Klikkaður Khalúaís fyrir fjarverandi bónda

Gaman er að segja frá því að sambýlismaðurinn verður ekki …
Gaman er að segja frá því að sambýlismaðurinn verður ekki heima í kvöld svo ég mun borða ísinn sjálf! Gleðilegan bóndadag! Tobba Marinós

Sambýlismaður minn hefur þróað með sér ofurást á kokteilnum Hvít-Rússa eða White Russian sem inniheldur meðal annars rjóma og Khalúa-líkjör. Kokteill þessi var ákaflega vinsæll fyrir nokkrum árum og virðist vera að ryðja sér til rúms aftur með hinum ýmsu sniðum.

Í dag er bóndadagurinn og því fannst mér tilvalið að skella í ís í ætt við þennan kokteil sem tilvonandi eiginmaður minn elskar svo heitt. Uppskriftin er upphaflega úr bæklingi sem móðir mín á sundurrifinn svo ekki sést lengur hvaðan hann er en uppskriftina hef ég örlítið uppfært en varist að hún er mjög stór og dugar vel fyrir 10 manns svo hana má vel helminga. 

Gaman er að segja frá því að sambýlismaðurinn verður ekki heima í kvöld svo ég mun borða ísinn sjálf! Gleðilegan bóndadag!

10 eggjarauður
1 l rjómi
salt á hnífsoddi
10 msk. sykur
2 dl Kahlúa
150 g dökkt súkkulaði
2 msk. skyndikaffi

Þeytið eggjarauðurnar og sykurinn vel saman uns blandan verður létt og ljós.
Þeytið rjóma sér.
Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði ásamt saltinu. Kælið að mestu.
Hrærið eggjablöndunni og rjómanum rólega saman.
Hellið súkkulaðinu varlega saman við og hrærið.
Því næst er líkjörnum hellt rólega saman við og hrært. Já ég veit þetta er rosalega rólegur ís!
Að lokum er það skyndikaffið og enn á ný hrært rólega.

Ísinn skreytti ég með ferskri myntu, valhnetukjörnum og heimagerðri súkkulaðisósu. Það má gjarnan svindla sér og nota Ísingu sem er súkkulaðisósa sem harðnar svo fallega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert