrst til að framleiða gríska jógúrt hér á landi, en vegna skorts á hráefni hefur ekki verið hægt að auka úrvalið svo sem með því að bragðbæta grísku jógúrtina.“ Búið framleiðir í dag um 20 vörutegundir.

Lífræn mjólk nýtur sífellt meiri vinsælda en tvo bú framleiða …
Lífræn mjólk nýtur sífellt meiri vinsælda en tvo bú framleiða fyrir Bio-bú. Styrmir Kári

„Nýjasta viðbótin hjá okkur er jógúrt með hindberjabragði, alveg hreint afbragðsgóð,“ segir Helgi en mikil áhersla er á vöruþróun hjá fyrirtækinu sem er í eigu Dóru Ruf og Kristjáns Oddssonar, en þau stunda lífræna mjólkurframleiðslu að Neðra-Hálsi í Kjós.  

Vinsælasta varan er Mangó jógúrt en töluvert er af sykri í því jógúrti. Helgi segist ekki hafa hug á því að minnka sykurinn. „Við reynum að hafa eins lítinn sykur í jógúrtinni og við komumst upp með en til að framkalla bragðið þarf ákveðið hlutfall af sykri og við höfum ekki viljað breyta vörunni með því að setja til dæmis stevíu í stað lífræns hrásykurs. Við leggjum frekar áherslu á hreinar vörur þar sem fólk getur stjórnað því sjálft hvað sett er út í hreinu jógúrtina, til dæmis múslí, agave-sletta eða hvaðeina sem þér dettur í hug,“ segir Helgi og hvetur fólk til þess að velja lífrænt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert