Kvöldmaturinn sem léttir foreldrum lífið

Grænmetislasagna er á boðstólnum í næstu viku en það er …
Grænmetislasagna er á boðstólnum í næstu viku en það er einn vinsælasti rétturinn á Gló.

Leik­skól­ar Hjalla­stefn­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu afhentu í fyrsta skipti á fimmtudaginn síðastliðinn tilbúnar kvöld­máltíðir þegar börnin voru sótt á leik­skól­ann. Foreldrum barna á leikskólunum býðst nú að panta og greiða mat á heimasíðu Gló sem matreiðir matinn en kvöldverðurinn er svo sendur á þann leikskóla sem barnið er í. Fullorðinsskammtur kostar 1.390 krónur en barnaskammtur 590 krónur.

„Viðtökurnar hafa verið stórkostlegar, framar björtustu vonum. Ég trúi því að þetta sé upphafið á löngu tímabærri samfélagsbyltingu. Allt samfélagið verður að leggja sitt af mörkum til að létta barnafjölskyldum lífið, stuðla að auknum tíma til samveru og samskipta og draga úr álagi þar sem hægt er,“ segir Mar­grét Pála Ólafs­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri Hjalla­stefn­unn­ar. 

„Draumur minn er að foreldrar geti farið beint heim með börnin, einhverja daga, án þess að eiga eftir útréttingar. Þetta samstarfsverkefni með Gló er því aðeins fyrsta skrefið í átt að aukinni þjónustu til foreldra — sem að sjálfsögðu er valfrjáls. Við munum kynna nýjungar fljótlega á borð við þvottaþjónustu og minni háttar matarinnkaup,“ segir Magga Pála eins og hún er alltaf kölluð. Spurð um hversu margir skammtar voru afhentir á fimmtudaginn segist hún ekki geta gefið upp töluna að svo stöddu en svarar „fleiri en ég þorði að vona, foreldrar hafa tekið þessari nýjung með mikilli tilhlökkun og gleði.“

Magga Pála og Solla skrifa kátar undir samstarfssamning.
Magga Pála og Solla skrifa kátar undir samstarfssamning.

Hægt er að panta kvöldverð tvisvar í viku sem stendur. „Foreldrar geta pantað matinn með tveggja daga fyrirvara og sótt á þriðjudögum og fimmtudögum á sama tíma og barnið er sótt. Í flestum tilvikum stendur til boða val á milli kjúklinga- og vegan-rétta, frjálst er að blanda mismunandi útfærslum fyrir ólíka fjölskyldumeðlimi. Pakkningarnar eru lausar við allt plast, umhverfisvænar og algjörlega niðurbrjótanlegar.“ Til stendur að auka við þjónustuna og bjóða upp á mat fleiri daga ef spurn verður eftir því.

Önnur sveitarfélög og grunnskólar á teikniborðinu 

„Eins og staðan er núna þá er hægt að panta tvær vikur fram í tímann. Við stefnum að því að gefa út mánaðarmatseðil þegar líður á, þegar við sjáum hvaða réttir eru vinsælir samkvæmt ábendingum og hugmyndum frá foreldrum sem við tökum fagnandi.“ 

Magga Pála segir þjónustuna vera í boði á öllum leikskólum Hjallastefnunnar á höfuðborgarsvæðinu, sem eru í Reykjavík, Garðabæ og Hafnarfirði. „Við færum út kvíarnar í önnur sveitarfélög þegar reynsla kemst á þessa nýjung. Ástæða þess að við fórum af stað með verkefnið í leikskólum er að þangað koma foreldrar inn tvisvar á dag. Hugmyndin er að geta nýtt ferðina og bjóða upp á þjónustu svo ekki þurfi að útrétta innkaup og fleira eftir að barnið er sótt, heldur nýta tímann til samveru. Í mörgum tilfellum taka nemendur okkar í grunnskólum skólabíl eða eru fótgangandi, því þarf að hugsa annað fyrirkomulag þar en það er allt á teikniborðinu,“ segir hugsjónarmanneskjan Magga Pála og ítrekar þakklæti sitt til fjölskyldnanna sem hafa tekið hugmyndinni fagnandi.

Barnaskammtarnir eru skemmtilega barnvænir.
Barnaskammtarnir eru skemmtilega barnvænir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert