Klassískar pönnukökur sem klikka aldrei

Girnilegar pönnukökur gera flesta daga betri.
Girnilegar pönnukökur gera flesta daga betri. allrecipes.com

Pönnukökur eru magnað fyrirbæri og fyrir alvöruaðdáendur þeirra er mikil sæla sem fylgir skemmtilegum útfærslum á neyslu þeirra. Á að bæta við bláberjum eða súkkulaðibitum, bera fram með avókadó og hollum berjum eða leyfa sér smá sukk með súkkulaði og sírópi?

Möguleikarnir eru óþrjótandi en í grunninn eru alvöru amerískar pönnukökur mjög einfaldar og auðveldar að gera. Sunnudagar eru sérlega viðeigandi, þá ekki síst sunnudagsdögurður og síðan má að sjálfsögðu steikja smá beikon með og gera þetta að alvörusunnudagshátíð.

Innihald:
180 ml mjólk
2 msk. hvítt edik
140 g hveiti
2 msk. sykur
1 tsk. lyftiduft
1/2 tsk. matarsódi
1/2 tsk. salt
1 egg
2 msk. bráðið smjör
Örlítil olía

Aðferð:

1. Blandið mjólk og ediki saman í skál og látið bíða í fimm mínútur.

2. Blandið saman hveiti, lyftidufti, matarsóda og salti í stóra skál. Pískið eggið og smjörið saman við mjólkina sem ætti að vera farin að „súrna“ út af edikinu. Setjið hveitiblönduna saman við og hrærið uns blandan er orðin silkimjúk og laus við kekki.

3. Hitið stóra pönnu upp í miðlungs hita og smyrjið með olíu. Setjið 1/4 bolla af deiginu á pönnuna og steikið uns loftbólur fara að myndast á yfirborðinu. Yfirleitt er hægt að steikja nokkrar pönnukökur í einu en það fer alfarið eftir stærð pönnunnar. Snúið með spaða og steikið uns pönnukakan er orðin fallega gullinbrún.

4. Berið fram með hverju því sem hugurinn girnist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert