„Megrun er ógeð“

Lilja segist hæstánægð með nýja Paleo-þemað á hemilinu.
Lilja segist hæstánægð með nýja Paleo-þemað á hemilinu. Eggert Jóhannesson

Lilja Katrín Gunnarsdóttir leikkona og bakstursbrjálæðingur hjá Blaka.is, hefur skipt um gír í janúar og aðhyllist nú Paleo-mataræði sem útleggst á íslensku sem steinaldarfæði. Hún er þó ekki hætt í eftirréttaglensinu og hefur því fundið hina fullkomnu uppskrift af Paleo-Snickers.

Enginn hvítur sykur, ekkert korn, engar belgjurtir og engar mjólkurvörur. Þeir sem eru fanatískir í Paleo drekka ekki heldur kaffi en ég get bara ekki látið bjóða mér svoleiðis rugl. Þannig að ætli ég sé ekki 95,9% Paleo því ég drekk kaffi og fæ mér stöku sinnum popp, sem mér er sagt að sé „paleo friendly”. Jebb, ég er komin með alla frasana á hreint,“ segir Lilja Katrín kát með nýtt þema í bakstrinum en hún lætur ekki steinaldarþemað stoppa sig í bakstrinum. Hún segir ástæðuna fyrir breytingunni vera tvíþætta. „Til að hætta að borða nammi og kannski borða örlítið heilsusamlegri mat. Tja, eða það sem manni er sagt að sé heilsusamlegra.“

Paleo-snickersbitar með súkkulaði.
Paleo-snickersbitar með súkkulaði. Eggert Jóhannesson

„Prófið Paleo!“

„Ég er alfarið á móti orðinu lífsstílsbreyting því það þýðir í raun bara megrun og megrun er ógeð. En mér finnst fínt að borða meira grænmeti og ávexti. Smátt og smátt er ísskápurinn minn farinn að líta út eins og lítið, litríkt gróðurhús, ekki bara hlaðinn af Pepsi Max og sætabrauði. Ég þarf að hugsa talsvert meira um hvað ég borða og hvað á að vera í matinn og það er spennandi að leika sér með eitthvað nýtt í eldhúsinu. Hins vegar, líður mér alltaf eins og enn einum nýársheitahálfvitanum þegar ég arka um matvörubúðina og skoða innihaldslýsinguna á gjörsamlega öllu. Sorrí með mig,“ segir Lilja sem hefur mikinn húmor fyrir nýjungargirni sinni.

Lilja segist hiklaust mæla með mataræðinu. „Prófið Paleo! Þó ekki nema í einn dag eða tvo. Ég ætla ekki að segja að ég sé ný manneskja með glansandi húð, fáránlega samhæfingu, sléttan maga og skýra, andlega sýn á lífið en meltingin mín hefur aldrei verið betri, of miklar upplýsingar? ég er búin að uppgötva fullt af geggjuðum réttum og er aðeins meðvitaðri um hvað er sett í matinn sem ég er vön að kaupa. Sem þýðir að ég get líka verið óþolandi í mannfögnuðum og messað yfir fólki um hvað það er að láta ofan í sig. Ég er nefnilega yfirleitt á hinum endanum, með Pepsi Max í annarri, hvítvín í hinni, og skoltinn troðfullan af súkkulaði.“

„Ég hef átt betri bandamenn“

Spurð um hvað kom henni mest á óvart við steinaldarfæðið segir hún að sínir eigin hæfileikar hafi komið henni skemmtilega á óvart. „Í fyrsta sinn á ævinni er ég betri kokkur en bakari! Mér finnst ekkert æðislega skemmtilegt að elda en ég er massa góður Paleo-kokkur. Og Paleo-matur er mjög fínn og hentar mér vel þar sem ég er ekki sólgin í brauð, pasta og kartöflur. En ég held að ég hafi gert fleiri mistök í bakstri á þessum rúmu tveimur vikum en síðustu fimm árin. Ég er enn að læra á þessi hráefni sem stundum eru alveg svakalega óþekk. Allajafna gæti ég bjargað hvaða lestarslysi sem er með smjöri, rjóma og sykri en nú er það bara möndlumjöl, hunang og kókosolía sem ég þarf að treysta á og ég verð að segja að ég hef átt betri bandamenn. Ég hlakka til að endurnýja kynnin við bestu vini mína í bakstri en á sama tíma finnst mér mjög skemmtilegt að leika mér með ný og framandi hráefni. Svona gott vont.“

Matarvefurinn bað Lilju að deila með okkur sinni ginilegustu gotterísuppskirft. „Út af því að ég er sólgin í sætindi ákvað ég að búa til Paleo-útgáfu af Snickers. Nú hugsa margir, kannski ekki margir en sumir: Það er ekkert mál því hetjan í Snickers er salthnetan. Mikið rétt. En salthnetur, sem sagt saltaðar jarðhnetur, eru ekki hnetur heldur belgjurtir og því á bannlista! Þannig að möndlur og kasjúhnetur leysa salthneturnar af hólmi og ég verð að segja að þetta er mjög vel heppnað konfekt. Saðsamt og nær að fullnægja sykurþörfinni án þess að láta mann fá nammviskubit og velgju eftir tuttugasta bitann.“

„Út af því að ég er sólgin í sætindi ákvað …
„Út af því að ég er sólgin í sætindi ákvað ég að búa til Paleo-útgáfu af Snickers," segir Lilja. Eggert Jóhannesson


Paleo-Snickers

Botn -hráefni:
2 bollar kasjúhnetur (eða kasjúhnetusmjör)
2 msk. bráðin kókosolía (notið 3 msk. ef þið notið kasjúhnetusmjör)
2 tsk. hlynsíróp (sleppa ef þið notið smjörið)
1-2 tsk. sjávarsalt (ég vil hafa þetta vel salt)

Aðferð:

Setjið kasjúhnetur í matvinnsluvél og myljið.
Blandið restinni af hráefnunum vel saman við.
Ef þið notið kasjúhnetusmjör blandið þið strax öllum hráefnum vel saman - engin matvinnsluvél.
Þrýstið blöndunni í form sem er þakið smjörpappír, 18-20 sentímetra stórt, og frystið í 1 klukkustund.


Karamellan - hráefni:
1 bolli möndlur
6 döðlur
1/2 bolli hlynsíróp
1 tsk. vanilludropar
2 msk. bráðin kókosolía
sjávarsalt eftir smekk

Aðferð:
Setjið möndlur í matvinnsluvél og myljið rækilega. Blandið restinni af hráefnunum saman við í vélinni og myljið og myljið þar til karamellan er orðin silkimjúk. Smyrjið þessu yfir frosinn kasjúbotninn.

Þetta er hægt að borða svona en hvað er Snickers án súkkulaðis? Bræðið 100-200 grömm af Paleo-súkkulaði, eða notið þessa uppskrift hér. 

Skerið Snickers-ið í litla bita og þekið með súkkulaði. Raðið á smjörpappír og inn í frysti þar til súkkulaðið hefur storknað. Njótið!


P.s. Þetta stendur sig ekkert alltof vel við stofuhita þannig að gúffið þessu í ykkur beint úr frystinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert