Gómsæt ítölsk veisla

Boðið var upp á djúsí brúsettur í forrétt.
Boðið var upp á djúsí brúsettur í forrétt. Bergrún Mist

Bergrún Mist er mikil „djúsí“ kona, það er að segja hún býr til svaðalega girnilegan mat. Bergrún er grænmetisæta og borðar því ekki kjöt eða fisk og helst engar dýraafurðir en herre gud það skiptir engu máli því jafnvel hörðustu kjötætur munu falla í yfirlið yfir þessari veislu. Ég veit allt um það því pabbi minn borðar mat sem eldaður er eftir uppskriftum frá Bergrúnu hinni stórkostlegu.

„Eitt spennandi við það að gerast grænmetisæta er að finna nýjar leiðir til að matreiða rétti sem áður innihéldu dýraafurðir. Pizza er engin undantekning í þessum málum og mörgum þykir osta- og kjötlaus pizza eflaust hljóma óspennandi. Raunin er allt önnur en með réttu hráefnunum er hægt að matreiða dýrindispizzu og maður nýtur bragðsins af hverju hráefni betur þegar pizzan er ekki yfirfull af bragðmiklum osti eða pepperoni. Við Stefán kærasti minn buðum bræðrum hans og konum þeirra í matarboð nýlega og eftir miklar vangaveltur ákváðum við að hafa ítalskt þema og settum saman þrjár mismunandi og ljúffengar pizzur sem er þess virði að deila uppskriftinni að,“ segir Bergrún og byrjar að töfra.

Súpa og ís

„Við buðum upp á bruschettur í forrétt og alls konar ís í eftirrétt en framboðið af ís úr jurtaríkinu hefur stóraukist á landinu á síðustu mánuðum. Við keyptum sorbet í Valdís, saltkaramelluís frá Nada-Moo sem fæst í krónunni og er í mjög miklu uppáhaldi og síðast en ekki síst "coffee caramel fudge" frá Ben & Jerry's sem er gerður úr möndlumjólk og er ótrúlega bragðgóður. Þar sem við höfðum ekki mikinn tíma í undirbúning keyptum við tilbúið deig og pizzasósu en það má að sjálfsögðu gera frá grunni ef tími er fyrir hendi.“

Girnilegar grænmetispítsur eru sannkölluð veisla. Sérstaklega með góðri hvítlauksolíu.
Girnilegar grænmetispítsur eru sannkölluð veisla. Sérstaklega með góðri hvítlauksolíu. Bergrún Mist

Bruschettur með hvítlauksolíu

1 bolli piccolo-tómatar
búnt af fersku basil
extra virgin-ólífuolía
sjávarsalt

Hvítlauksolía:
1 dl hitaþolin olía
3-4 hvítlauksrif
sjávarsalt
oregano

Skerið tómata og basilikku smátt niður og blandið saman, hellið örlitlu af ólífuolíu yfir blönduna og endið á smá sjávarsalti. Berið fram á súrdeigsbrauði sem hefur verið ristað í ofni með hvítlauksolíu.

Truffluð pítsa með trufflu-mayo.
Truffluð pítsa með trufflu-mayo. Bergrún Mist

Pizza #1
hvítlauksolía
2-3 kartöflur
búnt af klettasalati
Mayonnaise með trufflum

Smyrjið hvítlauksolíu á tóman pizzabotn, skerið svo kartöflur niður með ostaskera og raðið á pizzuna. Setjið í ofn þar til botninn er bakaður og toppið pizzuna með klettasalati og trufflumayo t.d. frá just mayo sem fæst í Gló. Ótrúlega einföld og enn þá bragðbetri pizza.

Pizza #2

pizzasósa eða grænt pestó
rauð paprika
sætar kartöflur
rauðlaukur
laukur
ferskar döðlur
klettasalat
avókadó
piccolo-tómatar
furuhnetur eða pistasíukjarnar

Skerið papriku, sætar kartöflur, laukinn og nokkrar döðlur í smáa bita og raðið á pizzuna með pizzasósu eða grænu pestó. Bakið þar til botninn og sætu kartöflurnar eru eldaðar og toppið með klettasalati, avókadó, tómötum og hnetum. Pizzan er ljúffeng hvort sem pizzasósa eða pestó er notað en við gerðum báðar útgáfur, það þarf bara að passa að pestóið innihaldi ekki parmesan-ost en pestóið frá Sollu er t.d. án hans.

Pizza #3
BBQ-sósa
rauð paprika
rauðlaukur
laukur
maísbaunir
chili explosion
svart Doritos
pikklaður rauðlaukur

Grænmetið er skorið niður og öllu skelt á pizzabotn með BBQ-sósu nema doritosinu og pikklaða rauðlauknum sem er bætt við þegar pizzan kemur úr ofninum. Einfalt er að pikkla rauðlauk með því að láta hann í krukku með eplaediki, smá salti og sykri. Þessi kom á óvart en pikklaður laukur og BBQ-sósa fara mjög vel saman og svart doritos gefur gott sterkt bragð.

Með pizzunum var basil-og hvítlauksolía sem gerði góðar pizzur enn betri.

1 dl extra virgin ólífuolía
oregano
2-3 hvítlauksrif
nokkur blöð af fersku basil
sjávarsalt

Gott er að byrja á því að pressa hvítlaukinn ofan í olíu og bæta hinu hráefninu við og láta í örstutta stund í blandara svo allt blandist vel saman.

Bergrún Mist er matgæðingur af guðs náð.
Bergrún Mist er matgæðingur af guðs náð.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert