Myndband frá Happ vekur mikla athygli

Ný auglýsing frá Happ sýnir lækni skrifa lyfseðil og kokk …
Ný auglýsing frá Happ sýnir lækni skrifa lyfseðil og kokk í framhaldinu útbúa máltíð með litríkum og dramatískum hætti. Skjáskot youtube.com

Ný auglýsing (sjá hér að neðan) frá Happ sýnir lækni skrifa lyfseðil og kokk í framhaldinu útbúa máltíð með litríkum og dramatískum hætti. Myndbandið hefur flogið hátt á samfélagsmiðlum en það er Unnur Pálsdóttir, sjúkraþjálfari og framkvæmdastjóri Happ ehf., sem lét framleiða myndbandið. Lukka eins og hún er yfirleitt kölluð gaf fyrir jól út bókina Máttur matarins ásamt Þórunni Steinsdóttur en Lukka hefur lengi talað fyrir því hve miklu máli mataræðið skipti heilsu okkar.

 „Við settum myndbandið fyrst í loftið á Facebook og viðbrögðin létu ekki á sér standa. Við höfum fengið mikið af skilaboðum og fólk virðist vera vel með á nótunum og tekur almennt undir boðskapinn. Það sem kemur skemmtilega á óvart er að við höfum heyrt í þó nokkrum læknum sem vilja samstarf við Happ og vilja skrifa fleiri matseðla og hreyfiseðla en færri lyfseðla.  Þessi þróun er afar jákvæð og mikil vakning virðist vera á meðal fagfólks innan heilbrigðisstétta um gildi lífsstíls til heilbrigðis. Bæði sem forvörn og einnig meðferðarúrræði,“ segir Lukka.

Lukka segir mat vera öfluga forvörn.
Lukka segir mat vera öfluga forvörn.

Matur sem forvörn

Það má skilja af myndbandinu að framleiðendur líti á mat sem lyf. En getur næring skipt svo miklu máli að hún skilji á milli heilbrigðis og sjúkdóma? „Stutta svarið er já. Við getum horft aftur í tímann og rifjað upp sjúkdóma sem við glímdum við á árum áður en höfum nú ráðið bót á með réttri næringu,“ segir Lukka og telur upp sjúkdóma sem voru algengir hér á árum áður en sjást ekki í dag.

„Sítróna getur læknað skyrbjúg (skortur á C-vítamíni), lax og lýsi verið lækning við beinkröm (skortur á D-vítamíni) og grænmeti, lifur og skelfiskur ráðið bót á blóðleysi (skortur á járni og B-vítamínum). Við getum haldið lengi áfram að telja upp sjúkdóma og kvilla þar sem lækningin felst í réttu mataræði en mikilvægast er að finna rétta jafnvægið og nýta næringu sem forvörn.“

Lukka segir að með áherslu á rétt mataræði megi auka lífsgæði fólks til muna og lækka kostnað. „Um 85% af útgjöldum ríkisins til heilbrigðismála fer í að meðhöndla langvinna sjúkdóma sem eiga rætur að rekja til lífsstíls okkar. Samt notum við einungis 1,6% í forvarnir gegn þessum sömu sjúkdómum.“

Lukka leggur mikið upp úr óunnu og fersku hráefni og …
Lukka leggur mikið upp úr óunnu og fersku hráefni og notast mikið við grænmeti, ber og hnetur. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Hérlendis eru gefnar út tæplega 3 milljónir lyfseðla á ári

Lukka segir mikilvægt að opna umræðuna um hve mikið við sjálf getum lagt af mörkum til heilbrigðis okkar.  „Margir alvarlegir langvinnir sjúkdómar tengjast bólgum og ójafnvægi í líkamanum og við getum dregið verulega úr líkum á að greinast með slíka sjúkdóma með réttu mataræði. Það er því rík ástæða til að hvetja fólk til að nýta sér fæðu sem forvörn.
Ríkisstjórnin virðist líka vera með á nótunum og það gleður mig að sjá græna drykki og grænmeti á þeirra borðum þessa dagana. Það styttist örugglega í að við fáum myndarlegan sykurskatt (sem þó þarf að vanda til betur en áður) og getum þá ef til vill nýtt þá fjármuni í öflugri forvarnir,“ segir Lukka en hún hefur miklar áhyggjur af þróuninni.

„Á Íslandi skrifum við tæplega 3 milljónir lyfseðla á ári. Margir þeirra eru auðvitað nauðsynlegir og lyf geta bjargað mannslífum en við gætum klárlega dregið úr fjölda þeirra með því að nýta aðrar lausnir fyrst eða í bland,“ segir Lukka að lokum og hvetur fólk til að taka mataræði sitt og heilsu föstum tökum.

Smelltu hér til að sjá uppskrift að uppáhaldslambasalati Lukku.

Bók Lukku og Þórunnar hefur vakið mikla athygli.
Bók Lukku og Þórunnar hefur vakið mikla athygli.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert