Sítrónu-Royal rís upp frá dauðum

Gamli góði sítrónu Royalinn er kominn aftur.
Gamli góði sítrónu Royalinn er kominn aftur. Facebook/Royal

Um langt skeið var sítrónu Royal-búðingur ófáanlegur og var harmur fólks nánast áþreifanlegur. Bragðið lifði þó í hjörtum fólks og margir tóku gleði sína þegar hann birtist á ný – öllum að óvörum í hillum valinkunnra verslana á dögunum.

Okkur lék forvitni á að vita hvaðan hann kom og hvað væri að frétta og komumst fljótlega að því að það var bara einn maður sem gat svarað því. Sá heitir Sigurður Finnur Kristjánsson en er alla jafna kallaður Siggi Royal. Sér hann um gerð Royal-búðinganna og er því vel að nafnbótinni kominn.

Siggi segir að upphaflega hafi Royal-búðingarnir verið innfluttir en menn hafi haft hug á að hefja hér framleiðslu sjálfir. Stofnsett var lítil verksmiðja árið 1954 og var þar hafin framleiðsla á Royal-lyftidufti.

Fast á hæla lyftiduftsins fylgdi svo framleiðsla Royal-búðinga, en nýbreytnin sló rækilega í gegn. Royal-búðingar urðu brátt einn vinsælasti eftirréttur á veisluborðum Íslendinga á öllum aldri og voru fimm bragðtegundir framleiddar.

Sítrónubúðingurinn átti þó í vök að verjast þar sem erfitt var að fá réttu bragðefnin þannig að framleiðslu hans var hætt. Siggi segir það mikið gleðiefni að hann sé kominn aftur á markað en Royal-búðingarnir eru mikið notaðir í alls kyns uppskriftir sem og einir og sér. Eins þykir sniðugt að skipta úr flórsykri í uppskriftum fyrir búðing og skal þá hafa hlutföllin jöfn.

Hér má finna girnilega uppskrift eftir Albert Eiríksson að jarðarberjatertu með Royalbúðingskremi.

Hér má finna smákökur af matarblogginu Gulur, rauður, grænn og salt af „smákökunum sem þú verður að smakka áður en þú deyrð.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert