Hið fullkomna millimál

Innihaldsefnin eru stútfull af hollri næringu.
Innihaldsefnin eru stútfull af hollri næringu. veganistur.is

​Veganistur eru hér með stórkostlega uppskrift að djúsí súkkulaðipróteinstykkjum en einnig má gera kúlur úr deiginu og sleppa því að baka það. Þessi uppskrift er frumsamin fyrir matarvef mbl.is

„Þegar taka á mataræðið í gegn er alltaf smá höfuðverkur að finna hollt snarl til að hafa við höndina þegar mann fer að langa í eitthvert nart eða verður svangur á milli máltíða. Það eru til alls konar hollustustykki í flestum búðum landsins sem er auðvitað virkilega þægilegt en þau hafa það hins vegar öll sameiginlegt að vera oftast alveg hrikalega dýr. Okkur systrum hefur einnig ekki fundist auðvelt að finna stykki sem okkur finnst virkilega góð. Þau bestu sem við höfum smakkað eru Clif bars en það eru bandarísk stykki sem er ekki mjög auðvelt að koma höndum yfir hérna á Íslandi.“

veganistur.is
veganistur.is
„Við vorum hins vegar alltaf sannfærðar um að það væri ekkert mál að gera svona stykki sjálfur, það þyrfti bara að gefa sér tíma í það. Við létum loksins verða af því og vorum heldur betur ánægðar með útkomuna. Þetta er hið fullkomna millimál, ótrúlega næringarríkt og alls ekki flókið eða tímafrekt að útbúa.
Okkur finnst þau henta einstaklega vel þar sem þau innihalda engar hnetur en á mörgum vinnustöðum er hnetuofnæmi og þarf maður ekki að hafa neinar áhyggjur af því þegar maður tekur þau með sér hvert sem er. Þessi stykki eru meðal annars stútfull af próteini, orku og trefjum.
Í uppskriftinni er hráefni sem heitir kínóa puffs en það er kínóa sem búið er að poppa og fæst t.d. í Nettó og Hagkaup.“
Það má vel gera hrákúlur í stað þess að baka …
Það má vel gera hrákúlur í stað þess að baka stykkin. Veganistur.is
Hráefni:
  • 15 ferskar döðlur
  • 1 dl haframjólk
  • 1 msk. möndlusmjör
  • 2 tsk. kókospálmasykur (eða sæta að eigin vali)
  • 1/2 - 1 msk. hrákakó
  • 1/2 dl vegan-súkkulaðiprótein (við notuðum hráa próteinið frá Sun warrior)
  • 2 msk. hörfræmjöl
  • 1 1/2 dl tröllahafrar (við notumst við glútenlausa hafra)
  • 1 dl kínóa puffs
  • 1/2 dl kókosmjöl
  • 30 gr 70% súkkulaði
Aðferð:
  1. Byrjið á því að taka steinana úr öllum döðlunum.
  2. Setjið döðlur, haframjólk, möndlusmjör, kókospálmasykur, kakó og prótein í blandara eða matvinnsluvél og blandið þar til þetta verður að sléttu mauki.
  3. Hrærið maukinu saman við hafrana, kínóað, kókosmjölið og súkkulaðið með sleif þar til það er vel blandað saman.
  4. Það má bæði rúlla deiginu í kúlur og borða hráar eða móta í stykki og baka við 180°C í 15 mínútur. Ég mæli með að prófa hvort tveggja og finna út hvað ykkur finnst best.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert